Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

VF Spjallið: „Ætla að stofna fyrirtæki“
Föstudagur 8. apríl 2011 kl. 15:39

VF Spjallið: „Ætla að stofna fyrirtæki“

Rúnar Óli Einarsson er 26 ára og stundar mastersnám í framkvæmdastjórnun við Háskóla Reykjavíkur. Hann er einnig mikill kylfingur og ætlar að eyða miklum tíma á golfvellinum í sumar. „Markmiðin í sumar eru að hafa gaman af því að spila með félögunum og auðvitað að komast í sveitakeppnina. Svo er landsmótið haldið á mínum gamla heimavelli, Leirunni, svo það verður einnig spennandi verkefni. Annars mun ég spila fyrir hinn ágæta golfklúbb GKj, Golfklúbb Kjalar,“ sagði Rúnar.

Rúnar Óli bjó í Danmörku í rúm 4 ár og kom heim á síðasta ári. Þar kláraði hann Bachelor gráðu í Constructing Architect and Management við Vitusbering University. Rúnar hefur unnið á sumrin við húsasmíði en hann útskrifaðist sem húsasmiður frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Rúnar var mjög efnilegur golfari og keppti nokkrum sinnum fyrir Íslands hönd. „Á þeim tíma sem ég stundaði framhaldsnám í FS keppti ég á Evrópumóti landsliða, Norðurlandamóti og nokkrum opnum áhugamannamótum erlendis. Núna er námið og fjölskyldan með allan minn hug. Ég bý í Kópavogi og á þriggja ára gamlan strák sem heitir Björn Atli Rúnarsson en hann er litli snillingurinn minn,“ sagði Rúnar.

Rúnar Óli átti erfitt með að nefna hvað væri eftirminnilegast úr golfinu en hann sagði útlöndin alltaf vera skemmtilegust. „Það sem stendur upp úr er að hafa spilað fyrir Íslands á erlendri grundu. Einnig var mikið afrek fyrir mig sem golfara að vinna klúbbmeistaratitl en það gerði ég í Golfklúbbi Reykjavíkur, Golfklúbbi Kiðjabergs og svo síðast en ekki síst í Horsens golfclub en þar spilaði ég þegar ég bjó í Danmörku.“

Rúnar stefnir á að klára masterinn bráðlega og segir draumastarfið sitt vera fyrirtækjarekstur. „Stefnan er að eiga mitt eigið fyrirtæki í framtíðinni, helst að loknu námi. Hvernig fyrirtæki það verður ræðst bara seinna,“ sagði Rúnar að lokum.

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024