Við áramót: Átökin um gömlu sundhöllina
Guðbrandur J. Stefánsson er ánægður með að vera orðinn afi og líka það að vera farinn starfa aftur við grunnskóla sem honum finnst gaman og gefandi.
Hvaða stendur upp úr í einkalífi þínu á árinu?
Það að börn okkar Lindu haldi áfram að gera okkur að afa og ömmu. Ferð til Kanaríeyja með betri helmingnum, útskrift úr VOGL námi í verkefnastjórnun, fjárleitir á hestbaki sem ég fór í tvær helgar í september með keflvískum stórbændum að Hróðnýjarstöðum í Dölum. Ekki síst að ég sé enn að fá marbletti á upphandleggina vegna frákasta baráttu í körfubolta.
Fagnaðir þú ákveðnum áfanga eða byrjaðir þú á einhverju nýju 2018?
Já ég skipti um starf og er aftur farinn að starfa við grunnskóla sem mér finnst gefandi og skemmtilegt.
Hvað fannst þér stóra fréttin á landsvísu?
Endalaus fórnfýsi fólks í björgunarsveitum. Ég hef aldrei verið í björgunarsveit en finnst þetta fólk ótrúlegt og hjálpsemi þeirra gefa íslensku samfélagi jákvæða ímynd.
Hvað fannst þér stóra fréttin í nærumhverfi þínu?
Margt sem kemur upp í hugann en nefni helst: Átak Janusar Guðlaugssonar í heilsueflingu eldri borgara sem er magnað framtak og jákvætt að bæjaryfirvöld standi svona vel að baki því. Átökin um gömlu sundlaugina og að mínu mati sorglegt ef niðurstaðan verður sú að hún fari. Sameining Garðs og Sandgerðis sem ég tel jákvæða og eigi eftir að efla báða byggðakjarna þegar til lengri tíma er litið.
Hvað ætlar þú að borða um áramótin?
Kalkún með ýmsu góðu meðlæti.
Eru einhverjar áramóta / nýárshefðir hjá þér?
Ég held að við fögnum áramótum nokkuð svipað og aðrir á Íslandi. Fjölskyldan borðar saman, við horfum á skaupið, skálum við bjölluhljóminn í útvarpinu á miðnætti og skjótum upp nokkrum “spragellum” eins og yngri dóttir mín kallaði þær.
Strengir þú áramótaheit?
Nei en mig langar að nota tækifærið hér og þakka öllum samstarfið á árinu og óska landsmönnum farsæls nýs árs.