Mannlíf

Veit ekkert betra en að ferðast um heiminn með heimilið á bakinu
Sunnudagur 21. desember 2014 kl. 10:00

Veit ekkert betra en að ferðast um heiminn með heimilið á bakinu

Birgitta Linda Björnsdóttir, 22 ára gamla Njarðvikurmær hefur kafað með hákörlum,  knúsað kóalabjörn, kyngt kakkalakka og farið á fílsbak

Birgitta Linda Björnsdóttir hefur elskað að ferðast alveg frá því að hún man eftir sér. Hún hefur alltaf verið mikið náttúrubarn sem hrífst af stemningunni og ævintýrunum sem fylgir ferðalögum. „Frá því að ég vissi að heimurinn væri til hef ég ætlað að ferðast um hann,“ segir Birgitta sem ferðast heimshorna á milli. Hún hefur nú heimsótt 17 lönd og eru mörg þeirra ansi framandi. Hin 22 ára gamla Njarðvikurmær er hvergi nærri hætt að ferðast.

Hún starfar hjá KILROY ferðaskrifstofu við það að senda fólk út í heim í draumaferðalögin sín. KILROY sérhæfir sig í þjónustu og vörum sem sérsniðnar eru að ungu fólki og námsmönnum.
„Mitt starf snýst um að senda fólk út í draumaferðirnar sínar, en okkar sérhæfing er í lengri ferðalögum eins og heimsreisum fyrir bakpokaferðalanga og í námi erlendis, þá aðallega utan Evrópu. Svo erum við einnig með málaskóla og sjálfboðastörf.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hvað er svona gaman við þetta flakk?
„Upplifunin, ævintýrin og frelsið. Hvern einasta dag ertu að upplifa eitthvað nýtt, lenda í einhverju óvæntu eða gera eitthvað magnað. Svo ekki sé minnst á allt fólkið sem maður kynnist. Frelsið að vita ekki hvaða mánaðardagur, vikudagur eða hvað klukkan er! Vakna þegar sólin skín, borða þegar svengdin kallar og sofa þegar þreytan segir til sín, þannig var manninum ætlað að lifa,“ segir Brigitta.

Birgitta segir að Víetnam sé í miklu uppáhaldi hjá henni hvað varðar náttúru og sögu. Fiji er svo mesta paradís sem Birgitta hefur komið til. Hún segir Japan vera eins og aðra plánetu.
„Í Morocco leið mér eins og karakter í Aladdín. En uppáhaldsstaðirnir mínir í heiminum eru Monuriki í Fiji og Castaway Island í Halong Bay,“ en af mörgu er að velja.
„Ég hef sjálf heimsótt Fiji, Nýja Sjáland, Ástralíu, Kína, Japan,Tæland, Laos, Kambódíu, Víetnam, Morocco, Mexico, Bandaríkin, England, Spán, Þýskaland, Danmörku og Noreg,“ segir Brigitta sem planar að fara til United Arab Emirates, Nepal og Indlands í mars.

Kafað með hákörlum og skotið úr Bazooku

Það er óhætt að segja að Birgitta hafi upplifað ótrúlega hluti á ferðalögum sínum. Allt frá því að knúsa kóalabjörn yfir í að borða kakkalakka.
„Ég hef kafað með hákörlum, skotið úr Bazooku, snorklað með Whalesharks, eytt áramótunum í Fiji, borðað kakkalakka, tjaldað á ströndinni, legið í hengirúmi, farið á fílsbak, séð Cassowary fugl, hoppað út úr flugvél, farið í heimboð til Fijibúa, búið í campervan í mánuð, fagnað songkran í Tælandi, borðað kengúru og vatnabuffaló, knúsað Kóala og kafað í the Great Barrier Reef,“ segir Birgitta en það er sannarlega hægt að segja að ferðalög séu ástríða hjá henni. Hún segist ekki vita neitt betra en að ferðast um heiminn með heimilið sitt á bakinu. „Að vera frjáls úti í heimi. Algjörlega óháð staðsetningu, tíma og fólki. Að kynnast heimamönnum og öðrum ferðalöngum, upplifa nýja menningu, prófa nýja hluti og smakka nýjan mat fær mig til að vilja ferðast að eilífu. Ég er ekki fyrr komin í flugvélina heim þegar ég er byrjuð að plana næsta ævintýri,“ segir ferðalangurinn Birgitta.

„Frelsið að vita ekki hvaða mánaðardagur, vikudagur eða hvað klukkan er! Vakna þegar sólin skín, borða þegar svengdin kallar og sofa þegar þreytan segir til sín, þannig var manninum ætlað að lifa“

Í skútuferð okkar um Whitesundays stoppuðum við m.a. á Whitehaven beach sem er fallegasta strönd Ástralíu og þekkt fyrir púðursand sinn sem hitnar ekki í sólinni.

Birgitta hitti sjálfan Lou Carpenter úr Nágrönnum.

Það er sagt að í Ástralíu sé allt að reyna að drepa þig, en mér fannst þessi rosalega vinaleg. Hún á heima á Magnetic Island í norðaustur Ástralíu.

Að kafa er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert. Það er eitthvað svo æðislegt að vera neðansjávar í hátt í klukkutíma með öllum lífverunum þar. Hérna erum við í Andaman sjónum við Koh Haa sem er einn af uppáhalds körfunarstöðum mínum

Páskadagur var eftirminnilegur þetta árið. Í Kambódíu skaut ég úr byssu í fyrsta sinn, Bazooku. Adrenalínið lét ekki á sér standa og AK47 og M16 urðu hálf saklausar í samanburði.

Einn besti dagur lífs míns. Fengum að hugsa um fíl í einn dag, gáfum þeim að borða, fórum með þeim í gönguferð og böðuðum þá. Fílarnir urðu hreinir en ekki við.