Vetrarstarfið hafið í Fjörheimum
Vetrarstarf Félagsmiðstöðvarinnar Fjörheima í Reykjanesbæ hófst um síðustu helgi með opnunarballi. Þar var margt um manninn og mikið fjör, enda fjölmargt í boði. Það var farið í kappát, spilað og dansað fram á kvöld og skemmtu sér allir vel.
Annars er mikið framundan í starfinu. Stíll 2007, Fatahönnunarkeppni Samféss, verður haldin innan tíðar og er þemað þetta árið íslenskar þjóðsögur. Undankeppni Fjörheima mun fara fram föstudaginn 2. nóvember og eru allir sem hafa áhuga á slíku hvattir til að skrá sig til leiks. Keppt er bæði í hárgreiðslu, förðun og fatahönnun.
Hver félagsmiðstöð má senda eitt lið til keppninnar og í hverju liði mega vera 2-4 einstaklingar, þar af eitt módel.
Einnig lýsa Fjörheimar eftir áhugasömum krökkum úr 8. 9. og 10.bekk til að starfa í unglingaráði Fjörheima. Meginmarkmið unglingaráðs er að koma saman og skipuleggja atburði á vegum Fjörheima og aðstoða við aðra stærri viðburði.
Í staðinn fá þau sem bjóða sig fram til slíks tækifæri til að kynnast öðrum krökkum úr öðrum grunnskólum. Ráðið hefur líka tækifæri til að fara á landsmót Samfés sem verður haldið í Vestmanneyjum nk. október.
Unglingaráð Fjörheima er valið í byrjun hvers skólaárs og starfar allan veturinn. Í Unglingaráði sitja þrír fulltrúar frá hverjum skóla í Reykjanesbæ. Ætlast er til að þeir sem eru í unglingaráði séu til fyrirmyndar og neyti þ.a.l. ekki áfengis eða tóbaks.
Þeir sem eru áhugasamir um annað hvort hönnunarkeppnina eða starf í unglingaráði geta sent póst á [email protected]
Smellið hér til að sjá myndir frá opnunarballinu