VF Spjall: „Hefur gengið framar björtustu vonum“
Edda Ýr Aspelund hefur ásamt kærasta sínum, Haraldi Leví nýlega opnað fataverslun á laugarvegi 55. Verslunin ber nafnið Lóla og selur einungis notaðan fatnað. Edda sem er 23 ára er búsett í Reykjavíkum þessar mundir en er úr Reykjanesbæ.
„Þetta hefur gengið framar okkar björtustu vonum. Mikið hefur verið að gera þessa virku daga síðan það opnaði en veðrið var ekki uppá marga fiska um síðustu helgi.Við erum strax búin að ganga frá nýrri pöntun, við þorðum ekki að gera það strax en viðbrögðin hafa verið mjög góð,“ segir Edda Ýr um fyrstu viðbrögð við versluninni.
Edda segir þetta hafa verið gamlan draum. Hana hafi lengi dreymt um að vinna í kringum fín föt og fallegt skart og ennþá skemmtilegra sé að standa sjálf í því að versla inn. Edda var að klára textíl- og fatahönnunarbrautina í FB. Henni fannst það mjög skemmtilegt og sér fyrir sér að halda áfram í textíl náminu. Einnig finnst henni áhugavert að læra fjölmiðlafræði í HÍ.
Í Lólu er bæði karla- og kvennafatnaður og stíllinn er mjög fjölbreyttur. Stílarnir spanna marga áratugi svo flestir finna eitthvað við sitt hæfi.
Er þessi verslun frábrugðin þeim Vintage búðum sem eru fyrir í Reykjavik? „Hún er minni og því persónlegri. Einnig reynum við að hafa verðin eins góð og mögulegt er.“
Edda segir gríðarlega mikla vinnu á bakvið þetta allt saman. Það fari mikill tími í þetta þannig að það skiptir miklu máli að eiga góða að í svona framkvæmdum.
Nokkrir hlutir sem að Edda hefur gaman af:
Bókin
„Ég las nokkuð nýlega Karitas án titils og framhaldið af henni Óreiða á striga. Ótrúlega góðar bækur. Svo er líka Kona fer til læknis mjög góð bók. Uppáhaldsbækurnar mínar þessa dagana eru samt bækur um munstur og stensla.“
Kvikmyndin
„Almost famous er uppáhalds. Svo eru tvær bíómyndahefðir hjá mér sem eru Godfather myndirnar um páska, og Lord of the Rings um jólin. Seinasta mynd sem ég horfði á er Big Fish, sem er yndisleg.“
Hlutur
„Pési, bangsi sem bróðir minn prjónaði þegar hann var í 3.bekk.“
Sjónvarpsþáttur
„Svo margir. Nýjasti er samt An Idiot Abroad, með Karl Pilkington.“
Matur
„Gott sushi í góðum félagsskap er best.“
Flíkin
„Það er ómögulegt að gefa fullnægjandi svar við þessu. Nota mikið leggings sem ég sauma sjálf, þykir líka vænt um bleika gollu sem ég keypti í París, og Marc by Marc Jacobs kjólarnir skipta mig líka miklu máli.“
Tónlistin
„Ég fíla frekar fjölbreytta tónlist þótt ég sé alls engin alæta. Gæti talið upp endalaust en uppáhalds uppáhöldin eru David Bowie og Elton John.“
Vefsíðan
„Samkvæmt google chrome er það; google, youtube, wikipedia, facebook, cocoperez, tölvupósturinn og helstu fréttamiðlarnir,“ segir Edda Ýr að lokum sem ætlar sér að Lólast í sumar og hafa gaman.
[email protected]