Vel heppnaður starfsdagur í Vogum
Í vikunni var haldinn sameiginlegur starfsdagur allra starfsmanna sveitarfélagsins Voga. Fyrir hádegi hittist starfsfólk viðkomandi stofnana og vann að verkefnum er sneru að viðkomandi starfsemi, en eftir hádegi komu allir starfsmenn allra deilda saman í Tjarnarsal. Eftir sameiginlegan hádegisverð var hafist handa með því að kynna annars vegar starfsmannahandbók sveitarfélagsins og hins vegar forvarnarstefnuna.
Því næst var þátttakendum skipt upp í vinnuhópa og hafist handa við að greina styrkleika og tækifæri sveitarfélagsins. Dagskráin var brotin upp um miðjan dag með því að fara í stutta gönguferð um nágrennið og nýleg sögu- og upplýsingaskilti sveitarfélagsins skoðuð. Höfundur texta skiltanna og frumkvöðull að framkvæmdinni, Hilmar Egill Sveinbjörnsson, kennari við Stóru-Vogaskóla, leiddi gönguna og sagði frá skiltunum.
Að lokinni gönguferð og kaffihlé störfuðu vinnuhópar að nýju, að þessu sinni var fjallað um ímyndarmál og þeirri spurningu varpað fram hvernig Vogabúar vilji að ímyndin eigi að vera og hvað megi gera til að bæta hana. Niðurstöður vinnuhópanna fara nú til úrvinnslu og nýtast í stefnumótunarvinnu, sem sífellt er í mótun og vinnslu. Það var Helga Jóhanna Oddsdóttir, mannauðsráðgjafi sveitarfélagsins, sem stjórnaði og hélt utan um dagskrá starfsdagsins.