Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

VF Spjall „Áhugi fólks á lífrænum afurðum fer ört vaxandi,“ segir Sirrý Svöludóttir
Laugardagur 30. apríl 2011 kl. 14:44

VF Spjall „Áhugi fólks á lífrænum afurðum fer ört vaxandi,“ segir Sirrý Svöludóttir

Sirrý Svöludóttir er 27 ára Keflavíkurmær sem starfar sem markaðsstjóri hjá Yggdrasil sem sérhæfir sig í innflutningi á lífrænt vottuðum afurðum. Þar sér hún um að markaðssetja vörur, koma upplýsingum áleiðis um lífrænar vörur, lífsstílnum sem þeim fylgir og margt fleira. Starfið segir Sirrý alveg ofboðslega líflegt og skemmtilegt og ótrúlega fjölbreytt.

Sirrý er stúdent af félagsfræðibraut FS og síðar hóf hún nám í félagsfræði í HÍ en hún segist ekki hafa fundið sig þar. Hún fékk svo óstjórnlegan áhuga á markaðsfræði og almannatengslum og klárar nám frá Opna háskólanum í HR núna í júní í þeim fræðum. „Ég er svo bara sjálflærð í málum hvað varðar heilsu og mataræði en það hefur bara komið að sjálfu sér vegna mikils áhuga,“ segir Sirrý sem hefur brennandi áhuga á lífrænum lífstíl. Sirrý er í sambandi með Pétri Darra Sævarssyni viðskiptafræðingi og á hún eina 5 ára dóttur, hana Svölu Rún sem hefur töluverðan áhuga á lífrænum málefnum eins og mamman.

„Ég bý á frábærum stað alveg miðsvæðis í 101 Reykjavík sem er töluverður munur frá því að hafa alist upp í heimabænum Keflavík, þó ég muni alltaf bera sterkar taugar til Keflavíkur þá eru fleiri tækifæri hérna sem ég hef getað nýtt mér.“

Sirrý segir að sér finnst dásamlegt að búa í bænum en auðvitað sakni hún þeirra forréttinda sem hún bjó við í Keflavík. Til dæmis að geta eytt tíma á hverjum degi með mömmu sinni. Svo saknar hún þess ótrúlega að hafa ekki garð. „Það verður örugglega langt þangað til ég kem aftur heim en ef ég hefði ekki flutt frá Keflavík þá væri ég sennilega ekki gera það sem ég elska að gera í dag.“


„Ég er svo heppin að starfa við mitt helsta áhugamál en ég er sennilega með skrýtnustu áhugamál í heimi. T.d hef ég ótrúlega gaman að lesa bækur sem snúa að sjúkdómsvæðingu, anatómíu og næringarfræði. Ég stunda yoga þegar ég gef mér tíma og er nýfarin að hlaupa og svo reyni ég að leggja mitt af mörkum í nýstofnuðum Samtökum lífrænna neytenda meðfram öllu öðru og ekki má gleyma fjölskyldunni og vinkonum. Tíminn minn fer í raun mestmegnis í hluti sem tengist vinnunni á einn eða annan hátt og svo finnst mér ofboðslega gaman að öllu sem er með sál, t.d húsgögn og húsbúnaður og fer því ótal oft í Góða Hirðinn,“ segir Sirrý aðspurð um hver séu hennar helstu áhugamál.

