Veitingahús í miðju hrauni
Veitingastaðurinn Jenný við Bláa lónið hefur verið mjög vinsæll meðal ferðamanna allt frá því hann var stofnaður árið 1989. Staðurinn hefur verið í eigu Jennýar Jónsdóttur síðan vorið 1998, en sonur hennar, Birgir, er yfirmatreiðslumeistari staðarins, sem tekur um 120 manns í sæti að jafnaði. „Mikið af þeim gestum sem sækja staðinn koma beint úr Bláa lóninu, enda hefur það þótt notalegt að setjast hér niður og slaka á yfir kvöldverði eftir buslið í lóninu“, segir Birgir, matreiðslumeistari. „Sérstaða okkar er sú að við erum með mikið af heimaútbúnum réttum og alltaf erum við með nýbakað brauð“, bætir hann við. Matseðillinn er annars mjög fjölbreyttur og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem menn vilja einfaldan heimilismat eða höfðinglega veislurétti. Opnunartími eldhússins er frá 10-22 alla daga vikunnar, en fólki er að sjálfsögðu frjálst að sitja eins lengi og það vill. Hægt er að leigja lítinn sal inn af aðalsalnum fyrir smærri veislur og önnur tilefni. Einnig er mögulegt að leigja allan salinn fyrir stærri veislur, s.s. brúðkaup, afmæli, erfidrykkjur og einkasamkvæmi, svo eitthvað sé nefnt.