VF spjall - Soðin ýsa og slátur í uppáhaldi
Óskar Pétursson er markvörður og nýr fyrirliði Grindvíkinga í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Óskar er á lokaári sínu í Vélskóla Íslands og eyðir sumrum sínum yfirleitt í Grindavík, annars er hann búsettur í Reykjavík. Síðan Óskar tók við fyrirliðabandinu hafa Grindvíkingar ekki tapað leik, þeir eru nú orðnir 7 samtals og nú síðast náðu þeir 1-1 jafntefli gegn KR á útivelli. Óskar segir tilfinninguna sem fylgir því að bera fyrirliðabandið vera mjög góða. „Ég lærði af Norðanstálinu Orra Frey Hjaltalín og það er heiður að fá að vera fyrirliði í þessu liði innan um alla þessa snillinga. Vonandi höldum við svo áfram ósigraðir,“ sagði Óskar þegar Víkurfréttir höfðu samband við hann í vikunni.
Fyrirliði Grindvíkinga hefur verið upptekinn í sumar því auk þess að leika með Grindvíkingum þá hefur hann verið að þjálfa yngri flokka hjá félaginu, ekki má svo gleyma því að hann fór með U-21 liði Íslands til Danmerkur í sumar. „Það var mikil upplifun. Þrátt fyrir að hafa spilað lítið þá var þetta mjög gaman. Margir leikmenn á mótinu spila fyrir sterkustu lið í heiminum og þetta sýnir í rauninni hversu stutt það er á stóra sviðið.“
Óskar hefur í raun fengið smjörþefinn af stóra sviðinu en þegar hann var 16 ára var hann í eitt og hálft ár hjá enska liðinu Ipswich. Þann tíma segir Óskar hafa verið gríðarlega reynslu fyrir sig. „Já. Gífurlega góð reynsla myndi ég segja. Ég fór út 16 ára og var þarna í eitt og hálft ár. Maður lærir mikið af því að þurfa allt í einu að standa á eigin fótum og fara burt frá öllu sem maður þekkir. Að mörgu leyti er þetta samt erfitt. Sérstaklega þar sem ég braut á mér úlnliðinn rétt áður en ég fór út og gat því ekki tekið þátt í æfingunum fyrsta hálfa árið. Svo loksins þegar ég byrjaði að geta æft og spilað var þetta algjör lúxus. En svo á undirbúningstímabilinu á næsta tímabili gaf úlnliðurinn sig aftur sem þýddi að ég yrði frá í að minnsta kosti hálft ár. Þá tók ég ákvörðun um að koma heim og fara í skóla.
Hvað finnst Óskari svo um sumarið í Grindavík, eru þeir ekki bara á raunhæfum stað í deildinni? „Fyrir mót var okkur spáð á þessum slóðum en okkar markmið voru miklu hærri. Þannig að mér finnst sumarið ekki hafa gengið nægilega vel upp hingað til en það er alltaf margt sem lærist og má setja í bankann.“
Spilar í 1. deild í körfuboltanum
Fyrir utan að spila fótbolta þá á Óskar sér önnur áhugamál. „Skotveiði hefur vaxið gríðarlega sem áhugamál hjá mér seinasta árið þar sem það hentar vel yfir vetrartímann og svo verð ég að minnast á körfuboltann. Gríðarlega spennandi tímabil framundan hjá ÍG eftir að hafa unnið 2. deildina í fyrra og vera komnir í 1. deild.“
Hvað er í uppáhaldi hjá Óskari Péturssyni?
Skyndibitinn
McDonalds
Bókin
Töflubók fyrir málm og véltækni eftir Dietmar Falk, Peter Krause og Gunther Tiedt
Tónlist
Fræ, Valdimar, Kid Cudi.
Kvikmynd
Lock Stock, Snatch, RockRolla.
Sjónvarpsþættir
Entourage, Sons of Anarchy, House, Game of thrones.
Drykkur
Mountain Dew í dós.
Matur
Lambalæri, Soðin ýsa og slátur.
Íþróttamaður
Jonah Lomu.
Hlutur
Gestabókin.
Flíkin
Úlpan og jordan buxurnar.