Vetrarferðin í Duushúsum í Reykjanesbæ
Næstkomandi fimmtudag, 1. mars, flytja Jóhann Smári Sævarsson, óperusöngvari og Kurt Kopecky, aðal hljómsveitastjóri Íslensku óperunnar, Vetrarferðina eftir Franz Schubert við texta Wilhelms Müller. Lagaflokkurinn fjallar um mann með brostið hjarta er sér aðeins dauðan framundan á kaldri vetrargöngu. Vetrarferðin samanstendur af 24 ljóðum og eru ýmist minningar frá ljúfu sumri þegar ástin blómstraði eða lýsingar á sorg og vonleysi vetrarins.
Jóhann Smári Sævarsson hefur á ferli sýnum sungið ein 50 óperuhlutverk á sviði auk fjölda tónleika bæði heima og erlendis. Vetrarferðina söng hann í sviðsettri uppfærslu óperuhússins í Regensburg. Kurt Kopecky hefur stjórnað ýmsum óperuuppfærslum í Austurríki, Þýskalandi, Sviss, Finnlandi og Íslandi. Hann hefur einnig komið víða fram sem meðleikari á píanó. Tónleikarni hefjast kl: 20.30 og er miðasala við innganginn. Nemenda og ellilífeyris afsláttur.
VF-mynd/elg