Vegan fyrir dýrin og umhverfið

-María Rún Baldursdóttir er nýflutt heim aftur í gamla bæinn sinn Keflavík

Veganismi nýtur aukinna vinsælda um allan heim. Margir vita ekki hvað það gengur út á að vera vegan en fólk sem kýs að vera vegan vill ekki borða afurðir dýra í neinni mynd. Við eigum auðvitað nýtt íslenskt orð yfir þetta en það er að vera grænkeri.

Við fréttum af einni sem hætti að borða kjöt þegar hún var sextán ára en þá missti hún lystina á kjöti. Hægt og rólega með árunum þróaðist það svo út í veganisma. Hún hafði þá kynnst þessari hugmyndafræði í Reykjavík þar sem hún fór í framhaldsskóla. Þessi unga kona heitir María Rún Baldursdóttir en hún er nýflutt heim aftur í gamla bæinn sinn Keflavík. Við mæltum okkur mót til að fræðast af henni um hvað það þýðir að vera vegan eða grænkeri eins og það heitir á okkar ylhýra.

Fann sig ekki í heimabænum
„Ég fór í Menntaskólann í Hamrahlíð því mér fannst ég ekki finna mig hér í Keflavík á þeim tíma. Mig langaði að finna frelsi og vera ég sjálf. Mér fannst ég vera öðruvísi en flestir, ég var mikill rokkari og það leyndi sér ekki. Þetta var tímabil þar sem ég hlustaði langmest á þungarokk og fannst ótrúlega gaman að fara til Reykjavíkur á tónleika. Þar datt ég alveg inn í harðkjarnatónlistarsenuna. Það má segja að miðpunktur senunnar hafi verið í Tónlistarþróunarmiðstöðinni úti á Granda. Þar voru hljómsveitir að æfa sig og þarna var einnig tónleikaaðstaða. Allir voru svo opnir og vingjarnlegir þarna og ég eignaðist marga góða vini þar. Pönkið og dýraverndunarsinni helst svolítið í hendur. Ég tók þarna bæklinga sem fjölluðu um dýraiðnaðinn og hvernig farið var með dýrin. Þetta var árið 2006 og ég var sextán ára. Það hafði mikil áhrif á mig að sjá myndirnar í þessum bæklingum um illa meðferð á dýrum. Ég hef alltaf verið dýravinur og fannst það ekki passa að eiga hundinn minn og éta svo dýr í matinn. Ég man alltaf augnablikið þegar ég hætti að borða kjöt. Þá var ég að borða með fjölskyldunni og við vorum með steinagrill á borðinu og allir áttu að steikja sitt eigið kjöt. Mér fannst ég ekki ná að steikja mitt alveg í gegn og sá alltaf blóð í kjötinu. Ég tók tvo bita en missti svo lystina og gat ekki borðað meir. Þetta kvöld hætti ég að borða kjöt og hef ekki borðað það síðan,“ segir María Rún og ygglir sig við tilhugsunina um þessa síðustu kjötmáltíð sína.

Erfitt í byrjun
Á þessum tíma, þegar María ákvað að verða grænmetisæta, var lítil fræðsla um það í kringum hana. Hún var mikið að reyna að finna mat sem ekki innihélt kjöt eða fisk en það gekk frekar erfiðlega.
„Ég var bara sextán ára í Reykjavík og fannst mjög erfitt að finna mat sem passaði mér. Ég keypti kannski samloku og tók skinkuna úr en skildi eftir grænmetið og borðaði það. Eitthvað sem ég myndi alls ekki gera í dag. Á þessum tíma var ekki margt í boði í stað steikur eða borgara til dæmis en það var hægt að fá baunabuff og vefjur frá Móður náttúru og það var nánast það eina sem ég borðaði í mörg ár. Þær vörur var ekki hægt að fá í Keflavík á þessum tíma þannig að maður nýtti hverja Reykjavíkurferð til að kaupa þetta inn. Ég hafði verið með mjólkuróþol í mörg ár og byrjaði að drekka sojamjólk en mamma var dugleg að versla hana inn því hún var líka að drekka hana. Ég minnkaði neyslu á mjólkurvörum þarna en það gerðist hægt og rólega með árunum að ég hætti alveg að neyta þeirra. Ég var það ung og kunni þetta ekki alveg. Mataræðið varð mjög einsleitt fyrstu árin og þetta var frekar erfitt í byrjun. Ég vissi ekki hvar ég átti að fá öll þau bætiefni sem ég þurfti. Ég fékk mikið prótein úr baunabuffinu og mamma var dugleg að hjálpa mér. Enda var hún sjálf byrjuð að borða mikið grænmetisfæði áður en ég varð grænmetisæta og hafði verið með hnetusteik á jólunum áður en ég hætti að borða kjöt. Ég hafði alltaf verið mikill gikkur og var ekkert hrifin af grænmeti en eina sem ég gat borðað var kál og gúrka. Það var mikill skóli að læra hvað ég gat borðað. Svo fattaði ég það að ég yrði að borða meira grænmeti til að fá bætiefni og í dag borða ég allt grænmeti. Það er auðvitað rosalega mikið vítamín og steinefni í fersku grænmeti. Baunir innihalda mikið prótein, eins gera hnetur og fræ. Prótein kemur líka úr plönturíkinu. Þess vegna finnst mér það gamaldags spurning þegar ég er spurð hvar ég fái prótein. Sumir borða kjöt og fisk en ekkert grænmeti, það er ekki nógu gott,“ segir María Rún.

