Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Vel heppnað og litskrúðugt starfshlaup FS
Laugardagur 23. mars 2013 kl. 11:15

Vel heppnað og litskrúðugt starfshlaup FS

Föstudaginn 22. mars fór Starfshlaup FS fram í 19. sinn en þessi keppni fór fyrst fram árið 1994. Fyrir þá sem ekki þekkja starfshlaupið þá reyna nemendur með sér í n.k. boðhlaupi þar sem keppt er í flestum þeim námsgreinum sem kenndar eru við skólann auk ýmis konar þrauta.

Að þessu sinni kepptu fimm lið í hlaupinu en í hverju liði eru nokkrir tugir keppenda. Fyrir hverju liði fara tveir fyrirliðar sem koma úr hópi væntanlegra útskriftarnemenda. Keppnin var geysispennandi í ár og úrslitin réðust ekki fyrri en í síðustu þrautunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þó Starfshlaupið fari alltaf fram síðasta kennsludag fyrir páska er það farið að hafa nokkurn aðdraganda. Í ár var nokkrum sinnum keppt á sal í hádeginu síðustu vikurnar fyrir keppnina sjálfa. Þar var m.a. keppt í þrautakeppni, bekkpressu og Sing Star. Liðin taka stigin síðan með sér í sjálft Starfshlaupið. Alltaf verða einhverjar breytingar á þrautum milli ára og að þessu sinni var FIFA 13 tölvuleiknum bætt við og vakti mikinn fögnuð.

Keppnin sjálf byrjaði í Íþróttahúsinu þar sem keppt var í reiptogi, badminton, stultuhlaupi og fleiri greinum. Síðan var synt, hjólað og hlaupið en að því loknu þeystu keppendur inn í skólann þar sem liðin hlupu milli kennslustofa og leystu verkefni auk þess að leysa ýmsar þrautir á göngum. Keppnin endaði síðan á sal þar sem liðin dönsuðu, léku o.fl.

Eins og áður sagði var keppnin mjög jöfn að þessu sinni. Að lokum fór svo að Appelsínugula liðið vann en Gula liðið kom þar rétt á eftir og hin liðin voru ekki langt á eftir. Það var því Appelsínugula liðið sem hlaut Starfshlaupsbikarinn og pítsuveislu í verðlaun. Sjá má úrslit í einstökum greinum neðst í fréttinni.

Umsjónarmenn Starfshlaupsins eru íþróttakennararnir Gunnar Magnús Jónsson og Kristjana Hildur Gunnarsdóttir (Kiddý) og eiga þau sannarlega hrós skilið fyrir skipulagningu og framkvæmd hlaupsins. Þá er ekki síður ástæða til að óska fyrirliðum allra liðanna til hamingju með frammistöðuna og þeirra vinnu. Síðast en ekki síst eru það auðvitað allir þátttakendur sem taka þátt í að gera þennan dag jafn skemmtilegan og hann er.


Meðfylgjandi myndir tók ljósmyndari FS á starfshlaupinu.

-

 

-

-

-

-

-

-

-