VF spjall: Liklegra að Leoncie verði bæjarstjóri í Garðinum
Örvar Þór Kristjánsson, starfar hjá Vodafone og þjálfar meistaraflokk karla hjá Fjölni í körfuboltanum. Örvar er fæddur og uppalinn í Njarðvík og þar býr þar enn, enda segir hann hvergi betra að vera. Örvar er hamingjusamur og vinamargur maður sem hefur að eigin sögn létta og netta sýn á lífið og tilveruna. Örvar mun stjórna Þorrablóti þeirra Njarðvíkinga í kvöld en þeir sem þekkja til kauða vita fyrir víst að þar munu eflaust einhverjir vafasamir brandarar líta dagsins ljós, enda Örvar þekktur fyrir að vera orðheppinn og hnyttinn.
Hvernig líst þér á Þorrablótið í ár, verður þetta eitthvað frábrugðið því sem áður hefur verið?
„Mér líst rosalega vel á þetta Þorrablót enda stefnir í fjölmennasta blót í sögu UMFN. Þorrablótin í Njarðvík eiga sér langa sögu og ég hugsa að þetta verði afar hefðbundið þótt vissulega verði eitthvað um óvænt atriði. Það verður amk tónlistaratriði sem ég er ótrúlega spenntur fyrir enda leiða þar saman hesta sína ótrúlega hæfileikaríkir menn (kannski ekki á tónlistarsviðinu) sem hafa æft stíft að undanförnu.“
Örvar segir mikla hefð fylgja þorrablóti Njarðvíkinga, þarna þekkji allir alla og blótið hefur bara verið partur af lífinu í Njarðvík í gegn um áratugina. „Þetta er hefð sem má alls ekki deyja út og það er alltaf gaman á þessum blótum þar sem Njarðvíkingar úr öllum deildum hittast og skemmta sér, lesist (detta almennilega í það og haga sér eins og villimenn)
Þú ert þekktur fyrir að vera frekar grófur þegar kemur að spauginu, hversu langt ferðu yfir línuna í kvöld?
„Öss, það verður að koma í ljós. Það fer eiginlega eftir því hvað maður verður grimmur á barnum,“ segir Örvar léttur í bragði en annars segir hann eitthvað vera í boði fyrir alla og hann hefur fulla trú á því að enginn verði móðgaður eða sár eftir kvöldi. „Fyrst og fremst á þetta að vera skemmtilegt þótt vissulega verði ég seint talinn kórdrengur í þessum efnum. Ég verð ansi nálægt línunni.“
Góð skotmörk í Keflavík
Nú eru menn að tala um glimrandi frammistöðu Njarðvíkingsins Jóns Björns Ólafssonar á Þorrablóti Keflvíkinga, þú munt væntanlega reyna að toppa hana?
„Jón Björn stóð sig víst frábærlega og blótið í Keflavík var afar vel heppnað. Þetta skiptir félögin miklu máli og gleður mig að sjá hversu fjölmenn blótin ætla að vera. Að mínu mati er Jón Björn einn af hnyttnari mönnum landsins og þrátt fyrir að hafa ekki útlitið með sér þá hefur hann margt til brunns að bera. Ég stefni á að gera vel en það verður erfitt að toppa Jón Björn enda hafði hann svo helvíti góð skotmörk þarna í Keflavíkinni. Annars kemur að því að við tökum eitt gigg saman – það yrði gróft en gott. Það er samt líklegra að Leoncie verði bæjarstjóri í Garðinum en að ég toppi þennan heiðurspilt sem Jón Björn er.“
Hverjir verða teknir fyrir?
„Ég gef það ekki upp en það verður eins og fyrr segir enginn sár eftir þetta. Það þarf enginn að hafa nokkrar einustu áhyggjur af mér. Það er frekar að menn fái skotin í annálnum fræga en hann mun víst verða ansi beittur að vanda en þann annál gera þeir fjarskafögru bræður, Ólafur og Stefán Thordersen.“
Borðarðu þorramat, hvað er þá í uppáhaldi?
„Ég borða eitthvað af þessu drasli en er enginn rosalegur aðdáandi matarins, frekar hefðarinnar þá. Maður verður samt að taka þátt og láta eitthvað af þessu ofan í sig bara uppá fjörið. Sviðakjammi, sviðasulta og harðfiskurinn mun skipa veglegan sess á mínum disk.“ Örvar fékk matareitrun í Tyrklandi í sumar og segir magann ennþá vera að jafna sig. „Ég verð að fara varlega svo ég geri ekki bókstaflega í brók uppá sviði.“
Nú veit ég til þess að þú ert mikið í ræktinni og að hlaupa, hvernig byrjaði það allt saman?
„Greini kaldhæðnina þarna enda hef ég verið latur undanfarna mánuði. Veit að það er erfitt að horfa á þennan skrokk og ímynda sér að ég æfi nánast ekkert en þannig er þetta nú bara. En annars þá var ég að byrja í týpíska janúar átakinu og ætla mér að vera kominn í gír í sumar, þá hlaupum við félagarnir talsvert enda komst ég að því að það er bara nokkuð gaman. Einar Árni og Friðrik Pétur þjálfarar UMFN hafa verið duglegir að hlaupa (á eftir mér yfirleitt) með manni undanfarin sumur og það er ótrúlega skemmtilegt. Falur Harðarson úr Keflavík fékk að fljóta með nokkrum sinnum en gafst fljótlega upp svo ég skora á hann að koma aftur í hópinn í sumar.“
Við skutum svo nokkrum léttum spurningum að Örvari að lokum sem varða eftirlætis hlutina hans:
Fjölnir eða Njarðvík?
„Verð alltaf Njarðvíkingur og það mjög stoltur. Leið mín á eflaust eftir að liggja aftur í Njarðvíkurnar fyrr en seinna en núna er það bara áfram Fjölnir! Það er frábært að vera í Grafarvoginum.“
Kvikmyndin?
Shawshank Redemption
Bókin?
Býr Íslendingur Hér, ævisaga Leifs Muller.
Sjónvarpsþáttur?
Family Guy
Hlutur?
Blackberry síminn minn
Flík?
Nærbuxurnar sem ég festist í úti í febrúar í fyrra. Yfirleitt sef ég nakinn en þakkaði fyrir það í fyrra að vera í þessum forlátu nærbuxum, annars hefði nágranninn aldrei hleypt mér inn.
Skyndibiti?
Borgarinn hjá Baldri á Biðskýlinu klikkar aldrei
Drykkur?
Vatn
Tónlistin?
Er algjör alæta og það er erfitt að gera uppá milli en verð að nefna Mugison núna enda alveg magnaður listamaður. Einnig eru frábærir hlutir að gerast að vanda á Suðurnesjunum í tónlist.
Íþróttamaður?
Michael Jordan