Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Verðum að vera víðsýn því allt er að breytast
Þriðjudagur 7. maí 2019 kl. 08:00

Verðum að vera víðsýn því allt er að breytast

- segja fyrrum leiðtogar stéttarfélaganna.

Þeir eru báðir hoknir af reynslu þegar þeir yfirgefa sviðið núna sem leiðtogar stéttarfélaga hér á Suðurnesjum. Guðbrandur Einarsson, fyrrum formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja og Kristján Gunnarsson, fyrrum formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur hættu nýlega eftir áratuga störf. Víkurfréttir ræddu við kappana um verkalýðsbaráttuna og breytingar í henni, mál sem tengjast atvinnumálum á Suðurnesjum, brotthvarf Varnarliðsins og áhrif þess og loks af hverju þeir ákváðu báðir á þessum tímapunkti að hætta. 
 
Marta Eiríksdóttir, blaðamaður settist niður með þeim Kristjáni og Guðbrandi en þeir kynntust fyrir margt löngu þegar sá síðarnefndi gekk í Alþýðuflokkinn í Keflavík. 

 

Pólítíkin heillaði þá báða

 
„Já, já, við Logi Þormóðsson gengum þá saman í Alþýðuflokkinn, kannski vegna þess að við vorum mjög ósáttir við það hverning félagsmenn í Alþýðubandalaginu höfðu hagað sér í kosningabaráttu Ólafs Ragnars á þeim tíma. Það var til þess að ég fór að vinna með Alþýðuflokknum og mæta þar á fundi og upp frá því var ég tengdur inn í þetta, inn í bæjarmálafélag jafnaðarmanna, eins og þetta hét þá, J listinn. Fer síðan í prófkjör 2002 og kemst inn í bæjarstjórn,“ segir Guðbrandur.
 
„Bubbi kemur inn þegar ég hætti í bæjarstjórn en þá var ég formaður Alþýðuflokksfélagsins, já já, ritari og gjaldkeri hjá þeim, fór allan hringinn. Ég var með í þremur bæjarstjórnum, fyrst í bæjarstjórn Keflavíkur, því næst í Keflavík, Njarðvíkur og Hafna og svo í fyrstu bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Þannig byrja ég í bæjarstjórnarpólítikinni. Við Bubbi vorum á svipuðum slóðum og það tókst með okkur góð vinátta sem hefur haldist síðan. Virðing og vinátta, þótt við séum ekki alltaf sammála en það er allt í lagi,“ segir Kristján og Guðbrandur tekur undir það.
 
„Við erum búnir að vera vinir og samstarfsmenn alveg síðan. Ég kem inn í Verslunarmannafélagið 1998 og tek við af Jóhanni Geirdal. Þá hafði ég verið að nudda mér upp við póltíkina en hafði ekki árangur sem erfiði, ákvað samt að vinna með flokknum og tók sæti í Fjölskyldu- og félagsmálaráði Reykjanesbæjar. Í framhaldi af því var skorað á mig að gefa kost á mér sem formaður Verslunarmannafélagsins og ég tók þeirri áskorun og kem inn vorið 1998, fyrir tuttuguogeinu ári síðan,“ segir Guðbrandur. 
 
Þegar Kristján kemur inn og gefur kost á sér í Verkalýðsfélaginu hafði Karl Steinar Guðnason, þá einnig þingmaður, verið formaður Verkalýðsfélagsins nokkuð lengi, „Þetta byrjaði með miklum hvelli. Það kemur mótframboð sem Alþýðusambandið dæmir ólöglegt eða ekki gilt. Ég var því sjálfkjörinn og byrja sem formaður árin 1991-1992. Ég tek við af Karli Steinari sem hafði verið á þingi samhliða því að gegna formennsku hér suðurfrá en það var algengt í þá daga að framámenn í stéttarfélögum gegndu einnig þingmennsku, eins og Guðmundur Jaki, Magnús L. Sveinsson og fleiri,“ segir Kristján.
 
„Það þótti eðlilegt að þeir sem tóku að sér að vera í forystu fyrir verkalýðhreyfinguna væru áberandi í pólítíkinni. Magnús L. Sveinsson var nú forseti borgarstjórnar lengi vel og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, auðvitað voru menn þarna til þess að gæta hagsmuna félagsmanna sinna á sem breiðustum grunni,“ segir Guðbrandur.
 
