VF Spjallið - „Höldum Jersey Shore kvöld einu sinni í viku“
María Ben Erlingsdóttir körfuknattleikskona úr Keflavík hefur undanfarin fjögur ár verið við nám í Bandaríkjunum ásamt því að spila körfubolta. Hún er í háskóla sem heitir University of Texas Pan American þar sem hún er á viðskiptasviði í fjármálanámi og mun María úrskrifast í maí næstkomandi. Skóli Maríu er staðsettur mjög sunnarlega í Texas fylki en í honum eru um 20.000 manns og eru um 90% nemanda frá Mexíkó, en landamærin við Mexíkó eru einungis í um 15 mínútna fjarlægð frá bænum Edinburg. Árið um kring er hitinn um og yfir 30 stig í bænum og María viðurkennir að þetta hafi verið töluvert menningarsjokk fyrir hana í fyrstu, bæði hvað varðar menninguna og tungumálið. Við tókum viðtal við Maríu sem birt var í síðasta tölublaði Víkurfrétta og sjá má hér. Við spurðum hana einnig út í hluti sem eru í uppáhaldi hjá henni þessa dagana.
Bitinn
„Olsen Olsen í Keflavík og Saffran á Íslandi.“
Bókin
„Ég kíki alltaf í The Secret þegar ég þarf og ég myndi segja að það væri uppáhalds bókin mín.“
Tónlistin
„Ég get hlustað á alla tónlist. En það sem ég er að hlusta mest á þessa dagana er Kanye West, Trey songz, Chris Brown og Nicki Minaj.“
Þátturinn
„Ég fylgist mikið með raunveruleikaþáttum hérna úti, horfi á The Kardashians og svo eru haldin Jersey Shore kvöld þar sem við komum allar saman og horfum á þessa snilldar þætti.“
Kvikmyndin
„Ég fór í bíó um daginn á No strings attached og hún var mjög góð. Uppáhalds myndin mín er þessi týpíska, Love and basketball.“
Vefsíðan
„Ég kíki daglega á facebook, karfan.is, vf.is, mbl.is, kkí, og utpabroncs.com.“