Verður í Universal Studios um verslunarmannahelgina
Guðjónína Sæmundsdóttir fagnar 10 ára starfsafmæli sínu hjá símenntun á Suðurnesjum þann 1. ágúst næstkomandi. Hún segir það hafa verið frábært tækifæri að koma að uppbyggingu á svona góðu fyrirtæki. Guðjónína er þessa stundina á ferðalagi um Bandaríkin en hún hefur komið víða við í sumar.
Hvernig hefur sumarið verið hingað til hjá þér?
Sumarið hefur verið bara yndislegt. Skemmtileg ferðalög, göngutúrar, hjólatúrar og yndisleg samvera með fjölskyldunni.
Hvað fer á grillið hjá þér?
Það getur allt farið á kolagrillið mitt. Ætli lambakjötið sé nú ekki algengast en grillaður fiskur er algjört lostæti.
Á að ferðast eitthvað innanlands í sumar?
Ég fer óvenjulega lítið um Ísland í sumar. Ég er búin að fara í tvær útilegur í sumar með krakkana, á Úlffljótsvatn og í Hvalfjörðinn. Frábærar ferðir í góðum félagsskap. Einnig fór ég á N1 mótið á Akureyri en yngsti sonur minn var að keppa. Þessi fótboltamót eru svo skemmtileg og alveg ómissandi á sumrin.
En erlendis?
Fór í yndislega ferð til Noregs í byrjun maí með frábæru samstarfsfólki. Lærði þar ýmislegt um námskeiðahald fyrir einstaklinga sem eru án atvinnu. Við löbbuðum líka upp á Preikestolen, alveg æðisleg gönguferð. Í Noregi hitti hitti ég líka vini síðan á háskólaárunum. Ein vinkona mín þar er að vinna í því hverfi sem sprengjan sprakk um daginn en hún var svo heppinn að hún fór fyrr heim úr vinnunni en skrifstofan þar sem hún vinnur eyðilagðist mjög mikið og slösuðust þeir sem voru þar inni. Það er skrítin tilfinning þegar svona hlutir gerast svona nálægt manni á stöðum sem maður þekkir vel til og hefur verið á.
Hvað á annars að gera í sumarfríinu?
Við lokuðum hjá MSS í júlí mánuði. Fyrstu tvær vikurnar voru notaðar í sambland af vinnu og að gera hluti heima sem maður þarf að gera en gefur sér ekki venjulega tíma í eins og þrífa, smá garðvinna, svortera myndir og prenta út, taka til í skápum og annað skemmtilegt. Síðan var ferðinni heitið til USA með stór fjölskyldunni; New York, Orlando, Chigaco, Michigan. Þar verður slappað af, skoðað, farið í skemmtigarða, ættingjar heimsóttir, farið á ströndina, spilað o.s.frv.
Er eitthvað sem er einnkennandi fyrir íslenskt sumar að þínu mati?
Birtan, nýslegin grasilmur, náttúrufegurðin á Íslandi, að geta vakað alla nóttina og aldrei verður dimmt, meiri hreyfing en venjulega, hjólatúrar, göngutúrar, fótboltamót. Svo verða bara allir svo glaðir á sumrin. En sumarið er bara of stutt.
Hvað á að gera um verslunarmannahelgina?
Föstudagurinn byrjar eldsnemma og verður farið í Universal Studios Orlando. Síðan um kvöldið ætlum við stórfjölskyldan að fara út að borða í tilefni þess að faðir minn sem lést á síðasta ári hefði orðið 70 ára þennan dag. Síðan kveðjum við tvo fjölskyldumeðlimi sem halda til Íslands en við hin höldum áfram að njóta sólarinnar hér í USA.