Hefur verkalýðsbaráttan breyst í gegnum árin?
 
Kristján: „Það hefur margt breyst. Við höfum alveg gengið til góðs, það hefur margt gerst sem hefur gagnast til góðs. Það er stundum sagt um fólkið í verkalýðshreyfingunni að það sjái ekki sigrana fyrr en mörgum árum seinna. Við Bubbi gerðum síðast kjarasamning saman árið 2015. Þá stóðum við að því sem við nefndum Hvítasunnubandalagið því það var yfir hvítasunnuna sem við náðum að landa samningi en þá gerðum við einhvern þann besta kjarasamning sem íslensk verkalýðshreyfing hefur gert í áratugi. Þarna var gerður samningur með krónutöluaðferðinni, þó að menn haldi núna að þeir séu að finna upp krónutöluaðferðina, þá hef ég lengst af á formannsferli mínum samið um krónutöluhækkanir í samningum, því það hefur gagnast þeim lægstlaunuðu best.“
 
Guðbrandur: „Eðli stéttarfélaga hefur líka breyst talsvert. Frá því að vera bara tæki til þess að vinna að bættum launakjörum, þá hafa stéttarfélög tekið að sér allskonar þjónustu og menn hafa samið um það í kjarasamningum að fá mótframlög frá vinnuveitendum til stéttarfélaganna til þess að veita þjónustu. Menn stofnuðu nú orlofssjóði á sínum tíma og sjúkrasjóði. Síðan stofnuðum við starfsmenntasjóði og við höfum einnig stofnað endurhæfingarsjóð. Allir þessir sjóðir eru að styðja við bakið á félagsmönnum okkar á ýmsan hátt. Starfsmenntasjóðir hafa gert það að verkum að fólk á miklu auðveldara með að fara í nám, til þess að styrkja sig á vinnumarkaði og auka lífsgæði. Endurhæfingarsjóðirnir gerðu það að verkum að Virk varð til en það verður til af því að við búum til þennan sérstaka sjóð sem fjármagnar starfsemi Virk sem hjálpar fólki inn á vinnumarkað aftur. Fólk gleymir stundum þessum þætti í starfsemi stéttarfélaganna en þetta hefur allt gerst í gegnum kjarasamningana sem gerðir hafa verið á undanförnum áratugum. Við erum öfunduð af þessu á Norðurlöndunum, sem standa mjög framarlega í launa- og velferðarmálum. Staðan þar er mjög góð en stéttarfélögin þar hafa þetta ekki sem við höfum hér, að hafa fengið þessi launatengdu mótframlög til okkar til þess að styðja við bakið á félagsmönnum okkar, eins og við höfum verið að gera í áratugi,“ segir Guðbrandur.
 
Kristján: „Starfsmenntasjóðir komu árið 2000 og við fundum hvað þetta virkaði rosalega vel einmitt í hruninu. Það var gríðarlega mikilvægt að hafa þessi tól og tæki til að bregðast við og til þess að hjálpa fólki. Sjúkrasjóðirnir komu fyrir okkar tíð.“
 
Guðbrandur: „Við höfum verið að fá aukið framlag inn í marga þessa sjóði í gegnum tíðina. Fólk er að hafa framlengdan veikindarétt í gegnum sjúkrasjóð stéttarfélaganna. Það er verið að borga ýmiskonar forvarnarstarfsemi, líkamsrækt og fleira sem stéttarfélögin eru að aðstoða fólk með. Þetta er allt eitthvað sem fólk man ekki alltaf eftir.“
 
Kristján: „Það er gríðarlega mikill stuðningur fyrir fólk sem ákveður að fara í nám og sækir um aðstoð hjá stéttarfélagi sínu, að geta fengið allt upp í 300.000 krónur til náms, hafi það ekki nýtt styrk sinn í meira en þrjú ár. Þá getur það fengið allt á einu bretti. Þetta er fólk að nota þegar það koma áföll, til dæmis atvinnuleysi. Það er hægt að fá um hundrað þúsund krónur í endurgreiðslu ef menn fara í meirapróf. Það er blæbrigðamunur á þessu hjá félögunum en annars mjög líkt.“
 
