Velja Fjölsmiðjuna fram yfir tölvuleiki
Fjölsmiðjan hefur meiri þýðingu fyrir samfélagið en nokkru sinni fyrr.
„Fjölsmiðjan hefur meiri þýðingu fyrir samfélagið en nokkurn tímann áður. Einn skjólstæðinga okkar sagði að ef hann væri ekki hér þá væri hann heima í tölvuleik. Við krefjum krakkana um virkni, hringjum í þau ef þau eru ekki mætt og sækjum þau jafnvel,“ segir Þorvarður Guðmundsson, forstöðumaður Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum.
Mikið vöruúrval er á Nytjamarkaðnum.
Skjólstæðingum fjölgar
18-19 krakkar nýta sér úrræði Fjölsmiðjunnar og stefnt er á að þeim fjölgi í 30. Þeir koma í gegnum félagsþjónustur sveitarfélaganna á Suðurnesjum og frá Vinnumálastofnun. „Við aðstoðum þá í virkri atvinnuleit. Þetta er mjög einstaklingssniðið hjá okkur úr frá því hvar hver er staddur. Stundum er gerður vinnustaðasamningur. Þá eru þau kannski þrjá daga á vinnustað og tvo hjá okkur. Þá sleppum við þeim ekki alveg frá okkur og þau eru þá tilbúnari og geta tekið upp þráðinn aftur. Sum koma aftur því að fyrirkomulagið hentaði ekki. Allir ná í reynslu og sumir jafnvel meðmæli. Þetta verður markvissara núna með aðkomu atvinnuráðgjafans,“ segir Þorvaldur.
Efla styrk og sjálfsöryggi
Atvinnuráðgjafi hjá Fjölsmiðjunni er Helga María Finnbjörnsdóttir. „Ég fylgi krökkunum eftir því markmiðið er að krakkarnir fari héðan og komist í starf eða nám annars staðar. Ég skoða með þeim hvað vantar upp á til þess að þeir geti farið á almennan vinnumarkað eða í nám. Í því felst markmiðasetning, fræðsla á okkar vegum og annarra, t.d. innhverf íhugun, hamingjufyrirlestur og skyndihjálp. Einnig fræðum við þá um réttindi og skyldur á vinnumarkaði og upplýsingatækni. Við eflum þau svo að þau finni styrk hjá sér og sjálfsöryggi til að fara eitthvað annað,“ segir Helga María og bætir við að ungmennin fái ákveðinn tíma með sér þar sem þau setjist niður og ræði málin, hvort sem það er eitthvað sem þau glíma við í persónulegu lífi sínu eða hjá Fjölsmiðjunni. „Þau ráða því hvernig þau nýta tímann hjá mér. Þau geta t.d. sett sér markmið eins og að fara í ræktina, hætta að reykja eða annað.“ Helga María er viðskiptafræðingur með kennsluréttindi og kláraði meistaranám í stjórnun og eflingu mannauðs. „Starfið er í senn krefjandi og gefandi. Mér finnst rosalega gaman að sjá einstaklingana þroskast og eflast og þegar þau finna að þeim líður vel hér og vilja koma hingað.“
Bækur og vínylplötur í kassavís.
Brettasmíði nýjasta verkefnið
Rekstur Fjölsmiðjunnar snýst mikið um starfsemi Nytjamarkaðarins við Smiðjuvelli í Reykjanesbæ. Markaðurinn hefur að sögn Þorvarðar gengið mjög vel í sumar og opnunartíminn verið lengdur á fimmtudögum til klukkan sex. „Við lokuðum bílaþvottadeildinni í sumar en vorum í staðinn með útimarkað þar sem fjöldi fólks kom og keypti húsgögn. Við sækjum einnig vörur til fólks og í Kölku og slíkt.“ Einnig er fyrirhugað að leigja stærri hluta af húsinu og fara í brettasmíði. „Við munum tilsníða nýjar pallettur úr efni úr gömlum brettum. Þær eru fyrir fyrirtæki í fiskútflutningi. Til þess þurfum við að stækka húsnæðið því Fjölsmiðjan er að stækka og við erum aðþrengd með pláss þótt við séum í 600 fermetrum.“
Hver stenst þessi hvolpsaugu? Mikið úrval er til af leikföngum.
Vildarvinir velkomnir
Fjölsmiðjan byggist á fjárframlögum frá sveitarfélögunum, Vinnumálastofnun og ríkinu. „Það nægir ekki og því reynum við að sjálfsafla fé og okkur vantar verkefni sem krakkarnir geta unnið. Einnig vantar okkur vildarvini Fjölsmiðjunnar - einstaklinga sem vilja láta gott af sér leiða. Margir þeirra vilja gefa vörur í Nytjamarkaðinn, aðrir koma að versla. Sumir velja að taka ekki við afgangi þegar þeir kaupa og vilja heldur láta hann renna til krakkanna. Ef einhverjir gerast vildarvinir þá getur það runnið til þessarar fræðslu og afþreyingar fyrir krakkana.“ segir Þorvarður.
Þar kennir ýmissa grasa.
Dúkkuhúsið var farið um leið
Lykilorð Fjölsmiðjunnar eru virðing og umburðarlyndi og unnið er úr frá þeim. „Einnig er rými fyrir alla og við erum öll ólík. Hér er og hefur verið gott starf unnið. Mér finnst ég gera samfélaginu gott með því að veita þessu forstöðu, læt mig málin varða og er hluti af einhverju góðu. Það er svo hvetjandi. Það eru nefnilega einnig margir á bak við okkur sem vilja okkur vel. Það er rými fyrir okkur öll,“ segir Þorvarður og minnir á Facebook síðuna Fjölsmiðjan á Suðurnesjum. „Þar seljum við grimmt. Allt sem glepur augað vekur athygli. Það kom dúkkuhús um daginn og það var farið um leið. Kona ein kom úr Reykjavík því hún sagði að það væri ódýrara að aka suðureftir og kaupa vöruna hjá okkur en í Góða hirðinum,“ segir hann brosandi að lokum.
VF/Olga Björt