Vegleg opnunarhátið OM setursins
- Mikil „kvenorka“ leyst úr læðingi, sagði ráðherra.
Mikið var um dýrðir í Kjarna, Flughóteli í Reykjanesbæ sl. laugardag en þá var hin nýja snyrti- og heilsumiðstöð OM setrið opnað við hátíðlega athöfn. Fjöldi fólks var viðstaddur opnunina, þar á meðal nokkrir þingmenn kjördæmisins og bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ.
Lyftistöng fyrir svæðið
Björk Þorsteinsdóttir hafði með höndum veislustjórn en meðal þeirra sem kvöddu sér hljóðs voru Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra og Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Lýstu þau bæði mikilli ánægju sinni með þetta framtak. Árni rómaði það sem mikla lyftistöng fyrir svæðið sem gerði það enn betri valkost fyrir búsetu og yki aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Ragnheiður sagðist sem ráðherra orkumála vera himinlifandi með að sjá þessa miklu „kvenorku“ leysta úr læðingi og óskaði þess að íbúar svæðisins myndu nýta sér vel þessa þjónustu heimabyggðar sinnar.
OM stendur fyrir margt gott
Ágústa Gizurardóttir, einn rekstraraðila OM setursins, fræddi viðstadda um merkingu nafnins: „OM er lífsorka alheimsins og talið vera fyrsta hljóð veraldar. Sumir segja að OM komi af rótinni og merki „það sem verndar“, aðrir segja að það tákni guðlega þrenningu. Þá er einnig talið að hljóð þess tákni heimana þrjá: jörð loft og himin.“
Á fjórða hundrað gestir
Gestum og gangandi bauðst að njóta góðra veitinga og kynna sér þessa fjölbreyttu starfsemi, auk þess að nýta sér ýmis góð tilboð sem í gangi voru í tilefni dagsins. Telja aðstandendur OM setursins að á fjórða hundrað manns hafi heimsótt setrið á þessum fallega degi. Þær stöllur sögðu það yndislega tilfinningu að sjá drauminn loks orðinn að veruleika. „Við finnum fyrir miklum áhuga bæjarbúa á setrinu og erum fullar bjartsýni um að Om setrið komi til að vaxa og dafna í framtíðinni.“
Stór hluti þeirra kvenna sem bjóða þjónustu sína í OM setrinu.
Fjölmargir gestir, ræðuhöld og glæsilegar veitingar.