Við áramót: Fór í hjólreiðaferð frá Vín til Búdapest
Oddný Harðardóttir svarar áramótaspurningum Víkurfrétta
Oddný Harðardóttir þingkona Samfylkingarinnar segir niðurstöður sveitastjórnarkosninga á Suðurnesjum helst standa upp úr á árinu sem er að líða. Oddný segist ætla að berjast af auknum krafti á árinu 2015 gegn misrétti og ójöfnuði í samfélaginu.
Hvað stóð uppúr í fréttum ársins 2014?
Sveitarstjórnarkosningarnar og niðurstöður þeirra. Það voru sannarlega tíðindi að meirihluti Sjálfstæðismanna féll í Reykjanesbæ. Það voru líka tíðindi að meirihlutinn hélt í Grindavík en féll samt.
Hvaða Suðurnesjamaður var mest áberandi að þínu mati þetta árið?
Sveitarstjórnarmaðurinn. Hann gegnir mikilvægu starfi og var áberandi á ári sveitarstjórnarkosninga.
Hvað var það jákvæðasta sem gerðist á árinu?
Sem jafnaðarmaður gladdist ég yfir því að jafnaðarmenn hafi fengið lykilhlutverk í Reykjanesbæ og myndi þar meirihluta með tveimur öðrum framboðum. Staða Reykjanesbæjar er orðin þannig að óumflýjanlega verður að taka erfiðar ákvarðanir til að rétta hana af og þá er mikilvægt fyrir bæjarbúa að það sé gert á forsendum jafnaðarstefnunnar. Ég er líka mjög ánægð með að jafnaðarmenn séu í meiri hluta bæjarstjórnarinnar í Sandgerði eins og á síðasta kjörtímabili. Við þurfum að styrkja stöðu okkar í hinum sveitarfélögunum en eigum þó sterkt baráttufólk fyrir góðum gildum jafnaðarstefnunnar í öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum.
En það neikvæðasta?
Stefna og ákvarðanir ríkisstjórnar Sjálfstæðismanna og Framsóknar eru að mörgu leyti mjög neikvæðar fyrir Suðurnesjamenn. Hún hyggst ekki leggja ríkisfé til nauðsynlegra framkvæmda við Helguvíkurhöfn á næsta ári, sker niður framlag til lögreglunnar á Suðurnesjum sem verja átti til að flýta málum barna sem eru þolendur kynferðisofbeldis, styttir bótatímabil langtímaatvinnulausra sem bitnar harkalega á okkar fólki og hækkar greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðiskerfinu. Svo greiðir ríkisstjórnin niður skuldir fólks sem er aflögufært en þeir fjölmörgu Suðurnesjamenn sem eru í vandræðum fá ekkert til að rétta sinn hlut. Ég hef miklar áhyggjur af því að ákvarðanir ríkisstjórnarinnar muni auka fátækt á Suðurnesjum, ekki síst fátækt barnafjölskyldna og leigjenda.
Hvað stóð upp úr persónulega hjá þér á þessu ári?
Fyrst og fremst er ég þakklát fyrir það að hafa fengið að fylgjast með uppvexti barnabarnanna minna þriggja. Annað eftirminnilegt er hjólaferð sem við hjónin fórum í ásamt gömlum vinum okkar frá námsárunum. Við hjóluðum frá Vín til Bratislava og þaðan til Búdapest. Þessi hjólaleið liggur um fallegar sveitir, þorp og borgir. Frábær ferð í einstökum félagsskap.
Ætlar þú að strengja áramótaheit?
Já ég ætla að strengja þess heit að berjast af auknum krafti á árinu 2015 gegn misrétti og ójöfnuði í samfélaginu. Svo ætla ég líka að drekka meira vatn.
Hvaða breytingar viltu sjá á Suðurnesjum á nýju ári?
Ég vil sjá breytingar sem leiða til aukins jafnaðar í samfélögunum á Suðurnesjum vegna þess að það er hollt og gott fyrir alla. Áherslan verði á fjölgun fjölbreyttra atvinnutækifæra sem skapa verðmæti og tækifæri fyrir íbúa svæðisins og að atvinnuleysi heyri sögunni til. Áherslan verði einnig á velferð barna, nám, umhyggju og skilning á mismunandi aðstæðum þeirra og þörfum. Enginn verði skilinn útundan og aðstæður fátækra barna fari batnandi. Ég vona líka að við Suðurnesjamenn sameinumst um málefni eldri borgara og krefjumst samvinnu að hálfu ríkisvaldsins um uppbyggingu fleiri hjúkrunarrýma strax á næsta ári, því annars blasir við mikill vandi í náinni framtíð. Við þurfum á samkennd að halda á svæðinu og samvinnu um stóru málin sem eru atvinnumál, menntamál, heilbrigðis- og velferðarmál.