Verðum að vera sjálfbært samfélag
Sigurður í K-sport vill að fyrirtæki og sveitarfélög leiti ekki langt yfir skammt.
Sigurður Björgvinsson hefur rekið íþróttavöruverslunina K-sport í Reykjanesbæ í 21 ár. Hann segir skipta máli að viðskiptum sé beint til fyrirtækja á svæðinu og þar sé þáttur sveitarfélaga mikilvægur. Oft sé leitað langt yfir skammt.
„Fólk hefur hringt í mig sem statt hefur verið í 66°N í Reykjavík og spurt: Áttu þessa flík í þessari stærð, þeir eiga hana ekki hér? - og ég hef átt hana. Þá sér það eftir að hafa ekki athugað hér fyrst. Við getum líka auðveldlega sparað viðskiptavinum bensín með því að panta vöru í vissum lit eða stærð til okkar. Þá er hún komin til okkar kannski daginn eftir,“ segir Sigurður Björgvinsson, eigandi K-port, en hann hefur rekið verslunina í 21 ár. Hann er auk þess með umboð fyrir vörumerkin 66°N, Nike, Zo-on, Didrikson og Speedo. „Við seljum allt að 60% í vörum frá 66°N eftir pöntunarfyrirkomulagi. Ég er líka mikið með fatnað yfir íþróttafélög, skóla og leikskóla og hef sérhæft mig í því. Við verslunar- og þjónustufyrirtækjaeigendur erum háðir viðskiptavinum en mér finnst líka skipta máli að viðskiptum sé meðvitað beint til fyrirtækja á svæðinu.“
Þáttur sveitarfélaga mikilvægur
Sigurður segir að oft sé leitað til Reykjavíkur þegar vel sé hægt að fá hlutinn eða vöruna hér. „Það gleymist oft að umboðsaðili fyrir vörur er hér á svæðinu og í staðinn er leitað langt yfir skammt. Við erum með ákveðið fyrirkomulag um afslátt fyrir íþróttafélög og höfum reynt að koma til móts við viðskiptavini til að hvetja þá til að velja okkur. Þegar ég tók við versluninni 1994 pantaði ég fótbolta-og körfuboltaskó fyrir 90% iðkenda í Njarðvík og Keflavík. Í dag er ég með 2%. Það vantar hvatningu innan íþróttafélaganna um að iðkendur kaupi af mér. Í Grindavík eru fatapeningarnir á vegum bæjarins eyrnamerktir verslunum þar en Reykjanesbær, þessi stóri vinnuveitandi, verslar í Reykjavík.“ Hann bætir við að það sé fyrirtækjanna að veita tækifærin. Gott fólk reki verslanir á Suðurnesjum. „Það eru tvær íþróttavöruverslanir á Akranesi þar sem 5000 manns búa. Hér erum við í vandræðum með að reka eina.“ Sigurður er þó afar þakklátur sínum traustu viðskiptavinum sem haldi í honum lífinu og þar séu í meirihluta 35 ára og eldri og nýbúarnir. „Elsti hópurinn er ekki mikið fyrir Kringlur og Smáralindir. Utanlandsferðirnar verða alltaf til staðar og við erum ekki í meiri samkeppni við þær en aðrar verslanir á landinu.“
Japanir keyptu 30 stígvél
Sigurður segir árið í ár þó vera sitt besta eftir hrun, en það sé líka vegna þess að hann fór sínar eigin leiðir. „Neytendur eru á verðlagsvaktinni en víða er blekkingarleikur í gangi. Ég reyni frekar að lækka verðið hjá mér en að veita afslátt. Það er líka hægt að leysa ýmislegt með pöntunarfyrirkomulagi og halda þannig versluninni heima. Vöruverðið á t.d. Nike vörum hefur lækkað gríðarlega miðað við verð erlendis undanfarin ár. Þegar íslenska krónan féll minnkaði eftirspurnin eftir skónum beint úr verslunum og því varð að lækka verðið.“ Óvænt viðskipti hafi líka átt sér stað og Sigurður segir skemmtilega sögu af íslensku rækjuveiðiskipi sem var við veiðar í Kanada hér um árið og njarðvísku Örlygsbræðurnir sáu um að þjónusta. „Þar voru Japanir sem tóku eftir því að íslensku sjómennirnir voru svo stöðugir á dekkinu í stígvélum frá 66°N. Mörg slys verða á japönskum togurum vegna þess að þeir renna til í sínum skófatnaði. Það endaði með því að ég útvegaði Japönunum 30 stígvél. Kaupmaður í Keflavík!“
Samkaup varð sterkari en Hagkaup
Einnig rifjar Sigurður upp þegar Hagkaup opnaði martvöruverslun á Fitjum í Njarðvík. „Þá fór skjálfti um okkur í Samkaupum, þar sem ég var deildarstjóri yfir matvörunni. Einhver áróður varð í kjölfarið um að Reykvíkingurinn Pálmi í Hagkaup væri að koma á svæðið og þá kom þetta orðatiltæki ‘að versla heima’. Það varð aukning í sölu hjá Samkaupum. Fólk var meðvitað um að halda úti versluninni og það endaði með því að Hagkaup lokaði versluninni. Samstaða fólksins og stoltið skipti þarna sköpum. Í dag er eins og að það sé voða viðkvæmt að fara inn á þetta og það eigi bara að þakka fyrir að verslanir annars staðar frá séu að opna hér. Ég spyr oft sjálfan mig hvernig hægt sé að vekja fólk til umhugsunar um það að við verðum að vera sjálfbær sem bæjarfélag. Ég er mjög hreykinn af því að búa hérna og hér er svo margt í lagi sem gengur vel,“ segir Sigurður.
VF/Olga Björt