Vegglist í Keflavík
Vegfarendur hafa líklega veitt athygli stóru vegglistaverki sem nú prýðir húsgafl á mótum Hringbrautar og Vesturbrautar í Keflavík. Víkurfréttum lá forvitni á að vita hver væri tilurð þess og blaðamaður settist niður með húsráðanda og listamanni verksins.
Hugmyndin kviknaði þegar Jósep Feyen, sem býr í endahúsi Greniteigs, sá færslu á Facebook frá listamanninum JuanPictures þar sem hann óskaði eftir veggjum til að skreyta. Jósep setti sig í samband við listamanninn og úr varð þetta skemmtilega verkefni.
„Ég sagðist hafa vegg en spurði hvort hann vissi um einhvern í Keflavík sem tæki svona verk að sér. „Hvað með mig?“ var svarið sem ég fékk til baka,“ segir Jósep og brosir. „Ég hafði ekki búist við að hann myndi nenna að gera sér ferð úr Reykjavík til að taka að sér svona verk en sagði honum endilega að koma með hugmyndir, hann hefði frjálsar hendur til að gera hvað sem er.“
– Hver er hugmyndin á bak við myndina?
„Mér fannst góð hugmynd að tengja verkið við íslenska menningu og þjóðsögur. Sagan um íslenska jólaköttinn heillaði mig og því gerði ég þessa mynd af honum að elta barn sem hefur ekki fengið ný föt fyrir jólin. Mér fannst skemmtilegt að nýta þennan stóra vegg til að segja frá þessari séríslensku þjóðsögu,“ svarar JuanPictures.
– Hefurðu orðið var við að þetta veki athygli?
„Já, fólk hefur verið duglegt að stoppa og taka myndir. Jafnvel verið að staldra við og spyrja út í verkið, hvað maður sé að gera og þess háttar. Svo hefur þetta fengið góðar viðtökur á samfélagsmiðlum, held að það hafi verið komin vel yfir þúsund „like“ og hundrað athugasemdir eins og „geggjað!“ og þess háttar á Facebook og Instagram. Fólk virðist yfir sig hrifið.“
Spænskur vegglistamaður á Íslandi
JuanPictures er myndlistamaður sem hóf feril sinn sem vegglistamaður [Graffity Artist] og fór svo í listaháskóla í Alicante á Spáni. „Ég byrjaði sem vegglistamaður en fór svo í listnám og hef nú þekkingu og kunnáttu á flestum sviðum myndlistarinnar. Götulistin er samt sem áður það sem heillar mig mest, ekki bara það að mála veggi heldur að skapa eitthvað sem hefur þýðingu, lífgar upp á umhverfið og allir geta notið.“
– Hvernig stendur á því að spænskur vegglistamaður endar á Íslandi?
„Ég er hérna til að mála veggi,“ segir JuanPictures og hlær. „Nei, í alvöru talað þá er erfitt að finna vinnu við hæfi á Spáni. Þú hefur jafnvel arkitekta og lækna sem vinna á Burger King, það er ekki sú framtíð sem ég vil fyrir mig – þess vegna er ég hér.“
Reykjanesbær hafður með í ráðum
„Ég leitaði til Reykjanesbæjar áður en við fórum í þetta,“ segir Jósep. „Fyrst og fremst til að leita eftir afstöðu bæjaryfirvalda í garð svona listaverks, hvort þau settu sig eitthvað upp á móti því eða hvort ég fengi leyfi fyrir að ráðast í það. Þessu erindi mínu var mjög vel tekið hjá bænum, þeim fannst hugmyndin frábær og úr varð að Reykjanesbær kom að verkinu með okkur ásamt fleirum. Nú er myndin komin á gaflinn og mér finnst hún koma vel út.“