Vel heppnaðir nýárstónleikar Tónlistarfélags Reykjanesbæjar
Alls mættu 180 gestir á nýárstónleika Tónlistarfélags Reykjanesbæjar sem haldnir voru sl. föstudagskvöld í Listasafni Reykjanesbæjar.
Fram komu Tríó Reykjavíkur ásamt stórsöngvurunum Diddú og Bergþóri Pálssyni sem brugðu á leik við mikla kátínu gesta. Má þar nefna hinn misskilda sellósnilling Álfheiði Jóndóttur eða Álu og eitthvað voru gleraugu fiðluleikarans skrítin í einu atriðinu. Boðið var upp á Vínartónlist, sígaunatónlist og tónlist úr þekktum söngleikjum. Sérstakur hátíðarbragur var yfir tónleikunum og var boðið upp á hvítvín og konfekt í hléi þar sem gestir gátu um leið virt fyrir sér bátasýningu Gríms Karlssonar í hliðarsal Listasafnsins.
Tónlistarfélagið hyggst halda fleiri metnaðarfulla tónleika á árinu og eru tvennir fyrirhugaðir fram að vori.
Myndin: Frá tónleikunum á föstudagskvöld.