Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Verður ein stærsta tónlistarhátíð landsins
Laugardagur 18. maí 2013 kl. 16:33

Verður ein stærsta tónlistarhátíð landsins

Ein stærsta tónlistarhátíð ársins fer fram í Reykjanesbæ þann 5.-9. júní þegar Keflavik Music Festival fer fram. Þetta er í annað sinn sem hátíðin fer fram en hátíðin í ár er talsvert umfangsmeiri og stærri en sú sem fram fór á síðasta ári. Það eru þeir Ólafur Geir Jónsson og Pálmi Örn Erlingsson sem standa á bak við hátíðina. Þeir hafa fengið rjómann af íslenskum tónlistarmönnum til að koma fram á hátíðinni og einnig nokkra heimsþekkta tónlistarmenn. Þar má helst nefna Tinie Tempha og The Temper Trap, auk fjölda fleiri atriða. Alls eru um 120 tónlistaratriði á hátíðinni í ár.

„Undirbúningurinn fyrir hátíðina hefur gengið mjög vel. Það hefur verið mjög mikið að gera og við sofum lítið þessa dagana,“ segir Óli Geir. „Miðasalan hefur gengið vonum framar og við erum farnir að sjá fram á að þetta verði ein stærsta tónlistarhátíð landsins. Bærinn á eftir að iða af lífi,“ segir Pálmi.
Reykjanesbær verður undirlagður hátíðinni fyrstu vikuna í júní. Tónleikahald verður á öllum skemmtistöðum bæjarins, Keflavíkurkirkju, Reykjaneshöll og víðar. Þeir Ólafur og Pálmi segja að hátíðin nái til stórs aldursbils en höfðar helst til yngri kynslóðarinnar.

„Við erum að reyna að hafa eitthvað fyrir alla. Við erum með atriði eins og Geirmund Valtýsson, Pál Óskar og Moniku, KK og Bubba og koma þau fram í Keflavíkurkirkju. Þessi atriði höfða kannski frekar til eldri kynslóðarinnar. Erlendu tónlistaratriðin eru meira fyrir yngri kynslóðina og vorum við að eltast við það sem er heitt í dag.“

Reyndu að fá Sigur Rós
Þegar litið er yfir dagskrána kemur bersýnilega í ljós að landslið íslenskra tónlistarmanna kemur fram á hátíðinni. Óli og Pálmi segjast hafa talað við gríðarlegan fjölda tónlistarmanna um að koma fram á hátíðinni. Þeir reyndu meira að segja að fá Sigur Rós til að koma fram. Það gekk ekki enda sveitin á tónleikaferðalagi.

„Það var ekki auðvelt að fá þessi þekktu erlendu nöfn á hátíðina, sérstaklega þar sem við höfðum lítið í höndunum til að byrja með. Þó við hefðum náð að fá 13 erlend atriði á hátíðina í ár þá höfðum við samband við um 200 bönd eða tónlistarmenn. Við erum mjög sáttir með þá dagskrá sem við höfum sett upp. Við erum með frábæra dagskrá og þá sérstaklega þegar litið er á íslensku tónlistarmennina. Þau íslensku bönd eða tónlistarmenn sem ekki spila á Keflavík Music Festival í ár eru erlendis því við reyndum að fá alla í lið með okkur – meira að segja Sigur Rós,“ segir Óli.

Hátíðin komin til að vera
Ef vel gengur í ár er Keflavik Music Festival líklega komin til að vera. Það er í það minnsta stefnan hjá þeim Óla og Pálma sem eru nú þegar farnir að skipuleggja næsta ár. „Hátíðin er búin að mörghundruðfalda sig á einu ári og við vonum hreinlega að þetta stækki með hverju ári,“ segir Pálmi. „Þessi hátíð er komin til að vera og við erum rétt að byrja,“ bætir Óli við.

Þeir sem ekki hafa náð 18 ára aldri þurfa ekki að kvíða því sérstök dagskrá verður fyrir aldurshópinn 14-18 ára. Miðasala fer fram í afgreiðslustöðvum N1 og á heimasíðu hátíðarinnar, keflavikmusicfestival.com. Þar má finna nánari upplýsingar um hátíðina og um tónlistarmennina sem koma fram.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024