Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mánudagur 21. ágúst 2000 kl. 10:55

Verndað útivistarsvæði á Fitjum

Á Suðurnesjum eru hvorki ár né fossar sem gleðja augað, en við eigum nokkrar tjarnir sem með smávegis fyrirhöfn og tilkostnaði er hægt að gera að skemmtilegum útivistarsvæðum íbúum bæjarins til ánægju og yndisauka. En til þess að svo verði þurfum við að hugsa um þær og vernda. Umtalsverð uppbygging og ræktun hefur verið við Seltjörn og þar er komið fallegt útivistarsvæði. Sama má segja um Rósaselsvötnin. Þar er búið að gróðursetja dálítið og þar verður vonandi haldið áfram að gróðursetja og rækta. Við Rósaselsvötnin á hinsvegar eftir að bæta að gengi svo virkilega sé hægt að njóta umhverfisins þar. En við eigum fleiri tjarnir sem mér finnst vera kominn tími til að eitthvað sé hugsað um, þar á ég við tjörnina í Innri-Njarðvík og sjávartjarninar á Njarðvíkurfitjum. Ég veit ekki betur en að til sé teikning af tjörninni í Innri-Njarðvík og umhverfi hennar og að sú hönnun hafi verið gerð fyrir all mörgum árum og því alveg kominn tími til að dusta af henni rykið. En það eru Njarðvíkurfitjarnar sem ég ætla að gera að umtalsefni mínu í þessari grein. Á aðalskipulagi Reykjanesbæjar er gert ráð fyrir vernduðu útivistarsvæði sjávarmegin á fitjunum, frá Steypustöð Suðurnesja og að Stekkjarkoti, og er það vel. Síðan tengivegurinn kom á milli Innri og Ytri Njarðvíkur, þ.e. Njarðarbraut, eru tjarnirnar nær okkur þegar ekið er á milli hverfa og auk þess eru þær með því fyrsta sem blasir við þegar ekið er inn í bæinn. Sem íbúi í Innri-Njarðvík í 32 ár hef ég haft ánægju af þessum tjörnum, séð þær breytast með árstíðunum og sjávarföllunum og fuglalífið aukast ár frá ári. Nýjustu íbúarnir á tjörnunum eru álftir og las ég í Víkurfréttum nú nýlega að þær hefðu gert sér hreiður og komið upp ungum á fitjunum í sumar. Þegar farið var að grafa fyrir holræsalögninni á fitjunum s.l. haust fannst mér all harkalega gengið að tjarnarbökkunum. Ekki veit ég hvað stjórnaði því að farið var með lögnina þarna en fyrst svo varð þarf að huga að því sem verið er að gera. Þarna er mjög viðkvæmt lífríki sem þolir ekki að mikið sé hróflað við því. Víða á Íslandi eru svona sjávarfitjar horfnar vegna ýmissa framkvæmda og er það mjög miður. Á loftmynd sem hangir uppi í Njarðvíkurskóla og tekin var af Njarðvíkum árið 1942 sést vel að fitjarnar náðu þaðan sem iðnaðarhverfið í Njarðvík er nú og að Stekkjarkoti, en mikið af þeim hvarf þegar Steypustöðin var byggð. Í vetur hafði ég samband við byggingafulltrúa Reykjanesbæjar til að fá upplýsingar um framkvæmdirnar á fitjunum. Hann vísaði mér á verktakann. Þá vildi nú ekki betur til en svo að sá hinn sami var formaður Skipulags- og bygginganefndar Reykjanesbæjar. Ég hafði því ekki mikið upp úr því að tala við hann. Þar sem ég hélt að Njarðvíkurfitjarnar væru á náttúruminjaskrá hafði ég næst samband við Náttúrufræðistofnun. Starfsmaður þar sagði mér að Njarðvíkurbær hefði sótt um það á sínum tíma að fitjarnar færu á náttúruminjaskrá en af einhverjum orsökum var aldrei endanlega frá því gengið. Eftir samtal mitt við Náttúrufræðistofnun sendu þeir sérfræðing hingað suður til að athuga framkvæmdirnar. Eftir þá athugun tóku þeir þá ákvörðun að bíða átekta og sjá hvernig framhaldið yrði. Í allan vetur var svo haldið áfram að grafa á fitjunum og nú í byrjun júlímánaðar var enn verið að grafa þarna annað slagið og búið að fylla upp í stóran hluta af tjarnarbökkunum. Tjarnirnar