VF Spjall: Þriðja kynslóð íþróttakennara
„Ég ætlaði aldrei að verða íþróttakennari eins og foreldrar mínir eru en einhvernveginn endaði þetta svona,“ segir Sigurlaug Rúna Guðmundsdóttir sem er að útskrifast sem íþróttafræðingur í dag. Foreldrar hennar, þau Anna Lea Björnsdóttir og Guðmundur „Brói“ Sigurðsson eru bæði íþróttakennarar en hún ætlaði upphaflega að læra sjúkraþjálfarann en sá svo að það ætti ekki alveg við hana.
„Maður þekkir þetta allt saman í gegnum mömmu og pabba og er alin upp á leikjanámskeiðum og í líkamsræktarstöðinni hjá þeim. Öll systkini pabba eru líka íþróttakennarar nema eitt og afi minn er líka íþróttakennari, öll barnabörnin hans afa eru íþróttakennarar nema systir mín, þannig að það mætti segja að þetta sé mér í blóð borið og ekki komið neinum á óvart þegar ég ákvað að læra þetta.“
Hún lærði í Háskóla Reykjavíkur og segir námið hafa verið mikið verklegt og fjölbreytt og nánast eins og maður sé í lýðháskóla þessi þrjú ár sem námið spannar.
Áhugamál hennar eru flest tengd íþróttum og útiveru. Hún hefur gaman af körfubolta og lék lengi vel með Njarðvíkingum. Auk þess hefur hún gaman af ferðalögum, útiveru og göngum. Hún hefur m.a farið um miðausturlöndin og eyjaálfu og upplifað mikið af ævintýrum á ferðalögum sínum. Sigurlaug bjó í Danmörku um tíma en hana langar jafnvel að taka framhaldsnám erlendis en hún er ekki búin að ákveða hvenær eða hvort það verði.
Hún lærði nudd líka og sótti skóla heilunnar og töfra. „Ég er komin með fasta vinnu við Drafnarhús en það er dagfélag fyrir alsheimersjúklinga og fólk með aðrar tengda heilasjúkdóma. Þar er ég sé ég um allra líkamsrækt, stafagöngu, sund, leikfimi og allt mögulegt.“
Með skólanum hefur Sigurlaug verið að kenna sund hjá Íþróttafélagi fatlaðra og sjálf var hún með nuddstofu í Keflavík. Núna er hún að nudda hjá Crossfit Reykjavík en hún er kolfallin fyrir crossfitinu sem er stöðugt að verða vinsælla. „Það var Daníel kærasti minn sem dróg mig í þetta sport og mér finnst það alveg æðislegt. Það sem er heillandi við crossfitið er að stelpur geta alveg gert sömu hluti og strákarnir. Við getum alveg gert upphífingar og lyft þyngdum og allt það sem þeir geta. Það kemur manni í raun sífellt á óvart hvað maður getur gert og það er virkilega góð tilfinning.“
Eins og áður segir er Sigurlaug að útskrifast um helgina og ætlar hún sér að halda litla grillveislu fyrir fjölskyldu og nána vini. Þar verður mikil gítarstemning enda faðir hennar og bræður hans þekktir gleðigjafar. Foreldrar hennar búa á Kanaríeyjum á veturna og á Tyrklandi á sumrin þar sem þau starfa sem farastjórar en Sigurlaug ætlar sér að heimsækja þau til Tyrklands í lok sumars. Annars ætlar hún sér að vinna og reyna að ferðast mikið innanlands í sumar.
Mynd úr einkasafni: Sigurlaug á crossfitæfingu