Verða norðurljós í kvöld?
-Sigrún Ýr Hjörleifsdóttir starfar í samfélagsmiðladeild Icelandair
„Við fáum alls kyns fyrirspurnir til okkar í gegnum samfélagsmiðla, allt frá því að breyta bókunum yfir í hvenær norðurljósin sjást á Íslandi. Farþegarnir okkar eru líka virkir í að skrifa skemmtilegar athugasemdir við það markaðsefni sem Icelandair birtir,“ segir Sigrún Ýr Hjörleifsdóttir, en hún starfar í samfélagsmiðladeild Icelandair, sem var stofnuð fyrr á þessu ári.
Markaðs- og auglýsingaaðferðir hafa tekið miklum breytingum á undanförnum árum og hafa mörg fyrirtæki stofnað sérstakar samfélagsmiðladeildir. Þar starfar fólk við það að birta efni og upplýsingar og svara fyrirspurnum fyrir hönd fyrirtækis síns á samfélagsmiðlum eins og Facebook, Twitter og Snapchat. Fyrsta samfélagsmiðladeildin hjá íslensku fyrirtæki var stofnuð árið 2011 og hefur þeim farið ört fjölgandi, enda kröfur viðskiptavinanna að breytast og einnig vettvangur markaðssetningar, þá sérstaklega sem beint er að ungu fólki.
Sigrún Ýr er menntaður almannatengill, en hún lauk BSc prófi í „Mass Communications,“ sem þýða mætti sem boðskipta- og fjölmiðlafræði, og útskrifaðist hún af almannatengslabraut frá Florida International University í Miami. „Sem menntaður almannatengill nýtist námið mér vel að því leyti að ég lærði vel inn á alla samfélagsmiðla, hvaða áhrif þeir geta haft. Ég svara fyrir hönd fyrirtækisins um leið og ég passa upp á ímynd þess. Ég starfaði einnig sem umsjónarmaður í farþegaafgreiðslu Icelandair hjá IGS og fyrri reynsla á flugvellinum kemur sér mjög vel í þessu starfi,“ segir Sigrún Ýr.
Flestir beintengdir í snjallsímanum
Aðspurð um helstu verkefni starfsmanna samfélagsmiðladeildarinnar segir hún þau vera að fylgjast með öllum samfélagsmiðlum Icelandair, sem eru Facebook, Twitter, Instagram, YouTube og LinkedIn og svara fyrirspurnum sem berast þeim frá öllum heimshornum. „Einnig fylgjum við eftir því markaðsefni sem Icelandair sendir frá sér á samfélagsmiðlum samhliða því að vaka yfir ímynd vörumerkisins. Við erum átta manns í deildinni, en hún tilheyrir Service Center Icelandair sem er undir Sölu- og markaðsviði og vinnum við í nánu samstarfi við flest öll svið fyrirtækisins.“
Farþegar Icelandair leita mjög mikið til fyrirtækisins í gegnum samfélagsmiðla og fer sá hópur ört stækkandi að sögn Sigrúnar. „Flestir eru beintengdir við þessa miðla á snjallsímum sínum og því auðvelt að hafa samband við okkur í gegnum þá. Icelandair er til staðar þar allan sólarhringinn að þjónusta viðskiptavini sína.“ Spurð út í kröfur viðskiptavina um svartíma segir Sigrún Ýr að öllu jöfnu sé svartími Icelandair innan þrjátíu mínútna. „Einstök flóknari tilfelli taka lengri tíma, þegar leita þarf til annarra deilda fyrirtækisins. En með góðu samstarfi milli deilda náum við að þjónusta farþegann eins og best verður á kosið.“