Veiga búin að vinna í Apóteki Keflavíkur í 40 ár
Sólveig Sigfúsdóttir starfsmaður í Apóteki-Keflavíkur átti 40 ára starfsafmæli í gær, 1. ágúst, en hún hefur unnið þar nánast stanslaust frá tvítugsaldri. Færðu vinnuveitendur hennar, þeir Ásgeir Ásgeirsson og Sigurður Gestsson, henni blóm og hálsmen að því tilefni ásamt mikilli tertu sem starfsmenn apóteksins gæddu sér svo á.Sólveig byrjaði að vinna í Apóteki-Keflavíkur 1. ágúst 1959, þá tæplega tvítug að aldri. Árið 1974 hætti hún í apótekinu og hóf að vinna í fiski en stoppaði ekki lengi við þar því árið 1976 kom hún aftur í apótekið þar sem hún hefur nú unnið síðan. Þrír mismunandi eigendur hafa verið hjá apótekinu á þeim tíma sem Sólveig hefur unnið þar. Johann Ellerup stofnaði Apótek-Keflavíkur í febrúar 1951 en hann kom hingað til Keflavíkur frá Seyðisfirði. Árið 1978 tók svo Benedikt Sigurðsson við því en núverandi eigendur þess, þeir Ásgeir Ásgeirsson, Sigurður Gestsson og konur þeirra, tóku svo við því 1997.
Óhætt er að segja að slíkur starfsaldur hjá einu og sama fyrirtækinu sé ótrúlegur og segir það meira en mörg orð um góðan vinnustað þar sem góður andi ríkir meðal starfsfólks. Þess má að lokum geta að tveir samstarfsmenn Sólveigar, þær Unnur Þorsteinsdóttir og Þórdís Herbertsdóttir, fylgja fast á hæla Sólveigar og ekki er þess langt að bíða að þær haldi upp á 40 ára starfsafmæli sitt.
Óhætt er að segja að slíkur starfsaldur hjá einu og sama fyrirtækinu sé ótrúlegur og segir það meira en mörg orð um góðan vinnustað þar sem góður andi ríkir meðal starfsfólks. Þess má að lokum geta að tveir samstarfsmenn Sólveigar, þær Unnur Þorsteinsdóttir og Þórdís Herbertsdóttir, fylgja fast á hæla Sólveigar og ekki er þess langt að bíða að þær haldi upp á 40 ára starfsafmæli sitt.