Vel heppnuð skákhátíð í Vogum
Frábær skákhátíð var haldin í Stóru-Vogaskóla í Vogum á Vatnsleysuströnd í tilefni af Skákdegi Íslands. Viðstaddir voru 200 nemendur skólans, starfsfólk og foreldrar, og eldri borgarar í bænum voru sérstakir heiðursgestir. Tugir spreyttu sig í fjöltefli við Róbert Lagerman skákmeistara.
Svava Bogadóttir skólastjóri setti hátíðina, sem fram fór í glæsilegum samkomusal skólans þar sem er hátt til lofts og vítt til veggja. Svava sagði meðal annars í ræðu sinni að skákiðkun væri mjög æskileg, enda bætti skákkunnátta námsárangur, auk þess að vera skemmtileg og holl tómstundaiðja sem allir geta stundað. Þá sagði Svava að Skákdagurinn væri haldinn til að heiðra Friðrik Ólafsson stórmeistara, sem væri mesti skáksnillingur sem Ísland hefði alið.
Mikill skákáhugi með yngstu kynslóðarinnar
Róbert tefldi fjöltefli á hátíðinni og voru mótherjar hans af öllum kynslóðum. Alls tefldi meistarinn við hátt í 70 mótherja. Hann tapaði ekki skák, en gerði jafntefli við Guðmund Jónas Haraldsson og Sveinbjörn Egilsson.
Samhliða fjölteflinu sá Hrafn Jökulsson um byrjendafræðslu, auk þess sem fjölmörg af yngstu börnunum lituðu skákmyndir af mikilli innlifun. Þá var opnað skákkaffihús í tilefni dagsins, þar sem nemendur skólans buðu upp á kakó og vöfflur. Þá steig Birgitta Iðunn Ívarsdóttir, nemandi í 8. bekk, á svið og söng fullfallega fyrir gesti hátíðarinnar.
Skólabókasafnið, sem jafnframt er opið öllum bæjarbúum, fékk skákbókagjöf í tilefni dagsins. Una Svane bókavörður veitti gjöfinni viðtöku, og á næstunni verða skákbækur áberandi á bókasafninu.
Skákklúbbur stofnaður
Hápunktur hátíðarinnar í Vogum var stofnun skákklúbbs, sem mun annast uppbyggingu skáklífsins í þessum 1200 manna blómlega og vinalega bæ. Í stjórn klúbbsins eru Guðmundur Jónas Haraldsson, Stefán Arinbjarnarson, Örn Pálsson og Sveinbjörn Egilsson. Þá verður tveimur ungmennum boðið að taka sæti í stjórninni, svo rödd unga fólksins heyrist. Æfingar hins nýja skákklúbbs verða á fimmtudögum milli 17 og 19 í samkomusalnum í Álfagerði.
Guðmundur Jónas, sem er mikill skákáhugamaður og átti hugmyndina að hátíðinni, var alsæll með hvernig til tókst: ,,Takk fyrir yndislega samverustund á skákdegi í Vogum. Ég skemmti mér alveg konunglega. Það var falleg og góð stemning sem sveif yfir vötnum. Alltaf svo gaman að sjá fólk af öllum stærðum og gerðum blanda geði og skemmta sér saman. Skáklistin hefur þennan dásamlega eiginleika að allir geta verið með.“
Una Svane bókavörður veitti bókagjöfinni viðtöku.