Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

VF í 40 ár: Þrettán börn fæddust um jólin
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
laugardaginn 18. janúar 2020 kl. 07:09

VF í 40 ár: Þrettán börn fæddust um jólin

Frétt úr Víkurfréttum fimmtudaginn 6. janúar 1983. VF fagnar 40 ára afmæli á árinu

Í Suðurnesjatíðindum og síðar hér í Víkurfréttum hefur sá siður verið viðhafður að birta myndir af jóla- og áramótabörnum, fæddum á Sjúkrahúsinu í Keflavík. Því þóttu okkur það mikil tíðindi nú, er taka átti mynd af jólabarninu, að ekki var um eitt barn að ræða, heldur voru þau alls 13 - eða sama tala og jólasveinarnir!!

Svo segir í fyrsta tölublaði Víkurfrétta í janúar 1983 um fjölda fæðinga í desember 1982 og heldur áfram:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Af þessu tilefni ræddum við við Sólveigu Þórðardóttur, deildarstjóra fæðingardeildarinnar. Sagði hún að þetta væri mjög óvanalegt hjá þeim . „Þannig er,“ sagði Sólveig, „að fæðingar koma yfirleitt svona í toppum, það virðist vera eitthvert lögmál, en við ljósmæðurnar hér, sem flestar erum nýmenntaðar og lítum bæði á nýtt og gamalt, litum á tunglið og sáum að það var ekki fullt, en höfum ekki haft tíma til að líta í bók til að athuga straumana til að sjá hvort þar sé skýringin á þessum toppi.“

Þá spurðum við Sólveigu hvort deildin væri þá ekki fullnýtt núna og meira til? „Deildin er gerð fyrir 8 sængurkonur og sérstaka móttöku fyrir mæðraskoðun. Allt þetta pláss er fullnýtt og vel það, en við urðum að bæta aukarúmi í hverja stofu. Við myndum ekki fyrr en i fulla hnefana vísa sængurkonum frá okkur þar sem séð yrði að um eðlilega fæðingu yrði að ræða. Við höfum haft það þannig, að þær konur sem af einhverjum ástæðum hafa þurft að fæða innfrá, hafa verið teknar hér í sængurlegu um leið og þær losna af gjörgæsludeild innfrá.“

Um aðra þjónustu sem fæðingardeildin veitir, sagði hún: „Árni Ingólfsson fæðingarlæknir, er hér með aðstöðu 2 daga í viku og þegar hér er ekki yfirfullt, nýtir hann þessa aðstöðu fyrir kvensjúkdóma. Hér er aðstaða fyrir ófrjósemisaðgerðir og fóstureyðingar, og eru þær framkvæmdar þurfi á því að halda. Þá veitir hann aðstoð við fæðingar þurfi þess með. Þá er sennilega hér einhver besta mæðraskoðun á landinu. Prófessor Sigurður Magnússon hefur verið hér en er nýhættur eftir margra ára starf, en eftirmaður hans er Jón Stefánsson og mun hann vinna í hans anda.“

„Áður en við skildum við fæðingardeildina spurðum við Sólveigu um það hvort það hefði aukist að feður væru viðstaddir fæðingu barna sinna. Hún sagði að þessi æskilega þróun væri orðin mjög algeng.“

Áður en við skildum við fæðingardeildina spurðum við Sólveigu um það hvort það hefði aukist að feður væru viðstaddir fæðingu barna sinna. Hún sagði að þessi æskilega þróun væri orðin mjög algeng. Gætu feður ekki verið viðstaddir þá einhver annar aðstandandi, því það hefði róandi áhrif á móðurina. Þá sagðist Sólveig vilja koma því að áður en við kveddum þennan þátt viðtalsins, að nú fyrir jól hefði einn velunnari fæðingardeildarinnar saumað jólapoka undir jólabörnin, að vísu voru þeir ekki nema 8 talsins, því ekki var von á fleiri, en 8 fyrstu börnin fóru því heim í þessum jólapokum.

Þegar umræða um sjúkrahúsið hefur farið fram í fjölmiðlum hefur mikið borið á gagnrýni varðandi vannýtingu á fæðingardeildinni og í því sambandi hafa sumir rætt um að taka hluta hennar undir langlegudeild. Við spurðum Sólveigu um hennar álit á þessum málum? Hún sagðist bera tvennt sér fyrir brjósti, þ.e. gamla fólkið og þá nýfæddu, hinir ættu betra með að sjá um sig sjálfir. „Okkur bráðvantar legurými fyrir þetta gamla fólk, ekki endilega þá þjónustu sem spítalarnir veita, heldur ýmsa aðra sjúkraþjónustu við þetta fólk. Hjá okkar starfsfólki sjúkrahússins er sameiginlegur vilji fyrir því að reist yrði hér í tengslum við spítalann sérstök deild fyrir gamla fólkið. Það myndi auðvelda alla þjónustu við þessa deild, t.d. gæti starfsfólkið héðan skipt á sig þjónustu á þessari deild sem myndi þar með leysa þau vandkvæði sem ávallt eru fyrir hendi varðandi sérmönnun starfsfólks við slíkar hjúkrunardeildir. Það er orðið lífsspursmál að veita þessu fólki úti í bæ þá þjónustu sem hægt er að veita, við höfum hér á að skipa mjög færu starfsfólki með mjög góð tæki og næga þekkingu,“ sagði Sólveig Þórðardóttir að lokum.

Sólveig Þórðardóttir við mónitorinn sem mælir hjartsláttinn allan tímann meðan verkir eru. Auk þess heldur hún á gömlu góðu pípunni sem mælir hjartsláttinn þegar engir verkir eru og er enn í fullu gildi.

Samtímasaga Suðurnesja í fjóra áratugi

Á þessu ári fögnum við þeim tímamótum að Víkurfréttir hafa komið út í 40 ár. Frá fyrsta tölublaði Víkurfrétta sem kom út 14. ágúst 1980 hafa komið út nærri 1900 tölublöð, síðurnar yfir 20.000 og fréttirnar næstum óteljandi. Til að fagna afmæli Víkurfrétta á þessu ári ætlum við reglulega að glugga í gömul blöð og rifja upp fréttir, sýna ykkur gamlar myndir og jafnvel að heyra í fólki og taka stöðuna eins og hún er í dag. Við byrjum þessa upprifjun úr samtímasögu Suðurnesja á frétt úr Víkurfréttum í janúar 1983 þar sem fjallað er um stóran hóp barna sem fæddust á Sjúkrahúsi Keflavíkurlæknishéraðs, eins og Heilbrigðisstofun Suðurnesja hét í þá daga.