Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Við áramót: Að breyta neikvæðri umræðu í jákvæða
    Einar Jón ásamt félögum sínum í meirihlutanum í bæjarstjórn Garðs.
  • Við áramót: Að breyta neikvæðri umræðu í jákvæða
    Einar Jón Pálsson.
Mánudagur 5. janúar 2015 kl. 09:14

Við áramót: Að breyta neikvæðri umræðu í jákvæða

– Einar Jón Pálsson svaraði áramótaspurningum Víkurfrétta

„Ég vil að við Suðurnesjamenn stöndum saman og með samstilltu átaki allra takist að breyta neikvæðri umræðu í jákvæða enda gífurlega miklir möguleikar á svæðinu öllu. Ég vona og hef reyndar trú á að atvinnuástandið lagist og þannig gefist fólki færi á að stunda vinnu sem er ein mikilvægasta þörf einstaklingsins,“ segir Einar Jón Pálsson,  forseti bæjarstjórnar Garðs. Hann svaraði nokkrum áramótaspurningum frá Víkurfréttum

– Hvað stóð upp úr í fréttum ársins 2014 á Suðurnesjum?
Ég held ég verði að nefna fall meirihlutans í Reykjanesbæ og þær fréttir sem komu svo í kjölfarið varðandi fjárhagsstöðuna. Þá hafa fréttir af niðurskurði nýja meirihlutans verið mikið í fréttum og má með sanni segja að þetta hafa verið erfiðar fréttir fyrir íbúa Reykjanesbæjar sem og alla Suðurnesjamenn.

– Hvaða Suðurnesjamaður var mest áberandi að þínu mati þetta árið?
Ég held að ráðherra okkar Ragnheiður Elín  hafi nú verið mest áberandi í frétta- og samfélagsmiðlunum enda efa ég að nokkur hafi birt fleiri „selfie“ en hún .  
Þá hefur þingmaðurinn okkar Ásmundur Friðriksson verið duglegur að taka hin ýmsu mál til umfjöllunar. Hann hefur líka farið víða um kjördæmið og verið duglegur að flytja fréttir úr kjördæminu á samfélagsmiðlunum.

– Hvað var það jákvæðasta sem gerðist á árinu?
Ég held ég verði að nefna niðurstöður sveitarstjórnarkosninganna enda unnum við sjálfstæðismenn stórsigur í Garðinum. Það hefur verið ánægjulegt að halda áfram uppbyggingu fyrir íbúana og í lok árs var tekin í notkun stórbætt tómstundaaðstaða fyrir eldri borgarana. Þá eru framkvæmdir við Íþróttamiðstöðina að ljúka og mun öll aðstaða til líkamsræktar verða eins og best verður kosið.

– En það neikvæðasta?
Best að velta sé nú ekki mikið uppúr neikvæðni en ég verð að nefna að það var mjög sárt að sjá útibúi Landsbankans og Garðvangi lokað og fjölda starfa flytjast úr byggðalaginu.  Svo var náttúrulega mjög neikvætt að geysiöflugt blaklið bæjarstjórnar Garðs skildi ekki ná að vinna til verðlauna í strandblakinu á Sólseturshátíðinni

– Hvað stóð upp úr persónulega hjá þér á þessu ári?
Það var ánægjulegt að dóttur mín Una Margrét náði að spila sína fyrstu landsleiki í fótbolta á árinu en hún lék 7 landsleiki með U17 ára liðinu. Þá var ferðalagið með fjölskyldunni á erlendri grund ánægjulegt þar sem ættingjar voru heimsóttir og fylgst var með fótboltanum um leið.

– Ætlar þú að strengja áramótaheit?
Ég hef nú ekki gert mikið af því að strengja áramótaheit, ég hef þó gert það einstaka sinnum og hafa þau tekist misjafnlega. Ég tel þó að núna í upphafi árs muni ég skoða árið sem er framundan og setja mér nokkur markmið þó þau verði kannski ekki beint áramótaheit.

– Hvað breytingar viltu sjá á Suðurnesjum á nýju ári?
Ég vil að við Suðurnesjamenn stöndum saman og með samstilltu átaki allra takist að breyta neikvæðri umræðu í jákvæða enda gífurlega miklir möguleikar á svæðinu öllu. Ég vona og hef reyndar trú á að atvinnuástandið lagist og þannig gefist fólki færi á að stunda vinnu sem er ein mikilvægasta þörf einstaklingsins. Maður sem hefur vinnuþrek, hefur möguleika á að sjá sér og sínum farborða og það að taka þennan möguleika frá honum er ekki viðunandi ástand.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024