Veiddi fisk með tyggjói
Hinni tíu ára Elísabetu Jóhannesdóttur tókst á dögunum að veiða urriða í Svarfaðardalsá en mörgum gæti þótt beitan sem hún notaðist við dálítið undarleg. Elísabet og frændi hennar ákváðu að prófa að nota tyggjó á öngulinn.
Hanna Björg Konráðsdóttir, móðir Elísabetar, sagði í samtali við Víkurfréttir að stórfjölskyldan hefði verið samankomin í orlofshúsi foreldra sinna í Svafaðardal. Þar fannst afa Elísabetar nauðsynlegt að ná sér í veiðileyfi og fara með krakkana að veiða.
„Eins og gengur með börn, þá dettur þeim eitthvað í hug og pabbi hefur greinilega ekki náð að fylgjast með þeim öllum í einu. Elísabet og Alexander frændi hennar ákveða að henda tyggjói á öngulinn. Í þriðja kasti er hann síðan kominn á, þessi fíni urriði,“ segir Hanna, en Elísabet var sú eina af þeim öllum sem tókst að veiða fisk.