Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Verum bænum okkar til sóma
Hera Ketilsdóttir með Suðurnesin í bakgrunn.
Fimmtudagur 22. júní 2017 kl. 11:30

Verum bænum okkar til sóma

-Hera Ketilsdóttir svarar spurningum um lífið og tilveruna suður með sjó

Hvað ertu að bralla þessa dagana?
Ég er að vinna á leikskólanum Gimli og hef gert í um þrjú ár. Ásamt því hef ég stundað fjarnám í Háskólanum á Akureyri síðastliðið eitt ár. Í haust ætla ég svo að hefja nám í uppeldis- og menntunarfræði í HÍ.

Hvað finnst þér best við að hafa alist upp á Suðurnesjunum?
Umhverfið er fyrst og fremst gott. Við erum lánsöm að hafa þessa fallegu náttúru sem er allt um kring, bæði við sjóinn og á landi. Suðurnesin eru mjög vel staðsett þar sem atvinnutækifærin eru ekki langt undan. Stutt er í höfuðborgina, þegar maður þarf að komast í ákveðinn menningargír en fjarlægðin er þó hæfileg til þess að vera hér í ró og næði. Maður er miklu stærri hluti af heildinni heldur en ef maður byggi í fjölmennara samfélagi og það þykir mér voða vinalegt. 
Mér leið vel að alast upp hér á mínum æskuárum, stutt var í grunn- og framhaldsskóla og ég tók virkan þátt í félagslífi. Í mínu uppeldi var lögð mikil áhersla á að ganga á milli staða í stað þess að keyra og er ég afar þakklát fyrir það. 
Í dag hef ég mikinn áhuga á að fara í gönguferðir um svæðið og því fengið að kynnast mörgum fallegum stöðum á Reykjanesskaga. 
Ég gæti því vel hugsað mér að búa hér í framtíðinni og ala mín börn upp við sömu gæði og ég ólst upp við sjálf. 


Ef þú ættir að mæla með einhverju einu af svæðinu fyrir ferðamenn eða þá sem búa ekki hér, hvað væri það?
Ég get ekki nefnt eina náttúruperlu umfram aðra og ætla því að telja upp nokkrar: Stóra Sandvík, Þorbjörn, Fagradalsfjall, Lambafellsgjá, Kleifarvatn, Ósabotnar, Garðskagaviti, Reykjanesviti og Gunnuhver. 
Ég vona að eftirlit verði með þessum fallegu stöðum svo að við glötum þeim ekki vegna ágangs. 


Hvað ætlarðu að gera í sumar?
Í sumar ætla ég að vinna á leikskólanum sem er alltaf ótrúlega gaman, sérstaklega þegar veðrið spilar með manni. 
Ég ætla einnig að fara til Krítar í júlí með kærasta mínum og foreldrum. Ég er ótrúlega spennt að fara þangað og fá að upplifa þessa fallegu eyju. 
Ég er farin að kunna betur að meta það að njóta bara með fjölskyldu og vinum, maður þarf ekkert alltaf að vera með sumarplönin á hreinu. Það er líka bara miklu skemmtilegra að taka ákvörðun sama dag. 


Hvað finnst þér betur mega fara í bænum?
Það er flokkun úrgangs, s.s. plast, pappír, gler og matarleifar. Þá ættu öll hús að hafa slíkar flokkunartunnur í garðinum ásamt því að flokkun ætti sér stað heima fyrir. Það skiptir miklu máli að hver og einn beri ábyrgð og sé þátttakandi. Ég veit að slíkt er gert á mörgum leikskólum hér í bæ og er það alveg til fyrirmyndar en við sem samfélag getum fylgt þessu betur eftir og orðið bænum okkar til sóma.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024