Guðbrandur: „Til að bæta við þá sömdum við um stofnstyrki svokallaða, sem ætlaðir voru í byggingu íbúða fyrir tekjulága félagsmenn stéttarfélaganna. Þetta var eitt af því sem kom í gegnum kjarasamninginn okkar 2015 og í framhaldi af því breytir ríkisstjórnin lögunum sem í dag heita lög um almennar íbúðir. Þetta gerði það að verkum að ASÍ stofnaði byggingarfélagið Bjarg á hundrað ára afmæli sínu sem nú hefur hafið byggingu á hundruðum íbúða fyrir tekjulága einstaklinga. Í þessum nýja kjarasamningi núna er meðal annars verið að fá aukna fjármuni inn í þetta félag. Þarna fengum við stofnstyrki fyrir 2.300 íbúðir.“ 


 

Pólverjar ekki dragbítar

 
Hefur kjarabaráttan linast með tilkomu erlends vinnuafls?
 
Kristján: „Í Verkalýðsfélaginu eru erlendir félagsmenn orðnir 52% og það er stundum verið að núa þessu fólki um nasir um að þau séu ekki fús til verkfalla. Ég hef ekki þá reynslu því árið 2015 fórum við í verkfallsboðun og þá fengum við 93% samþykktir. Ef við skoðum þetta núna miðað við nýafstaðna verkfallsboðun hjá VR þá fengu þeir 52% til að samþykkja. Ég tek ekki undir það að útlendingar séu dragbítar inni í stéttabaráttunni hér á landi. Pólverjarnir sem eru í meirihluta þeirra sem starfa hér á landi og þeir eru ágætlega meðvitaðir um réttindi sín. Mér finnst við fá ferskan vind með þeim og upplifi þá alls ekki sem dragbíta,“ segir Kristján. 
 
Guðbrandur: „Hér á Íslandi höfum við verið að semja um svokallað lágmarkslaunakerfi á almennum markaði en ekki raunlaunakerfi eins og hjá hinu opinbera. Það hefur þýtt það að margir Íslendingar hafa ekki verið á lágmarkslaunum heldur á umsömdum persónubundnum launum, markaðslaunum svokölluðum, verið yfirborgaðir, en svo bara breytist heimurinn. Hér er alþjóðavæðingin á fullu. Við erum orðinn hluti af evrópska efnahagssvæðinu og maður hefur frelsi til að flytja á milli landa og vinna þar sem manni sýnist það er ef þú ert hluti af landi sem er inni á þessu svæði. Fyrir til dæmis Pólverja sem fær kannski fjörutíu til fimmtíu þúsund krónur útborgaðar í heimalandi sínu, þá er það stór og mikill bónus að vinna á lágmarkslaunum hér á Íslandi. Þetta getur auðvitað gert það að verkum að þeir sem hafa verið yfirborgaðir eru ekki eins eftirsóknarverðir starfskraftar í framhaldinu þegar þú getur fengið erlendan starfsmann á lægri launum. Þetta getur auðvitað skapað úlfúð og hvetur menn til þess að hækka taxtakaupið nær raunlaunum. Það er það sem menn hafa verið að horfa til núna í þessum nýju kjarasamningum. Þetta er held ég skýringin á því að það voru örfáir að vinna á þessum lágmarkslaunum hér á landi en útlendingarnir koma hingað og eru tilbúnir að vinna á lágmarkstaxta. Það getur þýtt að það er minni eftirspurn eftir launþegum sem vilja hærri laun. Framboðið af vinnukrafti er meira en áður var hér á landi,“ segir Guðbrandur. 
 
Kristján: „Vinnumarkaðurinn breyttist mjög mikið hér suðurfrá þegar það var ekki hægt að manna flugþjónustuna og þá þurftu flugrekendur að leita til Póllands, flytja inn hundruð starfsmanna þaðan beint til þess sinna þessum störfum. Auðvitað er verið að ráða allt þetta fólk inn á gildandi taxtakerfi. Í dag eru 75% starfsmanna eða meira af erlendu bergi brotið í hlaðþjónustunni í Leifsstöð,“ segir Kristján. 
 
Guðbrandur: „Markmið Evrópusambandsins er að búa til svokallaða einsleitni, þannig að það verði eins að lifa í löndunum innan ESB, til þess að menn séu ekki að undirbjóða og nýta sér ódýrt vinnuafl annars staðar eins og menn hafa verið að gera. Kjarabaráttan er líka orðin alþjóðleg. Menn eru að reyna að bæta kjörin alls staðar þannig að það sé ekki verið að flytja fólk á milli landa til að láta það vinna á þrælakjörum eða fyrirtæki að flytja atvinnustarfsemi til annarra landa sem getur líka verið ógnun fyrir okkur ef menn eru að færa starfsemina úr landi,“ segir Guðbrandur.

