VF í 30 ár: Skortur á vinnuafli
Hún er eftirsóknarverð fyrirsögnin sem kom á forsíðu Víkurfrétta fyrir 20 árum, fimmtudaginn 21. mars árið 1991. Þar var ritað með stórum stöfum „Gott atvinnuútlit – frekar skortur á vinnuafli.“ Þetta er akkurat andstæðan við þær aðstæður sem við lifum við í dag en atvinnuleysi hefur verið mikið rætt og það sérstaklega hér á Suðurnesjunum.
Kristján Pálsson, þáverandi bæjarstjóri í Njarðvík, sagði í samtali við Víkurfréttir að það væri ekki nein ástæða til þess að bera neinn kvíðboga fyrir atvinnumálum hér, en hann var þá nýbúinn á fundi með þáverandi utanríkisráðherra, Jóni Baldvin Hannibalssyni.
Á fundinum voru atvinnumál hjá Varnarliðinu og fyrsting á ráðningar- og verksamningum til umræðu. Sagði Kristján að fram hefði komið að engin breyting til hins verra væri fyrirhuguð varðandi atvinnumál á vellinum, sem í dag heitir Ásbrú. Hann sagði einnig í sambandi við atvinnumál almennt að útlitið væri gott, ef frá væri talinn skortur á vinnuafli hjá bæði iðnaðarmönnum og fiskvinnslufólki, eitthvað annað en við sjáum í dag.
Framundan sagði Kristján að hann sæi fulla vinnslu í húsum þeim er áður tilheyrðu Sjöstjörnunni og eins væri bílasala að koma þar sem Víkurblóm var áður en þar er Bílabúð Benna staðsett í dag.
Fleiri fréttir má sjá á forsíðunni þennan dag. Talað er um slys sem átti sér stað í Garðinum þar sem ekið var á tvö börn. Þau slösuðust sem betur fer ekki alvarlega og fengu að fara heim að læknisskoðun lokinni. Einnig er frétt um björgun Landhelgisgæslunnar sem átti sér stað rétt fyrir utan Garðskaga.
[email protected]