Við áramót: Ekkert toppar móðurhlutverkið
– Kristín María Birgisdóttir svarar áramótaspurningum Víkurfrétta
Kristín María Birgisdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, hefur trú á því að sá fjöldi þingmanna sem Suðurnesjamenn eiga muni beita sér betur fyrir svæðinu í heild og að staðan á fjárlögum 2016 fyrir Suðurnes verði ekki eins og hún er í dag. Leitin að hundinum Hunter, koma Beyoncé Knowles og Jay Z til landsins og bæjarstjórnarkosningar sl. vor eru einnig ofarlega í huga Kristínar Maríu.
– Hvað stóð upp úr í fréttum ársins 2014 á Suðurnesjum?
Fjárhagsleg staða Reykjanesbæjar, leitin að hundinum Hunter, koma Beyoncé Knowles og Jay Z til landsins og bæjarstjórnarkosningarnar. Það urðu ákveðin kaflaskil bæði hér í Grindavík og Reykjanesbæ. Í Reykjanesbæ féll meirihlutinn til fjölda ára en hér í Grindavík tóku fimm konur sæti í bæjarstjórn sem skipuð er sjö fulltrúum.
– Hvaða Suðurnesjamaður var mest áberandi að þínu mati þetta árið?
Dettur helst í hug iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir.
– Hvað var það jákvæðasta sem gerðist á árinu?
Fullt af jákvæðum hlutum gerðust. Auðlindagarðurinn hér á Reykjanesi hóf sig verulega til flugs. Bættar almenningssamgöngur eru loksins að komast í gang, Grindavík urðu bikarmeistarar í körfubolta, ungir íþróttamenn náðu góðum árangri, við eignuðumst atvinnumann í fótbolta, Daníel Leó, Grindavík varð 40 ára og fjöldi viðburða í tilefni þess haldnir á árinu, Bláa lónið hóf framkvæmdir við nýja hótelbyggingu og stærra og betra lón. Ný mannvirki risu hér í Grindavík, bókasafn, tónlistarskóli og ný og betri aðstaða við íþróttahúsið. Það sem toppaði hins vegar allt var auðvitað móðurhlutverkið.
– En það neikvæðasta?
Hér á Suðurnesjum er það líklega fjárhagsstaðan í Reykjanesbæ. Heilt yfir landið eru það kjaramál lækna, hversu margir þurfa að reiða sig á mataraðstoð Fjölskylduhjálpar, eldgosið í Holuhrauni og ömurlegt veður.
– Hvað stóð upp úr persónulega hjá þér á þessu ári?
Fæðing frumburðarins, Þórðar Halldórs, í byrjun apríl.
– Ætlar þú að strengja áramótaheit?
Nei, ég geri það sjaldnast. Markmiðið er yfirleitt, hvort sem það eru áramót eða ekki að reyna að vera alltaf besta útgáfan af sjálfri mér og gera betur í dag en í gær.
– Hvaða breytingar viltu sjá á Suðurnesjum á nýju ári?
Atvinnulega séð erum við á mjög góðri leið. Hins vegar eru enn fjölmargar fjölskyldur sem búa við bág kjör og hafa það afleitt. Það er að sjálfsögðu ekki bara bundið við Suðurnesin heldur allt land. Ég myndi vilja sjá hag þeirra sem hafa það skítt breytast til hins betra. Vonandi kemur betri tíð með blóm í haga fyrir þá sem lifa við og undir fátækramörkum. En það hefur oft hallað á svæðið þegar kemur að fjárveitingum til ákveðinna verkefna, má þar nefna, að teknu tilliti til fjárlagafrumvarpsins fyrir 2015, Þekkingarsetur Suðurnesja og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum sem sem fá lægst framlag pr. íbúa m.v. sambærilegar stofnanir annars staðar, framlög til HSS hækka hlutfallslega minnst milli ára m.v. annars staðar, Fisktækniskólinn hefur ekki fengið þjónustusamning við menntamálaráðuneytið til lengri tíma og svo mætti áfram telja. Við eigum fjölda þingmanna og þ.m.t. einn ráðherra sem ég hef trú á að muni beita sér fyrir svæðinu í heild og að þetta verði ekki staðan þegar fjárlög 2016 verða kynnt.