 

Stærsta áfallið þegar Varnarliðið fór

 
Það er ekki hægt að hitta þá félaga öðruvísi en að ræða Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli en það var stærsti vinnustaður á Suðurnesjum í hálfa öld.
 
Guðbrandur: „Við þurftum oft að glíma við ameríska herinn. Það störfuðu þúsundir manna fyrir Varnarliðið og maður sótti launabreytingar uppi á Velli í gegnum svokallaða Kaupskrárnefnd sem var nefnd á vegum ríkisins. Þá þurfti maður að rökstyðja það að starfsfólkið ætti rétt á launahækkun með því að taka saman hagtölur hérna niðri í bæ.“
 
Kristján: „Já eða þegar ég fann gröfumann í Grímsey sem hafði hærri laun og þá fengu strákarnir á Vellinum launahækkun. Það var samt skelfileg fyrirlitning sem var meðal annars í Verkalýðshreyfingunni á þessu Vallarsvæði og á þessu herbraski okkar. Ég þurfti nú mjög oft að minna menn á það, að herinn þurfti að skipta dollurum til að borga íslensku starfsfólki þarna uppfrá, að hver einasti maður var að vinna fyrir grjóthörðum gjaldeyri. Þessir dollarar voru ekkert öðruvísi en þessir dollarar sem við vorum að fá fyrir fiskinn. Svo var verið að leggja allskonar hömlur á Varnarliðið og banna Varnarliðsmönnum að ferðast í landinu okkar, furðulegt alveg, því á sama tíma var verið að tala um að byggja upp ferðamannaiðnaðinn. Ég veit það ekki en mér líkaði alla tíð vel við að vinna fyrir Varnarliðið, það voru alls konar kúnstir í kringum þá samninga en þarna var fólk mjög vel launað. Það var í raun stærsta áfallið okkar í atvinnusögunni að missa Varnarliðið í burtu árið 2006 en við vorum náttúrulega búin að upplifa hrun hérna áður í gegnum kvótakerfið. Það var samt rosalegt áfall þegar herinn fór endanlega. Við vorum svo sem byrjuð að finna fyrir því nokkrum árum áður því þeir voru farnir að draga úr starfseminni þarna uppfrá í nokkur ár,“ segir Kristján. 
 
Guðbrandur: „Þetta var rosalegt áfall þegar herinn fór. Við erum auðvitað í æfingu þegar hrunið verður árið 2008 en þegar þú ert veikur fyrir og verður fyrir öðru áfalli þá ertu kannski ekkert rosalega sterkur,“ segir Guðbrandur.
 
Kristján: „Við Suðurnesjamenn vorum voðalega ein með brottför hersins og fundum ekki fyrir mikilli hjálp frá samfélaginu. Við urðum að fara í það að spjara okkur sjálf og fórum í samstarf við Reykjanesbæ og fleiri til að útvega fólki vinnu. Við fylgdum því eftir að hver einasti starfsmaður fengi starf eftir atvinnumissinn á Vellinum eða kæmist á bætur. Þá var Árni Sigfússon bæjarstjóri, mjög duglegur og í fararbroddi, hann á mikið hrós skilið fyrir það. Sú aðgerð heppnaðist mjög vel,“ segir Kristján. 
 
Guðbrandur: „En árið 2008 er Reykjanesbær ekki í sterkri stöðu og heldur ekki mörg fyrirtæki á svæðinu. Brotthvarf Varnarliðsins gróf undan starfsemi margra fyrirtækja og fyrstu þrjú árin eftir hrun fóru ótrúlega mörg fyrirtæki á hausinn hérna, urðu bara gjaldþrota. Árið 2009 lýsti ég fleiri kröfum í gjaldþrotabú en ég hafði gert allan tímann sem ég vann hjá Verslunarmannafélaginu, bara á einu ári. Það voru mörg fyrirtæki sem reyndu að halda í starfsmenn sína, öll af vilja gerð, minnka starfshlutföll og hagræddu í rekstri til að þurfa ekki að segja upp fólki,“ segir Guðbrandur. Kristján tekur undir það og segir: „Við erum hér Íslandsmeistarar í atvinnuleysi frá 1992 fram að hruni og fórum ekki að rétta úr kútnum fyrr en fyrir svona fjórum árum en því miður erum við búin að ná þessum titli aftur.“

 

Stóriðja í Helguvík átti að bjarga en hvað hefur gerst?

