Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Veturinn minnir á sig
Þriðjudagur 19. október 2004 kl. 09:31

Veturinn minnir á sig

Óhætt er að segja að Vetur konungur hafi minnt allóþyrmilega á sig undanfarna daga. Mörlandinn var ef til vill enn með hugann við 28 stiga hitabylgjuna sem reið yfir landið síðla sumars og hefur haldið að við værum endanlega dottin inn í Evrópuloftslag.

Því fer fjarri eins og allir sem hafa rekið nefið út fyrir dyr síðustu tvo sólarhringa hafa komist að. Vindur næðir napur um allt og nístir inn að beini þá sem hafa ekki haft framsýni til að setja upp húfu, trefil og vettlinga áður en haldið var út í herlegheitin.

„Var virkilega svona kalt í fyrra?“ spyr maður sig ósjálfrátt en svarið við því hlýtur að vera játandi. Er ekki líklegra að við gleymum á hverju sumri hvernig það er að vera kalt en vöknum síðan upp við vondan draum þegar dagurinn fer að styttast.

Talandi dæmi um slíkt er sú staðreynd að á hverju ári rekur Íslendinga í rogastans þegar götur bæjanna eru þaktar ís einn morguninn og flestir enn með sumardekkin undir bílnum.

Veturinn hefur engu að síður sína sérstöku fegurð sem birtist í klakamyndun eða með mikilfengleika náttúruaflanna. Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar Ljósmyndari Víkurfrétta hætti sér út í kuldann í gær. Á fyrri myndinni hafa minnstu strá safnað á sig íshrönglum við tjarnirnar á Fitjum, en sú seinni er tekin við Stapa þar sem brimið stóð á klettana með tilheyrandi gusugangi.
VF-myndir/Þorgils Jónsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024