Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

  • Við áramót: Endurreisn Reykjanesbæjar takist vel
    Ólafi Þór langar að takast á við ný verkefni í tónlistinni á nýju ári.
  • Við áramót: Endurreisn Reykjanesbæjar takist vel
    Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Sandgerðis.
Laugardagur 3. janúar 2015 kl. 11:00

Við áramót: Endurreisn Reykjanesbæjar takist vel

- Ólafur Þór Ólafsson svarar áramótaspurningum VF

Ólaf Þór Ólafsson, forseta bæjarstjórnar Sandgerðis, langar að sjá Suðurnesjamenn enn samhentari í þeim verkefnum sem við þurfum að vinna að til að efla svæðið. „Þá væri nú gaman að sjá stjórnarþingmenn af Suðurnesjum þora að taka harðari afstöðu með sinni sveit þegar hagsmunamál okkar hér suður með sjó eru á dagskrá, þó ekki nema væri að skipa Suðurnesjafólk í þær stjórnir sem starfa á vegum ríkisins og fjalla um mikilvæg hagsmunamál svæðisins“. Þetta segir Ólafur Þór m.a. í svörum sínum við spurningum sem Víkurfréttir lögðu fyrir hann nú um áramót.

– Hvað stóð upp úr í fréttum ársins 2014 á Suðurnesjum?
Þrátt fyrir að margt hafi gerst á árinu þá eru það stjórnarskiptin í Reykjanesbæ og erfið rekstrarstaða bæjarfélagsins þar sem hafa toppað allt annað. Ég verð líka að segja að það er hagsmunamál allra Suðurnesjamanna að vinnan við endurreisn Reykjanesbæjar takist vel því það veikir svæðið allt ef stærsta sveitarfélagið er hálf lamað vegna þungrar skuldastöðu.

– Hvaða Suðurnesjamaður var mest áberandi að þínu mati þetta árið?
Mig langar að nefna Tómas Young sem með blöndu af eldmóði og fagmennsku hefur byggt upp tónlistarhátíð í heimsklassa hér á svæðinu og ég vona svo sannarlega að við heimamenn gefum honum þann stuðning sem er nauðsynlegur til að ATP-hátíðin haldi áfram að vaxa og dafna.

– Hvað var það jákvæðasta sem gerðist á árinu?
Ef ég á að nefna eitt atriði þá vil ég leyfa mér að halda mér við minn eiginn garð og segja að það að Sandgerðingar hafi náð að klára að brottför sína úr Eignarhaldsfélaginu Fasteign sé það jákvæðasta sem gerst hafi á árinu.

– En það neikvæðasta?
Aftur vil ég halda mér við mína eigin sveit og nefna þá neikvæðu ákvörðun Landsbankans að loka útibúi sínu við Suðurgötuna í Sandgerði. Það voru mikil vonbrigði að Sandgerðingar skyldu þurfa að verða fyrir þeirri þjónustuskerðingu sem í þeirri ákvörðun fólst.

– Hvað stóð upp úr persónulega hjá þér á þessu ári?
2014 var ár mikilla breytinga hjá mér persónulega. Í framhaldi af skilnaði í upphafi árs hef ég þurft að takast á við fullt af verkefnum sem ég þekkti ekki áður eins og t.d. að búa einn og að vera helgarpabbi. Þá breyttist staða mín á vinnumarkaði um mitt ár og núna á Þorláksmessu lést faðir minn. En það eru ekki erfiðleikarnir sem lifa í minningunni heldur góðu stundirnar eins og afmælisfagnaður Hobbitana, að fara á rokkhátíð í útlöndum með bróður mínum, að sjá son minn skora fyrsta markið á ævinni, að eignast nýja vini, að ná að verja gæðatíma með öllum börnunum mínum saman og svona mætti lengi telja.

– Ætlar þú að strengja áramótaheit?
Ég strengi nú venjulega ekki áramótaheit, en það er hins vegar öllum hollt að setja sér markmið. Ég ætla t.d. að setja mér ný markmið á árinu 2015 í útihlaupum sem mér finnst sífellt skemmtilegra að stunda og eins langar mig að takast á við ný verkefni í tónlistinni svona til að nefna eitthvað.

– Hvað breytingar viltu sjá á Suðurnesjum á nýju ári?
Mig langar að sjá okkur Suðurnesjamenn enn samhentari í þeim verkefnum sem við þurfum að vinna að til að efla svæðið. Hér má t.d. nefna að til að tryggja nauðsynlega uppbygginu hjúkrunarrýma á Suðurnesjum þurfum við að standa sameinuð í stefnumótun og sókn til að fá ríkisvaldið í lið með okkur í þeim málaflokki. Eins tel ég okkur vera að sóa kröftum, fjármagni og hæfileikum með því að reka tvö atvinnuþróunarfélög á svæði þar sem búa innan við 22 þúsund manns og held að það þurfi að fara í það verk að sameina verkefni Kadeco og Heklunnar þar sem dregið verði úr mikilvægi ríkisins og stefnumótandi áhrif heimamanna aukin. Þá væri nú gaman að sjá stjórnarþingmenn af Suðurnesjum þora að taka harðari afstöðu með sinni sveit þegar hagsmunamál okkar hér suður með sjó eru á dagskrá, þó ekki nema væri að skipa Suðurnesjafólk í þær stjórnir sem starfa á vegum ríkisins og fjalla um mikilvæg hagsmunamál svæðisins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024