Verslunarmannahelgin: Í vinnu síðustu fjögur árin

Sævar Freyr Eyjólfsson hefur ekki gert neinar sérstakar fyrirætlanir þrátt fyrir það að hafa verið að vinna síðustu fjórar verslunarmannahelgar. Sævar vinnur á SAD cars bílaleigunni uppi á flugvelli en hann segir endalaust að gera á þessum tíma og aukning túrista hafi verið ótrúlega mikil undanfarin ár. „Þannig er mikið álag í vinnunni og í sumar hefur verið nóg að gera. Þetta er því bæði búið að vera gott og erfitt sumar.“

Sævar telur að fólk á hans aldri sé líklega á leið til Eyja. Hann á enn eftir að prufa að fara þangað en annars er Ein með öllu á Akureyri líka frábær hátíð að hans mati.

Hvað á að gera um verslunarmannahelgina og hvert á að fara? Heyrðu það er bara óplanað, en býst við að það verði góð stund með kærustunni sem verður fyrir valinu.

Er einhver verslunarmannahelgi sem er eftirminnilegri en aðrar hjá þér? Nei, hef verið að vinna síðustu 4 ár um versló svo lítið náð að njóta hennar!

Hvað finnst þér einkenna góða verslunarmannahelgi, er eitthvað ómissandi um þessa helgi?  Að hanga með góðum vinum, gott andrúmsloft og njóta þess að vera til.