 
Rekstur stóriðju í Helguvík átti að vera sterkt innlegg í atvinnulíf á Suðurnesjum fyrir rúmum áratug og aftur fyrir nokkrum árum. Þeir félagar eru ekki alveg á sömu nótum hvað varðar rekstur í Helguvík. 
 
Guðbrandur: „Stóriðnaður í nágrenni sveitarfélags getur haft mjög slæm áhrif á heilsufar íbúa. Þá skoðun hef ég sem núverandi bæjarfulltrúi og sem fyrrum formaður stéttarfélags. Þá bar mér einnig að gæta að velferð íbúa á hvaða hátt sem það er. Mér finnst þetta ekki allt byggjast á því að búa til atvinnu sama hvað. Einhvern tímann fengum við þá fyrirspurn að ef menn ætluðu að heimila hassreykingar á Íslandi, hvort menn mættu setja upp hassverksmiðju í Helguvík. Jú það hefði getað gefið bænum tekjur en ég er ekki viss um að ég hefði samþykkt það. Já, það er ýmislegt sem fólk veltir fyrir sér, nú þegar þessi umhverfislegu sjónarmið eru að verða sterkari og sterkari. Ég er svo uppnuminn af þessari ungu sænsku stelpu, Grétu, sem fer um allan heiminn og talar við stjórnmálamenn um náttúruvernd. Það að fara að brenna kolum í Helguvík styður það ekki að við reynum að laga þetta ástand sem við erum búin að skapa hér í árhundruðir. Við þurfum einhvern tímann að fara að snúa við blaðinu og ég ætla bara að standa fastur í hælana hvað það varðar. Ég veit um fólk sem veiktist þegar kísilverið starfaði. Menn vita svo sem ekkert hvað olli þessari vondu lykt en sem innihélt efni og hafði áhrif á fjölda fólks. Bæjarfulltrúar fundu þetta á eigin skinni líka, hafði slæm líkamleg áhrif á marga þeirra. Það er bara spurning hvort við þurfum ekki að fara að endurskoða stöðu okkar sem manneskjur. Er allt fengið með auknum hagvexti? Getum við ekki farið að líta einhvern veginn öðruvísi á þetta? Stóriðnaður er ekki góður iðnaður,“ segir Guðbrandur.
 
Kristján: „Þetta tengist svolítið umræðunni sem við vorum í áðan, þegar það var mjög mikið atvinnuleysi og hvernig staðan var hér fyrir einhverjum árum. Ég man eftir mjög mörgum aðgerðum, einu sinni átti að setja upp pípuverksmiðju í Höfnum, álverið náttúrulega í Helguvík bara kom en varð ekki. Ástæðan fyrir því að menn settu niður þessa verksmiðju liggur í stöðunni sem var þá á vinnumarkaði hér suðurfrá. Það var gríðarlega mikið atvinnuleysi. Ástandið var slíkt að bæjarstjórn hefði jafnvel sett niður þetta kísilver í skrúðgarðinn hefðu hinir bara beðið um það því það var svo mikil örvænting. Menn voru til í hvað sem var á þeim tíma. Ég legg mikið upp úr því að menn starfi eftir lögum og reglum. Mér er spurn, það er kísilver í Kristiansand í Noregi mjög nálægt mannabyggð og þar gengur þetta vel. Það var auðvitað mikið áfall þegar þessari verksmiðju var lokað í Helguvík því þarna voru mörg verðmæt störf sem töpuðust. Menn verða að fara að lögum og reglum. Vandræðagangurinn núna fyrir norðan sýnir fram á það að þetta er ekki allt gott, þeir eru greinilega ekki að valda þessu. Ég veit ekki hvort þetta kísilver í Helguvík fer af stað aftur. Þeir nota það alveg miskunnarlaust hjá Arion banka að ef þeir fá ekki heimild til að opna verksmiðjuna aftur þá fara þeir í skaðabótamál við Reykjanesbæ. Þeir hóta þessu að ef þeir fái þetta ekki þá munu þeir fara í mál og þarna erum við að tala um minnst ellefu tólf milljarða.“
 
