Verslunarmannahelgin:Lífið er yndislegt!

Ragnheiður Theodórsdóttir fyrirsæta ætlar að vera í Eyjum um helgina en þaðan á hún yndislegar minningar þegar hún steig á svið með Hreimi og félögum árið 2009. Ragnheiður er nýflutt heim frá Danmörku þar sem hún var í námi í Óðinsvéum og hyggur hún á Háskóla Reykjavíkur(HR) í haust, svo er planið að byrja aftur í körfunni en þar hefur hún verið í góðu fríi.

Hvað á að gera um verslunarmannahelgina og hvert á að fara?

Ég ætla að skella mér á Þjóðhátíð í Eyjum, ég er virkilega spennt fyrir því!

Er einhver verslunarmannahelgi sem er eftirminnilegri en aðrar hjá þér?


Það eru tvær verslunarmannahelgar sem standa upp úr; árið 2002 og 2009.

Verslunarmannahelgin 2002 var mjög skemmtileg en þá fórum við körfuboltastelpurnar í Keflavík á Unglingalandsmót UMFÍ í Stykkishólmi, þar sem við unnum gullverðlaun, að sjálfsögðu! Einhver plataði mig og Hrönn vinkonu til að keppa líka í spretthlaupi, þar sem ég flaug fram fyrir mig beint á andlitið fyrir framan fjölda manns, flottust! Það verður gaman að skapa nýjar minningar með þessum frábæra hópi í Eyjum þetta árið.

En verslunarmannahelgin 2009 er sú eftirminnilegasta. Þá fór ég í fyrsta skiptið á Þjóðhátíð sem er upplifun út af fyrir sig og ég endaði meðal annars uppi á stóra sviðinu með vinkonu minni að syngja „Lífið er yndislegt“ með Hreimi og félögum.


Hvað finnst þér einkenna góða verslunarmannahelgi?
Það sem mestu skiptir er að vera í góðra vina hópi og vera tilbúin að lenda í ævintýrum. Það er alltaf skemmtilegra að hafa gott veður en mér finnst rigningin góð. Þetta snýst allt um hugarfar!

Mér finnst góð íslensk tónlist ómissandi þessa helgi og nauðsynlegt að komast í útilegu eða ferðalag, ég er ekki mikill innipúki. Get ekki beint sagt að mér finnist ómissandi að fara á Þjóðhátíð þar sem ég hef bara farið einu sinni áður, en mikið er ég spennt. Lífið er yndislegt!
-----------