voru líka óvenju þurrar í júlíbyrjun. Þeir á Náttúrufræðistofnun sögðu mér að líklega sé það af því að skurðirnir sem grafnir voru fyrir leiðslurnar eru mjög gljúpir og taka til sín mikið vatn, auk þess er mjög lágsjávað en vatnsmagnið í tjörnunum stjórnast af sjávarföllunum. Þeir sögðu líka að vonandi myndu skurðirnir þéttast með tímanum en það getur tekið mörg ár. Heilmiklar byggingaframkvæmdir eru nú við Njarðarbrautina og þar rís hvert stórfyrirtækið af öðru, nú síðast Toyota og Heklu bílaumboðin og fleiri eru að bætast við. Á Njarðvíkurfitjum er eins og áður var sagt aðal innkoman inn í Reykjanesbæ og við íbúarnir þurfum því að sjá til þess að hún sé aðlaðandi. Það er jú það fyrsta sem gestir sjá sem til bæjarins koma. Njarðvíkurfitjarnar eiga sér merkilega sögu. Þar komu saman þrjár meginþjóðleiðir á Suðurnesjum þ.e. frá Grindavík, Höfnum, innnesjum og Romshvalanesi. Og í dag liggur aðalleiðin frá Íslandi út í heim þarna fram hjá. Sjávarfitjar eru nokkuð merkilegt fyrirbæri sem myndast þegar graslendi við flæðarmál fer á kaf í sjó þegar hásjávað er. Sjór fellur að tvisvar á dag og það er því misjafnt hversu hátt er í tjörnunum. Þarna vex gróður sem hvergi sést annarsstaðar en á sjávarfitjum eins og t.d. grasið sem einkennir þær og heitir sjávarfitjungur. Gróðurinn á fitjunum er góður fyrir búpening og hafa Njarðvíkingar eflaust nýtt sér það í gamla daga þega flestir íbúanna voru annað hvort með kýr eða kindur. Vatnið í tjörnunum er mismunandi salt og einkennist gróðurinn af því. Við lauslega skoðun taldi ég 15 tegundir plantna og þær eru auk sjávarfitjungsins þessar: Hrafnafífa, tágamura, votasef, geldingahnappur, flagahnoðri, lófótur, melgresi, hvönn, starir, hélublaðka, friggjargras, fjöruarfi, fjörukál og hrafnaklukka. Á þessum árstíma er hrafnafífan í blóma og mjög áberandi en mikið af henni er nú horfið undir uppfyllinguna. Mikið af fugli er á fitjunum bæði farfuglar og staðfuglar og enn aðrir rétt tylla sér niður þarna til að borða og fita sig áður en þeir halda út í heim eða á varpstöðvarnar inn til landsins. Fitjarnar eru því upplagðar fyrir fuglaskoðara og aðra sem hafa áhuga á fuglum. Ekki þarf mikið að gera til þess að gera fitjarnar að því sem þær þurfa og eiga að vera; - verndað útivistarsvæði íbúum Reykjanesbæjar og gestum til ánægju og yndisauka. Þarna þarf að vera bílastæði, göngustígar fyrir þá sem vilja ganga um og skoða svæðið eða gefa fuglunum eins og margir eru farnir að gera. Bekk til að sitja á og smá skjólvegg fyrir verstu vindhviðunum. Víkin þarna er fallega bogadregin með svörtum sandi og þar er geysilega mikið fuglalíf. Vond lykt frá holræsinu hefur gert það að verkum að fáir fara þarna um en nú þegar skolpið fer langt á haf út er hægt að hreinsa fjöruna og gera hana að hluta af svæðinu. Þessi svæði mætti svo tengja Stekkjarkoti á einhvern hátt. Byggingafulltrúi bæjarins sagði mér að ekki væru til neinar teikningar af þessu skemmtilega svæði. Að mínu mati hefði þurft að skipuleggja verndaða útivistarsvæðið samhliða hönnuninni á holræsalögninni svo það yrði ekki fyrir tjóni sem er jafnvel óbætanlegt. Bæjaryfirvöld ættu strax að fá landlagsarkitekt til að hanna þetta svæði. Til þess þarf arkitekt sem veit hversu mikla nærgætni þarf til verksins. Að lokum þetta: Förum varlega og eyðileggjum ekki þau landsvæði sem gera ásýnd bæjarins okkar bæði áhugaverðari og skemmtilegri. Svanhvít Guðmundsdóttir
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024