Guðbrandur: „Vandamálið í þessu er að á þessum tímapunkti eins og Kristján bendir á sem var á þessum tíma, var almenningur öðruvísi þenkjandi og tilbúinn til að byggja upp stóran iðnað, atvinnuástandið var það slæmt. Í dag eru þessar aðstæður allt aðrar og breyttar. Nú er mun meiri umhverfisvitund á meðal íbúa. Menn tóku þessa ákvörðun í allt of þröngum hópi. Þið munið hvernig fór með Hitaveitu Suðurnesja á sínum tíma þegar hún var seld. Þá gengu menn hús úr húsi og söfnuðu undirskriftum gegn sölunni en á það var ekki hlustað. Þegar svona stór verkefni fara af stað þá þarf að gefa íbúunum rödd, að þeir hafi eitthvað um málin að segja. Ef þessar verksmiðjur eiga að fara í gang aftur þá þarf að koma til einhvers konar samráð við íbúana og ég ætla að standa fast á því og mun beita mér fyrir því sem bæjarfulltrúi.“
 
Kristján: „Nú er það svo komið að hagsmunir meirihluta eigenda Hitaveitunnar ganga fyrir, að þeir stjórna orkuverði hér hjá okkur. Þegar eigandinn segist vilja fá meiri arð þá er sótt í íbúana og orkureikningurinn hækkar. Þarna eru menn komnir nánast með skattlagningarvald á íbúana, mér hugnast það ekki. Ég hef allan tímann verið á móti því að hafa selt þessa mjólkurkú okkar.“ 

 

Ný verkalýðshreyfing er á annarri vegferð

 
Þegar þeir Kristján og Guðbrandur eru spurðir út í ástæður þess að þeir hafa sagt skilið við verkalýðshreyfinguna eru þeir ekki að leyna því að þeir eru ekki á eitt sáttir með stöðu mála hjá forystunni í hreyfingunni.
 
Kristján: „Ég tók þessa ákvörðun fyrir þremur árum að nú færi þetta að verða ágætt. Maður er að verða 65 ára gamall á þessu ári og mér fannst tímabært að hætta hjá Verkalýðsfélaginu en ég ætla að vona að ég finni mér eitthvað annað að gera. Ég er mjög sáttur þegar ég hverf núna frá þessu. Félagið okkar er mjög stöndugt í dag bæði félagslega og fjárhagslega. Ég kom mjög skyndilega að félaginu á sínum tíma, fór beint í djúpu laugina án þess að hafa kút eða kork. Ég vil að sú sem tekur við af mér fái mýkri lendingu og ég mun vera hennar innan handar eitthvað áfram. Það var mjög dýrmætt á sínum tíma þegar ég fékk að starfa með Gvendi Jaka en sá veruleiki er ekki í dag, þetta er meira útflatt í dag. Breytingarnar sem eru að verða í verkalýðshreyfingunni eru ekki allar að mínu skapi og því tímabært að hætta. Nú tekur við fyrsta konan Guðbjörg Kristmundsdóttir við formennsku í VSFK eftir rúmlega rúmlega 85 ár og tímabært að breyta til.“ 
 
