Við áramót: Gefur út bók og heldur málverkasýningu
Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokks
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að á árinu 2014 hafi margt gerst jákvætt í atvinnulífinu á Suðurnesjum. Hann segist ekki vera einn af þeim sem sífellt horfi í baksýnisspegilinn og bakki í gamla drullupollinn. Ásmundur ætlar sér að gefa út bók og halda málverkasýningu á nýju ári og reyna almennt að standa sig betur á öllum sviðum.
Hvað stóð upp úr í fréttum ársins 2014 á Suðurnesjum?
Í atvinnulífinu er það að Stolt Sea farm tók til starfa á Reykjanesi og framleiðir 500 tonn af Senegal flúru og fjárfestingasamningur var gerður við Algalíf á Ásbrú. Þá fjölgar hér gagnaverum og kísilver eru komin á framkvæmdastig. Þá hefur makríllinn skapað fjölda starfa til sjós og lands og haft í för með sér verðmætasköpun og minna atvinnuleysi. Uppbygging og stækkun fiskvinnsluhúsa og nýsköpun í vinnslu aukaafurða er ánægjuleg þróun. Uppbyggingin á Ásbrú og Keflavíkurflugvelli er afar ánægjuleg tíðindi.
Hvaða Suðurnesjamaður var mest áberandi að þínu mati þetta árið?
Arnar Helgi Lárusson fatlaður íþróttamaður sem setti a.m.k. 5 íslandsmet í hjólastólakappakstri og er formaður SEM samtakanna og beitti sér fyrir bættu aðgengi fatlaðra einstaklinga á árinu m.a. með kynningu og samkeppni í grunnskólum landsins. Arnar Helgi er fyrirmynd dugnaðar og áræðni þrátt fyrir fötlun sína og hann hefur fengið mig til að huga að eigin framgöngu fyrir samfélagið.
Hvað var það jákvæðasta sem gerðist á árinu?
Ég hef minnst á nokkur atriði, auk þess skuldaniðurfelling heimilanna, hallalaus fjárlög og fleira en það er ekki hægt að taka eitt atriði út þegar litið er yfir árið og þau tækifæri sem við eigum í þessu frábæra landi. Mannauðurinn er mikilvægasta auðlindin og við viljum stöðugt bæta lífsskilyrði í landinu. Ef við horfum fram á vegin og leggjum okkur fram, þá mun okkur farnast vel.
En það neikvæðasta?
Ég nenni ekki að elta ólar við neikvæðu hlutina. Þeir sem stöðugt horfa í baksýnisspegilinn og bakka út í gamla drullupollinn komast ekkert áfram, ég er ekki þar.
Hvað stóð upp úr persónulega hjá þér á þessu ári?
Hvað ég á góða eiginkonu og fjölskyldu sem gáfu mér bestu stundirnar á árinu og gefa mér líka tækifæri til að sinna starfi mínu og áhugamáli af alúð og ég fái allan þann tíma sem ég þarf til þess.
Ætlar þú að strengja áramótaheit?
Ég heiti því að standa mig betur á öllum sviðum á næsta ári. Gefa mér smá tíma til útivistar og göngu. Stefni á málverkasýningu eftir rúmt ár og gefa út bók í leiðinni. Ég vona að það gangi upp.
Hvað breytingar viltu sjá á Suðurnesjum á nýju ári?
Ég vil almennt sjá meiri kraft í samfélaginu, samtakamætti og samstarfi sveitarfélaganna til að koma Suðurnesjum í fremstu röð á Íslandi því hér eru vissulega mikil tækifæri og hér býr gott fólk.