VF spjall: Ekki of gamall fyrir teiknimyndir
Ástþór S. Baldursson og er 16 ára gamall Keflvíkingur á tölvufræðibraut í FS. Auk þess að vera tölvunörd er hann líka mikið tónlistarnörd og elskar fátt meira en að liggja uppi í rúmi með eitthvert hljóðfæri. Ástþór er einn af liðsmönnum Gettu Betur liðs FS-inga en þau munu etja kappi við FG í útvarpssal næstkomandi fimmtudag. Ástþór tók þátt í Gettu Ennþá Betur, spurningarkeppni grunnskóla á Suðurnesjum, og vann fyrir hönd Holtaskóla og segir hann að greinilega hafi það spurst út til umsjónarmanna Gettu Betur liðsins í FS því hann var beðið um að koma í inntökuprófið fyrir liðið, og komst að lokum í liðið.
Hann segir að alltaf hafi verið mikið um að spilað séu spurningaspil og þess háttar á hans heimili. Pabbi hans og bróðir eru báðir mikið fyrir svona keppnir og þess má geta að faðir hans, Baldur Guðmundsson, hefur verið í Útsvar liði Reykjanesbæjar um árabil.
Víkurfréttir tóku Ástþór í létta yfirheyrslu.
Fékkstu eitthvað skemmtilegt í jólagjöf?
Ég fékk ullarsokka frá mömmu og pabba (ásamt fleiru) sem ég held mjög mikið upp á.
Nefndu eitthvað sem fáir vita um þig?
Ég vil frekar tapa í spili án þess að fá hjálp en að vinna með hjálp
Hver er klárastur í liðinu hjá FS?
Þórarna er klárlega klárust á meðan Hinrik er gáfaðastur.
Hvernig kanntu við þig í FS?
Kann mjög vel við mig í FS. Félagslífið gott og ég er búinn að koma mér vel fyrir.
Eldar eða Hljómar?
Þetta er ekki sanngjörn spurning. En þetta fer eftir fílingnum sem maður er í. Ætla samt að segja Eldar. Er orðinn meira soft þegar kemur að tónlistarsmekk.
Eftirlætis staður í heiminum?
Skólavegur 12. Kann hvergi betur við mig heldur en í Geimsteini. Sama hversu oft ég fer þangað finn ég mér alltaf eitthvað áhugavert að skoða eða hlusta á.
Hvað er svo í uppáhaldi hjá Ástþóri?
Tónlist
Hlusta á nánast hvað sem er þó að Fleet Foxes séu í uppáhaldi núna. Þeir voru að gefa út frábæra plötu á seinasta ári sem ég er búinn að hlusta á í bak og fyrir.
Sjónvarpsþáttur
Fylgist grannt með ævintýrum Finn og Jake í Adventure Time. Sumir myndu kannski segja að ég væri full gamall fyrir teiknimyndir en þessir þættir eru bara hrein snilld.
Kvikmynd
Verð að segja að uppáhaldið sé Pulp Fiction. Tarantino náttúrúlega bara frábær leikstjóri og hann er með frábæran leikhóp til þess að leikstýra. Síðan er tónlistin líka valin af fullkomnun.
Flík
Ullarsokkarnir frá mömmu og pabba. Hágæða flík úr Herrafataverzlun Kormáks og Skjaldar sem ná mér upp á hné.
Hlutur
Fender Jaguar bassinn minn. Fermingargjöf sem ég ætla með mér í gröfina. Það er að segja ef hann eyðilegst ekki af ofnotknun fyrir það.
Bókin
Lord of the Rings. Get ekki sagt hvaða bók því þær eru allar meistaraverk.
Skyndibitinn
KFC. Fór á KFC stundum þrisvar eða fjórum sinnum í viku í hádeginu á seinustu önn. Og ekki er það að ástæðulausu. Það skiptir ekki máli hver máltíð mánaðarins er því hún er alltaf góð.
Drykkur
Kók.
Matur
Er mjög mikið fyrir kjöt og uppáhalds kjötið hreindýrakjöt. Það nær rétt svo að toppa piparsteikur.
Íþróttamaður
Manny Pacquiao. Hversu margir geta orðið heimsmeistarar í 6 þyngdarflokkum?