Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Fimmtudagur 28. desember 2000 kl. 11:36

Verða að vinna um áramótin

Yfirstandandi hátíðir eru í hugum flestra tími fjölskyldunnar. Sá tími árs þegar fólk kemur saman, borðar góðan mat og nýtur ljóss og friðar. Svo er þó ekki um alla. Sumir þurfa að vinna þegar aðrir fá kærkomið frí. Læknar, slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn og lögregla eru dæmi um starfsstéttir sem aldrei fá frí. Hjá þeim er vakt allan sólarhringinn, allan ársins hring.

Er hættur að djamma
Gylfi Ármannsson hefur verið í slökkviliðinu í Keflavík síðan 1969. Hann segist ekki kvíða því að vinna um áramótin. Hann var líka á vaktinni á sama tíma í fyrra en sl. átta ár þar á undan, hefur hann farið með fjölskyldunni til Kanarí.
„Mér finnst ekki skipta neinu máli hvort ég sé að vinna um áramót, eða aðra daga, þetta er bara vinnan mín. Yfirleitt hafa þessi kvöld verið róleg. Í fyrra var eitt brunaútköll og það hafa komið gamlárskvöld þar sem ekkert hefur verið að gera.“
Magnús á sjálfur uppkomin börn og segir það því ekki trufla sig lengur að vera fjarri fjölskyldunni á þessum tíma en yngri strákarnir í liðinu vilja síður missa af djamminu. „Ég er hættur og djamma og tek því bara rólega þegar ég á frí hvort sem er“, segir Magnús yfirvegaður.


Vill vera í faðmi fjölskyldunnar
„Helst af öllu vildi ég eiga frí þessa nótt og vera með fjölskyldu og vinum“, segir Guðmundur Sæmundsson lögreglumaður í Keflavík. Hann hefur starfað sem lögreglumaður síðan 1983 og af og til þurft að vinna um jól og áramót. „Mér finnst gamlárskvöld hafa verið frekar rólegt hin síðari ár og ölvun minni en áður fyrr. Ég kann reyndar engar skýringar á því. Það eru auðvitað alls konar útköll sem koma upp, þá helst sem tengjast ölvun og árekstrum á milli manna“, segir Guðmundur.
Viltu segja eitthvað að lokum? „Ég óska öllum gleðilegs árs og ánægjulegra áramóta og vona að fólk fari varlega um áramótin og verði gott hvort við annað.“


Erilsamasta nótt ársins
Nýársnótt er að sögn Konráðs Lúðvíkssonar læknis, erilsamasta og erfiðasta nótt ársins á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þá er áberandi að fólk komi vegna brunasára og áverka eftir pústra.
„Því miður getur maður kviðið því að menn eigi óuppgerð mál sem þeir telja sig þurfa að gera upp þessa nótt. Það eru einstaka brunaslys fyrir „Skaup“ en eftir og þegar dansleikjum lýkur hefst lífið fyrir alvöru og menn halda gjarnan áfram frameftir. Ég býst því við að vera hér á stofnuninni þessa nótt til kl. 6 um morguninn a.m.k., en það þarf víst að standa þessa vakt eins og aðrar vaktir“, segir Konráð og bætir við að hann hafi tekið eftir að veðrið hafi einnig áhrif á hegðun fólks. „Ef veður er gott er oft eins og fólki líði betur og þurfi minna að láta til sín taka með handalögmálum og ég vona að svo verði nú.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024