VF Spjall: „Fólk hefur haldið að ég sé hinsegin vegna þess að ég er hress“
„Eins og er þá túra ég um landið með uppistandarahópnum Innrásarvíkingunum. Einnig stunda ég verklegt flugnám hjá Flugakademíu Keilis og bý heima hjá mömmu og pabba. Uppistand og flugnám er ekki góð blanda ef þig langar að eiga mikinn pening en það er einkar þægilegt að búa heima hjá mömmu þar sem ég þarf ekki lengur að strauja allar skyrturnar mínar. Hetjan hún mamma gerir það fyrir mig,“ segir uppistandarinn ÓskarP sem kemur frá Reykjanesbæ sem er sennilega frægur fyrir allt annað en að ala af sér grínista. Innrásarvíkingarnir eru hann og Rökkvi Vésteinsson ásamt Begga blinda.
Hvað ertu að bralla um þessar mundir?
„Eins og er þá er ég að horfa á kvikmynd og undirbúa mig fyrir að koma fram um helgina. En annars þá er maður alltaf að semja nýja brandara og fara í gegnum efnið sitt til þess að betrumbæta það og gera það betra og fyndnara. Svo er það að klára verklegt blindflug til að geta flogið á milli staða á Íslandi í sumar.“
Í sumar ætlar Óskar að túra um landið með Innrásarvíkingunum og láta eins marga hlægja og hægt er enda finnst honum fólk eiga það skilið meira nú en nokkurn tímann áður.
„Íslendingar hafa verið einhvernveginn svo óhressir síðastliðin ár að núna eigum við öll bara að fara að hlæja aftur. Hætta að skammast okkar einhvern veginn fyrir að vera Íslendingar og fara aftur í það að vera við sjálf, fallegasta og sterkasta fólk í heimi. Allir karlmenn eiga því að fara á sjóinn og stelpurnar úr Gucci og aftur í lopapeysurnar.“
Hvernig byrjaði þetta samstarf ykkar Begga og Rökkva?
„Við Rökkvi byrjuðum að tala saman á Facebook og þá ákváðum við að það væri gaman að koma nokkrir uppistandarar saman og túra um landið og skemmta fólki. Beggi og hann þekktust fyrir og höfðu verið að viðra hugmyndir um að fara á flakk en þegar ég bættist í hópinn ákváðum við að slá bara til og fara á fullt í þetta. Svo bjuggum við til nafn á hópinn okkar, prentuðum plakat, fórum í útvarpsviðtöl og núna erum við bara bókaðir á yfir 15 stöðum um allt land í sumar. Held að nanfið Innrásarvíkingarnir sé það auðvelt að muna að fólk leggi strax við hlustir. Halda eflaust að það sé verið að fara að fjalla um eitthvað neikvætt.“
Ertu búinn að vera lengi í uppistandi eða gríni einhverju?
„Nei, ég er búinn að vera leiðinlegur rosalega lengi. Nei nei, það eru um tvö ár síðan að ég byrjaði að finna minn stíl, skrifa efni og prufa hitt og þetta. En annars er ég búinn að vera fyndinn í mörg ár í partýum og þess háttar. Alltaf líka verið maðurinn sem engum finnst gaman að fara í búð með því að ég brosi alltaf allann tímann og tala við alla. Enda halda eflaust margir Suðurnesjamenn að ég gangi ekki alveg á öllum því ég er alltaf svo hress. Reyndar hefur fólk líka alltaf haldið að ég sé hinseginn útaf því og stelpur verða alltaf jafn hissa þegar ég lýsi yfir áhuga mínum á að sofa hjá þeim. Furðulegt mál.“
Hverjir eru þínir áhrifavaldar og eftirlætis grínistar?
„Þeir sem ganga ekki fram af fólki. Ellen DeGeneres er gott dæmi um uppistandara sem elskar áhorfendurna sína. Ég lít líka mikið upp til fólks sem þorir að vera það sjálft og fer fram af einlægni og trúfestu gangnvart sjálfu sér í öllum sínum málum. Ég reyni það. Þó svo að ég sé kannski ekki að segja mjög persónulega hluti á sviði þá vill ég samt að fólki líð vel á uppistandi hjá mér og því blöskri ekki við hlutum sem ég segi. Ég vil að fólk gangi út af skemmtunum mínum með bros á vör og hamingju í hjarta í marga daga. Þar kemur Lee Evans sterkur inn að mér finnst. Mér líður allaveganna mjög vel með að hlægja að honum.“
Áhugamáli ÓskarsP eru mörg. „Golf, skvass, daðra við kvennfólk, jakkaföt, grín og þessháttar er kannski fremst en það sem á hug minn allann er flugið. Því þar fær maður að vera ekki fyndinn. Þar er allt búið að plana fyrirfram og allt virkar bara eftir reglum flugsins. Þú daðrar t.d. ekkert við flugumferðastjóra í gegnum talstöðina af því þú veist ekkert hvernig skapi þeir eru í eða hvort það er mikið eða lítið að gera hjá þeim. Auk þess þá eru þetta flest allt karlmenn eða mjög stjórnsamar konur, hvorugt af því eru mínar týpur.“
Hvað er í uppáhaldi hjá uppistandaranum ÓskariP?
Matur
„Allur íslenskur matur er í sérlegu uppáhaldi hjá mér. Þá aðallega fiskur og lamb. Mér finnst líka gott að borða það sem hefur ferðast sem styðst úr náttúruni.“
Drykkur
„Íslenskt vatn er best í heimi. Að búa erlendis kennir manni það. Vatn í Flórída er ekki gott.“
Bók
„Moby dick, af því að hún er svo endalaust löng að ég get verið að lesa hana næstu árin.“
Bíómynd
„Já, bíómynd. Þær eru svo margar að það er erfitt að telja þær upp. En Resevoir Dogs er í miklu uppáhaldi. Það er sú mynd sem gerði það gífurlega svalt að mínu mati að ganga í jakkafötum, allaf. Jafnvel þó svo að þú sért með sjö lítra af blóði utan á þér.“
Sjónvarpsþáttur
„How I met your mother er í miklu uppáhaldi. Svo finnst mér Landinn á Rúv líka einstaklega skemmtilegur. Sýnir á svo skemmtilegan hátt fjölbreytileika mannlífsins á Íslandi.“
Hlutur
„Gemsinn minn. Gæti aldrei lifað án hans. Það er allt í honum.“
Tónlist
„Já mér finnst gaman að tónlist og á alveg mín uppáhalds lög.“
Vefsíður
„www.oskarp.is er í miklu uppáhaldi þessa dagana. Svo er það líka Facebook, maður verður aldrei þreyttur á henni enda alltaf fullt af liði þar. Og ef manni vantar eittvað að gera þá hendir maður bara einni færslu inn og þá hringir fólk í mann,“ segir Óskar að lokum.