VF Spjall - Mælir með hræðilegum yfirmönnum
Grindvíkingurinn Erla Sif Arnardóttir er í námi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja á félagsfræðibraut. Um helgar leysir hún af í sjoppunni Aðal-Braut í Grindavík og vinnur samhliða í Þorbirninum þær helgar sem hún getur.
Erla sem er 17 ára er hluti af sundliði Grindvíkinga sem þessa stundina eru að synda maraþonsund til styrktar Garðari Sigurðssyni, fertugum sjómanni í Grindavík sem glímir við góðkynja æxli við talstöðvar heilans. Krakkarnir ætla að synda frá föstudagseftirmiðdegi og fram á hádegi á sunnudag en stefnt er að því að leggja að minnsta kosti 100 km að baki en því takmarki náðu þau núna í hádeginu.
Við tókum tal af Erlu og kynntumst þessari duglegu sundkonu aðeins betur.
„Helgin leggst alveg rosalega vel í mig eins og alla aðra í liðinu. Það er mjög góð stemning í hópinum, það er að koma fólk sem er löngu hætt að æfa sem ætlar að taka þátt í sundinu með okkur um helgina. Ég er viss um að þetta eigi eftir að heppnast vel vegna þess að sundhópurinn nær svo vel saman, þrátt fyrir mikinn aldursmun.“
Hvernig komu þessi styrktarsund upp, hvernig hófst þetta?
„Við krakkarnir vorum að spjalla saman í pottinum og spá í það hvernig við gætum látið gott af okkur leiða og þá kom upp í umræðunni að Garðar gæti ekki unnið og að enginn hefði styrkt hann. Við þekktum líka börnin hans og vissum að aðstæðurnar væru erfiðar. Það segir sig sjálft að það er erfitt að hætta að geta sinnt ævistarfi sínu aðeins fertugur.“
Erla segist persónulega stefna að því að halda áfram að æfa sund eins og staðan er í dag, hún hefur ekki sett sér einhver sérstök markmið hvað það varðar. Erla segist jafnframt eiga sér nokkur áhugamál ásamt sundinu t.d. að horfa á bíómyndir, vera með vinum, púsla og mála.
Erla byrjað fyrst að æfa sund þegar hún var 9 ára. „Þá var ég samt ekki að æfa fyrir alvöru, var alltaf að hætta og byrja aftur, ein pásan varð að hálfu ári minnir mig. En ég byrjaði fljótlega eftir að Magnús Már Jakobsson byrjaði að þjálfa og hef ekki hætt síðan, þá var ég 11 ára.“
Hjá Erlu eru æfingar 8 sinnum í viku, 3 morgunæfingar frá kl. 6-7 sem eru á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum. Svo eru 5 kvöldæfingar frá 16:50 til 19:50 sem eru bæði sund og þrekæfingar. „Því miður kemst ég ekki á morgunæfingarnar vegna þess að þá hef ég ekki tíma til þess að fara heim fá mér að borða og græja mig fyrir skólann, ég þarf að taka rútuna sem kemur í Grindavík um 07:25.“
Erla nefndi það sérstaklega í lokin að það væri mjög gaman hjá krökkunum núna þar sem þau væru að vinna sig upp úr smá lægð og það væri að fjölga í sunddeildinni, það telur hún afar ánægjulegt.
En hvað er í uppáhaldi hjá Erlu Sif?
Skyndibitinn
Klárlega pizza
Bókin
Twilight bækurnar
Tónlist
Ég er eiginlega bara alæta á tónlist
Kvikmynd
Ég er mikið hrifin af Pirates of the Caribbean og grínmyndum yfir höfuð. Ég mæli sérstaklega með myndinni Horrible bosses.
Sjónvarpsþættir
Ég fylgist nánast ekkert með þáttum, en ég ligg yfir bíómyndum.
Drykkur
Vatn og appelsín
Matur
Kjötsúpan hennar mömmu!
Íþróttamaður
Erla Dögg og Michael Phelps
Hlutur
Ipodinn
Flíkin
Náttbuxur og kósý peysa