Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

VF spjall: Myndin kemur mér alltaf í gírinn
Föstudagur 16. mars 2012 kl. 11:29

VF spjall: Myndin kemur mér alltaf í gírinn

- segir einn af aðalleikurum Með allt á hreinu



Sigurður Smári Hansson er einn af aðalleikurum söngleiksins Með allt á hreinu sem Leikfélag Keflavíkur og Vox Arena, leikfélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja, frumsýna í kvöld. Smári kvaðst afar spenntur fyrir kvöldinu en stressið var ekki til staðar þegar Víkurfréttir náðu af honum tali í morgun. „Það er mikil spenna í hópnum og ég tel að það verði mikil stemning í kvöld,“ sagði Sigurður en leikhópurinn ætlar að hittast fyrir sýningum til að gíra sig upp og svo verður að sjálfsögðu fagnað vel að sýningu lokinni.

Sigurður tók þátt í síðustu jólasýningu Leikfélags Keflavíkur þar sem hann lék fjögur stór hlutverk en það má segja að séu hans fyrstu skref í leiklistinni. Nú fæst hann við hlutverk Stinna Stuð sem ætti að vera flestum Íslendingum kunnur enda hefur myndin Með allt á hreinu verið til á nánast hverju heimili síðustu áratugina en myndin er 30 ára gömul í ár. Sigurður hefur fengist við tónlist sjálfur en hann hefur lært á þó nokkur hljóðfæri. „Ég hef verið að syngja í mörg ár og spila aðallega á gítar og gæti alveg hugsað mér að leggja tónlist fyrir mig í framtíðinni,“ en þar er leiklistin efst á blaði.

Sigurður er úr Garðinum en hann æfði fótbolta með Keflvíkingum áður en hann snéri sér að dómgæslu. „Ég var markvörður og þurfti yfirleitt að berjast um stöðuna við tvo landsliðsmenn og það endaði með því að ég fór í dómgæsluna,“ en Sigurður er á íþróttabraut í Fjölbrautaskólanum.

Sýningin er frábær skemmtun með lögum sem allir ættu að þekkja og sýningin er fyrir alla fjölskylduna að sögn Sigurðar og hvetur hann all til þess að mæta. „Ég veit ekki hversu oft ég hef séð myndina og hún kemur mér alltaf í gírinn.“

Hvað er í uppáhaldi hjá Sigurði?

Tónlist - Ég er eiginlega bara alæta á tónlist.

Sjónvarpsþátturinn - Ég horfi mikið á Friends og How I met your mother.

Kvikmyndin - Síðan ég fór að sjá Svartur á leik hefur hún verið í miklu uppáhaldi.

Flíkin - Engin spes flík í uppáhaldi.

Hluturinn - Gítarinn minn, ekki spurning!

Bókin - Ég les voða lítið.

Skyndibitinn - Subway.

Drykkur - Coca-cola.

Íþróttamaðurinn - Cristiano Ronaldo.

Leikarinn - Ég á mér engan uppáhalds leikara.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024