Verslunarmannahelgin: Í 35 stiga hita í Króatíu
Keflvíkingurinn Davíð Óskarsson er á heldur óvanalegum slóðum um þess verslunarmannahelgi en hann er staddur á ferðalagi í Evrópu. Hann segir frekar undarlegt að vera erlendis á þessum tíma en kvartar þó ekki undan veðurblíðunni.
Hvað á að gera um verslunarmannahelgina?
Þessa stundina er èg staddur í Marucizi sem er smábær í Króatìu, hingað er ég komin til að eyða verslunarmannahelginni minni í faðmi fjölskyldunnar. Marusici er 200 manna bær sem byggður er í fjallshlíð. Við erum fyrstu Íslendingarnir til þess að gista hèr á þessu hòteli og fyrstu Íslendingarnir sem margir hèr í bæ sjá og tala við. Þetta hefur verið frábær dvöl, en hùn mun taka enda á laugardaginn en þá munum við keyra 800 km til Vínarborgar í Austurríki og eyða síðustu dögunum þar.
Er einhver verslunarmannahelgi sem er eftirminnilegri en aðrar hjá þér?
Ætli það sé ekki Eyjar 2008, sú helgi var ákveðinn með tveggja tíma fyrirvara. Vorum komin með einkaflug frá Reykjavík en þá var ekki flogið vegna þoku. Eftir að hafa beðið í klukkutíma eftir leyfi hringdum við í Herjólf en þá var seinasta ferðin farin. Þar næst var ákveðið að bruna á flugvöllinn á Bakka, þar beið okkar 200 manna röð en við náðum að troða okkur fram fyrir hana, hátíðin sjálf sveik mig svo ekki. Svo má ekki gleyma öllum Galtarlækjarhelgunum þegar maður var yngri, þær gleymast seint.
Hvað finnst þér einkenna góða verslunarmanahelgi?
Tjald, svefnpoki, grill og gítar einkenna góða útihátíð, það er frekar furðulegt að vera erlendis á þessum tíma, en maður þarf að upplifa nýja hluti. Það sem ég á kannski eftir að sakna mest er varðeldurinn og að pakka saman blautu tjaldi á mánudagsmorgni, en ég mun bæta það upp með sól og 35 stiga hita.