VF-gamalt: Kristín Jóna Ungfrú Suðurnes 1987
Séð til þess að við værum grannar og í góðu formi, segir Kristín Jóna Hilmarsdóttir
Kristín Jóna Hilmarsdóttir, 23 ára Keflvíkingur, var kjörin „Ungfrú Suðurnes 1987“ í Stapa á laugardagskvöld. Kolbrún Gunnarsdóttir, Ungfrú Suðurnes 1986, krýndi hina nýju fegurðardrottningu sem dómnefnd valdi úr hópi 9 stúlkna. Ljósmyndafyrirsæta var kjörin Berta Gerður Guðmundsdóttir, tvítug Njarðvíkurmær. Loks völdu stúlkurnar úr sínum hópi vinsælustu stúlkuna og þann titil hreppti Kristín Gerður Skjaldardóttir úr Vogum.
Þetta er frétt úr Víkurfréttum þriðjudaginn 17. mars 1987.
Frábær stemning var í Stapanum og var stúlkunum óspart fagnað af fullu húsi gesta. Höfðu menn á orði að langt væri síðan önnur eins skemmtun hefði verið í Stapanum.
Kristín Jóna hlaut margar glæsilegar gjafir. Hún fékk 40 þúsund krónur frá Sparisjóðnum í Keflavík, sólarlandaferð frá Ferðaskrifstofunni Terru, gullhring frá Georg V. Hannah, snyrtivörur frá Apóteki Keflavíkur og David Pitt og Co. og myndavél frá Lítt’inn hjá Óla. Stúlkurnar voru allar leystar út með gjöfum frá Snyrtivöruversluninni Gloriu og Apóteki Keflavíkur.
Dómnefnd var skipuð fimm fulltrúum, þremur frá framkvæmdaaðilum Fegurðarsamkeppni Íslands, sem voru Kristjana Geirsdóttir, en hún var formaður nefndarinnar, Guðrún Möller, Ungfrú Ísland 1983 og Gígja Birgisdóttir, Ungfrú Ísland 1986. Fulltrúar Suðurnesjamanna voru þau Þorbjörg Garðarsdóttir og Guðni Kjartansson. Páll Ketilsson, sem ljósmyndaði stúlkurnar fyrir keppnina, valdi „Ljósmyndafyrirsætu Suðurnesja 1987“ í samráði við dómnefndina.
Keppnin, sem nú var haldin í Stapa, tókst í alla staði mjög vel. Krýningarkvöldið hófst með fordrykk og borðhaldi kl. 19 og síðan rak hver dagskrárliðurinn annan. Áður en kynningin á stúlkunum hófst söng Einar Júlíusson, hinn eini og sanni, nokkur lög með hljómsveit kvöldsins, Klassík, við mikla hrifningu. Undir borðhaldi lék Steinar Guðmundsson. Félagi hans og kynnir kvöldsins, Kjartan Már Kjartansson, stóðst ekki mátið og lék á fiðluna í nokkrum lögum. Ingimar Eydal, sem átti að sjá um „dinner-tónlistina“, veiktist rétt fyrir keppnina og sá sér því ekki fært að mæta. Að lokinni krýningu lék hljómsveitin Klassík fyrir dansi, sem dunaði í glæsilega skreyttum Stapa til kl. 3 um nóttina.
Séð til þess að við værum grannar og í góðu formi
„Já ég man þennan tíma bara nokkuð vel, þurfti nú aðeins að skoða myndir til að rifja þetta upp. Þetta var bara ótrúlega skemmtilegt og margar góðar minningar sem maður á frá þessum tíma. Við þurftum að vera í góðu formi og GRANNAR og ef við vorum það ekki í byrjun þá var alveg séð til þess að við myndum ná því fyrir lokakvöldið. Við vorum í leikfimi hjá henni Birnu og svo vorum við mældar og vigtaðar þannig að það var ótrúlega mikið aðhald,“ segir Kristín Jóna Hilmarsdóttir.
Mikið húllumhæ
„Ég fór nú bara í þetta til að hafa gaman og gera eitthvað skemmtilegt. Ég var nýkomin heim frá Bandaríkjunum, þar sem ég hafði verið au pair í eitt ár og var búin að vera heima í viku þegar hringt var í mig. Fyrst sagði ég nei, fannst þetta frekar asnalegt, en svo fór ég og hitti Ágústu og Birnu. Kolla sem var ungfrú Suðurnes 1986 var vinkona mín og hún ýtti svolítið á mig að taka þátt. Á þessum tíma fékk keppnin alveg ótrúlega mikla athygli og mikið húllumhæ í kringum þetta allt, sem var mjög gaman og við stelpurnar vorum mjög uppteknar í myndatökum og viðtölum í Víkurfréttum, auðvitað. Meira að segja var gert VHS-vídeó þar sem fylgst var með okkur stelpunum í undirbúningnum, viðtöl við þá sem komu að keppninni og kvöldið sjálft. Mig minnir að þetta vídeó hafi svo verið selt á almennum markaði, kannski lumar fólk á þessu vídjói í skápnum sínum eða í kassa á háaloftinu?“
Troðfullt í Stapanum
Kristín Jóna segir fegurðarsamkeppnina hafa verið stóran viðburð.
„Kvöldið sjálft var svakalega flott, Stapinn í sparibúningi og mikið lagt í alla umgjörð. Það var troðfullt út úr dyrum. Þetta var aðalgalakvöld Suðurnesja, svolítið svona eins og þorrablótin eru núna kannski. Þú varst ekki maður með mönnum nema að mæta á Ungfrú Suðurnes. Það var bara góð stemmning í hópnum. Þetta voru skemmtilegar stelpur og við náðum vel saman, svona flestar og auðvitað var einhver samkeppni en er það ekki alltaf þegar fólk er að keppa?“
Fegurð kemur innan frá
„Ég er ekki viss um að í dag væri hægt að halda svona keppni, þetta var bara andinn þá. Ég get ekki sagt að ég hafi fengið einhver tækifæri eftir keppnina en þetta opnaði kannski einhverjar dyr. Í dag, með alla þessa vefmiðla, þá mundi ég sennilega ekki treysta mér í svona keppni. Svo er það hin umræðan, hvernig er hægt að keppa um fegurð og hvað er fegurð? Ég segi alltaf að fegurð komi innan frá. Ég veit að það eru ekki allir sammála og hægt að ræða þetta endalaust. Þegar ég horfi til baka þá var þetta skemmtilegur tími og gerði mér bara gott. Ég segi ekki að ég fái ekki kjánahroll og hugsi bara „Guð minn góður“ þegar ég sé myndir frá þessum tíma en það má alveg og það má líka alveg hlæja, það er nú bara hollt,“ segir Kristín Jóna að lokum.