Guðbrandur: „Engin spurning að það hafði mjög mikil áhrif á mig þessi læti í félaginu í fyrra og okkur öll sem störfuðum fyrir Verslunarmannafélagið. Við fengum á okkur ágjöf sem við áttuðum okkur ekki á hver væri. Þá sá ég það bara að ég var talsvert umdeildur og að ákveðinn hópur var ekki hliðhollur mér. En við stóðum það af okkur og þetta mótframboð var dæmt ógilt. Umræðan í framhaldinu var mjög rætin og í framhaldi af ógildingu mótframboðs var krafist félagsfundar þar sem menn létu ansi hreint ófriðlega en ég var sem betur fer með mjög færan fundarstjóra. Ég var eltur út í bíl eftir fundinn og það var hringt í konuna mína og henni sagt að það væri setið um mig. Við sem störfuðum fyrir félagið vorum meðal annars öll kölluð kynþáttahatarar. Þetta gerði það að verkum að ég fór bara að skoða stöðu mína. Ég og Gunnar Páll Pálsson, fyrrverandi formaður VR, höfðum áður skoðað möguleika á sameiningu félaganna, VS og VR en svo féll hann í hruninu og þessar hugmyndir settar í salt og talsvert róstur hefur verið í VR síðan þá. Ég ákvað, í kjölfar þessa ófriðar í félaginu, að dusta rykið af þessari hugmynd því það er ákveðin samleið í því að reka félögin saman, vinnusvæðið orðið eitt, meiri slagkraftur. Það er fjöldi útlendinga starfandi hér og við þurfum að bregðast við með öðrum hætti. Við þurfum að halda utan um þetta á allt annan veg en áður. Félagsmenn voru spurðir og niðurstaðan var að fólk vildi sameina félögin. VR bauð mér og öllum öðrum vinnu en svo kemur það bara í ljós að ný verkalýðsforysta er á annarri vegferð en margir, þar á meðal ég vorum á. Mín prinsipp náðu ekki fram og þá var rétt að aðrir tækju boltann og ég sagði af mér. Ég er kominn út úr þessu en hefði kannski viljað fara út úr þessu við einhverjar aðrar aðstæður en ég er bara þeirrar gerðar að ég stend og fell með mínum prinsippum. Staðan var bara þessi að ég hafði ekki hljómgrunn í meirihluta verslunarmanna á Íslandi sem er VR.“
 
Kristján:„Þessi svokallaða nýja verkalýðshreyfing er ekki alveg öll svo ný en vissulega eru aðrar nálganir og önnur vinnubrögð hjá henni. Bubbi vitnar í samning sem hann sat með í höndunum og var um það bil að landa hjá verslunarmönnum en sá samningur var jafnvel betri en sá sem búið er að landa núna. Framkoman, umgengni við fólk og vinnuaðferðir hjá nýrri verkalýðshreyfingu eru ekki fólki bjóðandi; Valdið er mitt, ég ræð, ég má, ég á.“
 
Guðbrandur: „Við vorum að reyna að fylgja ákveðinni hugmyndafræði. Menn gerðu hér þjóðarsátt á sínum tíma í kringum 1990. Hún var gerð af mönnum eins og Guðmundi Jaka, þegar menn gáfust upp á gömlum baráttuaðferðum sem skiluðu engu nema gengisfellingu daginn eftir. Það sem að við ákváðum, þessi gamla íhaldssama hreyfing sem nú er nánast öll að fara, var að skoða hvað við værum að gera öðruvísi en þau á Norðurlöndum? Þau eru alltaf að semja um miklu minni launabreytingar en þeir fá alltaf meiri kaupmáttaraukningu út úr því. Við ákváðum að fara að skoða það og höfum verið að því í mörg ár. Fyrir það höfum við fengið bágt fyrir af mörgum þeim sem tilheyra hinni svokallaðri nýju verkalýðsforystu. Þau hafa talað þannig að við værum að taka samningsréttinn af stéttarfélögunum. Menn hafa talað mjög hatrammlega gegn mönnum sem hafa leitt þessa aðferð sem kölluð var Salek. Við áttum nú frábæran forseta Alþýðusambandsins, Gylfa Arnbjörnsson en hann var nánast tekinn af lífi. Við Kristján erum hluti af hópnum sem studdi hann og unnum með honum en sá hópur er svona smátt og smátt að hverfa. Við töldum eðlilegt að skoða leiðir til að færa fólki aukinn kaupmátt. Við náðum verðbólgu á sínum tíma niður fyrir 2% í kjarasamningum árið 2013 því við fórum í allsherjar aðgerðir í framhaldinu, við töluðum við verslanir og fengum þær til að hækka ekki vöruverð. Við vorum úthrópuð fyrir þetta þegar við vildum innleiða norræna módelið hér á landi sem byggir á því að finna út hvað landið þolir án þess að skaða samkeppnishæfni þess og síðan er samið í samræmi við það. Svona gera þeir þetta á Norðurlöndum. Ef fyrirtækin þola 3% launahækkun þá hækka launin þar um þá prósentu til dæmis. Nú er ágreiningur um þessa aðferð á milli þessa nýja hóps sem tekinn er við og okkar. Þess vegna finnst mér auðveldara að fara.“ 
 
Hvað er framundan?
 
Kristján: „Við erum báðir hoknir af reynslu. Ég er búinn að segja Bubba það allan tímann, að hann eigi að fara í landsmálapólítík næst en ég ætla ekki að spreyta mig á því sjálfur. Ég ætla að vera kosningastjóri hjá Bubba þegar hann fer á þing, ég er til í það,“ segir Kristján. 
 