Hvenær kviknaði þessi áhugi þinn á lífrænum hlutum og hollustu?
„Það gerðist þegar ég var um 16- 17 ára og það var í litlu eldhúsi á Skólaveginum, nánar tiltekið í eldhúsinu hennar Emelíu fyrrum tengdamóður minnar. Hún ber eiginlega höfuðábyrgð á þessum áhuga mínum. Það sem vakti forvitni mína í fyrstu var að mér fannst alveg ferlega skrýtið hvað hún hafði mikið fyrir því að kaupa í matinn. Ég skildi ekki hvers vegna hún þurfti að fara reglulega alla leið til Reykjavíkur til að kaupa nokkra hluti eins og lífrænar hafraflögur, sérstakt krydd án msg og allskyns grænmeti í brúnum bréfpoka merktum Yggdrasil. Smátt og smátt fékk ég svo að bragða á réttum sem þau hjónin elduðu af mikilli ást og natni og þaðan var ekki aftur snúið. Mér fannst þessi lífsstíll mjög áhugaverður og öðruvísi og ég held að það hafi kannski gert það að verkum að ég hafi tekið skrefin sjálf og tekið mín fyrstu skref í lífrænum lífsstíl.“


Sirrý hefur bloggað í mörg ár en síðustu ár hefur hún einbeitt sér að skrifum um hvers vegna fólk ætti að borða meira lífrænt og stunda lífrænan lífsstíl. Bloggið segir hún lið í því að hjálpa fólki að taka sín fyrstu skref og einnig til að kenna fólki að gerast meðvitaðri neytendur. Sirrý segir að á Íslandi ríki mikil vanþekking að hennar mati á hvað sé lífrænt ræktað og merkingun orðsins lífrænt. Hér haldi flestir að allt sem er ræktað og framleitt hér á landi sé næstum því lífrænt vottað „en það er svo fjarri lagi, sumir halda einnig að þeir sem borði lífrænt séu sérvitringar."

„Það sem heillaði mig við lífræna ræktun er sú staðreynd að sá matur er ræktaður án lyfja, hormóna, erfðabreyttra efna og tilbúins áburðar og jafnframt fer lífræn ræktun mun betur með umhverfið og dýrin. Svo er hann oftar en ekki margfalt næringarríkari matur. Ég fæ fína útrás á að miðla þessum upplýsingum í gegnum bloggið. Það sem er gaman við þetta er að áhugi fólks virðist vera ört vaxandi á lífrænum afurðum og það er ánægjulegt að taka þátt í að efla vitundina smátt og smátt,“ segir Sirrý en hér má skoða bloggið hennar.





Við forvitnuðumst svo um ýmsa hluti sem Sirrý heldur uppá.
„Ég verð að nefna tölvuna mína og iphone-inn sem hjálpar mér að skipuleggja mig og geymir alla tónlistina sem ég hlusta á, hálsmen sem ég fékk þegar ég eyddi mánuði á Indlandi og hringur sem ég erfði eftir ömmu mína, ég tek hann aldrei af mér,“ segir Sirrý um þá veraldlegu hluti sem hún heldur uppá.

Maturinn
„Hirsirétturinn hennar Emelíu og maturinn hennar Lukku í Happ.is.“

Bókin
„Allar nördarlegar heilsu - og næringarbækur og þar fram eftir götunum. Ég er þessa dagana að lesa bók sem heitir Meat Market og fjallar um verksmiðjubúskap og þann falda kostnað sem í honum felst.“

Kvikmyndin
„Ég man ekki eftir neinni í augnablikinu.“

Tónlistin
„Ég verð að nefna keflvísku hljómsveitina Valdimar sem er að gera frábæra hluti og svo finnst mér Radiohead góðir.

Vefsíðan
„Auðvitað bloggið mitt svoludottir.wordpress.com, ný heimasíða Samtaka lífrænna neytenda - www.lifraen.is, Yggdrasill.is, Naturalnews.com og ég á mér alveg fáránlegt áhugamál en það er að skoða fasteignir út um allan heim á netinu, hvort sem þær eru í Reykjavík, New York eða Stokkhólmi. Þá skoða t.d ég Corcoran.com og apartmenttherapy.com.“

Sjónvarpsþátturinn
„Ég er lífið fyrir að glápa á sjónvarp, en þeir þættir sem ég hef horft á undanfarið er t.d Desperate Houswifes og Dexter.“

Myndir úr einkasafni: Á neðri myndinni er Sirrý stödd á Indlandi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024