Guðbrandur: „Ég hef aldrei vitað hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði orðinn stór. Þannig hefur líf mitt verið. Ég fór til dæmis í tölvunám og ætlaði að vinna við tölvur en það varð aldrei. Ég er auðvitað í bæjarpólítikinni og ég hef brunnið fyrir því. Ég ætla að halda áfram að hafa skoðanir og sjá hvað tíminn leiðir í ljós. Bæjarmálin geta tekið mikinn tíma og ég ætla að einbeita mér betur að þeim. Ég er líka kominn inn í stjórn HS Veitna og ég ætla að sinna því eins og ég get. Svo er ég tónlistarmaður og ætla ekkert að hætta því. Við erum núna að fara að útbúa næstu Ljósanæturtónleika en ég er einn af aðstandendum Með blik í auga, og það tekur marga mánuði að undirbúa slíkan tónlistarviðburð. Svo ætla ég að sinna mér og mínum, fjölskyldunni. Ég var að eignast litla afastelpu og það er bara nóg að gerast.“
 
„Plató sagði, að það verði aldrei vel stjórnað fyrr en þeir stjórna sem vilja ekki stjórna. Plató er þá arkitektinn þinn Bubbi. Sjálfur ætla ég að fara að hitta fjölskylduna mína, barnabörnin og sinna þeim. Njóta lífsins. Ég er búinn að skipuleggja ferðalög í sumar en ef einhver vill nota mig og gefa mér tækifæri þá skoða ég það með opnum hug. Ég ætla að vera þeim innan handar hjá Verkalýðsfélaginu, vera kaldur á kantinum og til staðar út árið, “ segir Kristján.

Sameina sveitarfélög

 
Hvernig sjáiði framtíð Suðurnesja?
 
Kristján: „Hefði ég verið spurður fyrir tuttuguogfimm árum síðan þá hefði ég sagt að það er skynsamlegt að sameina meira, sameina sveitarfélög. Það hlýtur að vera þróunin því þar liggur styrkurinn. Þetta kostar peninga að hafa margar bæjarstjórnir.“ 
 
Guðbrandur: „Það er ekki endilega gott að hafa eitt sveitarfélag ef það hefur ekki góða stefnu. Við hjá Reykjanesbæ erum þessa dagana í stefnumótun og höfum verið að vinna þetta verkefni með ráðgjafafyrirtæki sem við fengum til liðs við okkur. Við höfum meðal annars haldið fund í Stapa þar sem við fylltum húsið af fólki í heilan dag, slembiúrtak íbúa og þar spurðum við fólkið hvernig það vildi sjá bæinn okkar þróast. Fljótlega kemur niðurstaða af þessum fundi og allri þessari vinnu, yfirskrift sem mun lifa áfram og ég vil sjá hana því mig langar að heyra hvað íbúar vilja. Ég vil sjá fólkið í þessum bæ hafa það gott, að við lifum öll saman í sátt og samlyndi. Mér finnst „þessir útlendingar“ eins og fólk segir stundum, ekki vera ógnun, þeir auka víðsýni okkar. Þeir fjölga tækifærum okkar. Heimurinn er að breytast. Ég var einu sinni útlendingur í Svíþjóð og Svíar tóku vel á móti mér. Ég vil taka vel á móti íbúum af erlendu bergi. Þeir eru að bæta samfélagið okkar, við eigum að vera víðsýn, horfa til framtíðar og þora að breyta samfélaginu okkar. Okkar bíða bara tækifæri,“ segir Guðbrandur.  
 
Kristján: „Ég horfi fram á veginn og er bara bjartsýnn og jákvæður. Ég féll algjörlega fyrir þessum hluta landsins þegar ég flutti hingað frá Reykjavík í kringum 1970. Ég ólst þar upp í níu systkina hópi í verkamannafjölskyldu. Ég byrjaði snemma í pólítíkinni og var svo heppinn að fá að starfa með góðu fólki. Ég er svo ánægður að heyra það núna að við erum komin undir skuldaviðmið hjá Reykjanesbæ, lóan er komin og sumarið er líka að koma. Þetta var svo jákvætt og flott, bara eins og þetta hefði verið skipulagt,“ segir Kristján að lokum með bros á vör.   
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024