Spáirðu í hollustu?
„Það að vera vegan þýðir ekki endilega að maður sé hættur að borða sætindi og sé að einblína á hollt mataræði. Veganismi snýst fyrst og fremst um að sniðganga dýraafurðir. Ég spái þó auðvitað mikið í að borða vel og hollt. Ég vil samt alveg líka frá mér nammi stundum og það er alltaf spennandi þegar nýtt vegan-sælgæti kemur á markaðinn. Maður veit samt alveg hvað sykur er skaðlegur og ég les alltaf innihaldslýsingar á þeirri vöru sem ég kaupi ef ég þekki ekki vöruna fyrir. Stundum kemur það mér á óvart að einhver vara er vegan án þess að það sé merkt. Ég kaupi umhverfisvænar vörur því ég vil varðveita umhverfi mitt og ganga vel um náttúruna. Ég hef lært margt á þessum árum sem ég hef verið grænkeri. Það er ótrúlegt til dæmis hvað landbúnaðurinn er að menga, fullt af hlutum sem ég vissi ekki áður. Fólk heldur að matvælaiðnaður hér á landi sé skárri en erlendis en það er ekki. Hér á Íslandi er einnig ill meðferð á dýrum en um það var fjallað ítarlega í Málinu, þáttunum hans Sölva Tryggvasonar sjónvarpsmanns.“

Finnst þér gaman að elda mat?
„Já, mér finnst ótrúlega gaman í eldhúsinu. Í dag er til fullt af tilbúnum grænkeraréttum en mér finnst líka geggjað að elda sjálf. Ég er mikið fyrir sterkan mat, sérstaklega indverskan, tælenskan og mexíkóskan. Ég bý oft til kássur úr baunum og grænmeti. Mér finnst gott að búa til mikið í einu því við elskum að eiga afganga til að taka með í vinnuna. Kærasti minn er ekki grænkeri en honum finnst samt gott að borða vegan-mat og sérstaklega matinn sem ég elda. Þegar ég er búin að borða matinn sem ég bý til sjálf þá finnst mér ég vera vel nærð og full af orku. Mér líður vel af matnum sem ég borða. Ég held líka að ég sé meira skapandi í eldhúsinu þegar ég er vegan. Það er gaman að blanda saman einhverju og gera tilraunir í eldhúsinu. Grænmeti er með í mataræðinu, annað hvort ferskt eða ekki.“

Léttara að fara út að borða í dag
„Í byrjun var mjög erfitt að fara út að borða á veitingahúsi. Það var bara vesen. Ég man þegar ég fór með skólafélögum út að borða fínt á Argentínu. Þau fengu einhverja svaka steik en á diskinn minn var sett smá grænmeti og hrísgrjón, svona eins og kokkarnir ímynduðu sér að ég gæti borðað. Þetta var miklu ódýrara hráefni en þau fengu á diskinn sinn og samt var ég látin borga sama verð og þau. Það var frekar fáránlegt. Ég labbaði líka út svöng. Í dag er mun meira úrval vegan-rétta í Reykjavík og úrvalið er alltaf að batna í Keflavík. Hér eru komnir góðir veitingastaðir sem bjóða upp á úrval af grænkeraréttum. Orange í gömlu Aðalstöðinni er einn staðurinn og margir mjög ánægðir með matinn þar. Biryani sem er við hliðina á TM Hafnargötu er einnig með góðan vegan-matseðil. Þar geturðu fengið sýrlenskan mat, hummus, falafel og vefjur. Library er einnig með á einhverja rétti fyrir grænkera. Það er frábært að geta farið út að borða á fleiri stöðum þegar maður er grænkeri,“ segir María Rún glöð í bragði.

Gerum bæinn meira spennandi
Talið berst víða og meðal annars að því hvað bærinn hefur stækkað mikið en hann er á stærð við Akureyri í dag. Við vorum að bera saman þessa tvo bæi og menningarstigið á báðum stöðum. Hvort það væri hægt að efla menninguna hér til jafns við Akureyri og fleiri staði. María Rún hefur ákveðnar skoðanir í þessu sem öðru.

„Fólk þarf að átta sig á því að þetta er ekki lengur einhver smábær. Mér finnst vanta almennilega kaffihúsamenningu hér. Þegar ég bjó í Reykjavík þá var það bara normið að hitta vini sína á kaffihúsi. Við hittumst þar á kvöldin, fengum okkur kaffi eða bjórglas. Svona kaffihúsastemningu væri alveg hægt að skapa hér í Keflavík. Hún er auðvitað einhver en alls ekki mikil, fólk virðist halda sig mikið inni í þessu bæjarfélagi. Það er svo margt fólk sem býr hérna núna og svo er fullt af ferðamönnum. Við erum félagsverur og það er gaman að hitta aðra. Ég er að reka Paddy’s á Hafnargötu og er plötusnúður þar um helgar. Við erum stundum með tónleika og fáum líka trúbadora til okkar. Svo fáum við oft útlenska ferðamenn til okkar sem segjast fíla Keflavík mun betur en Reykjavík. Við þurfum að átta okkur á þessum tækifærum sem við erum með hérna. Ferðamennirnir vilja til dæmis sjá svona passlega lítinn bæ en spyrja stundum hvar allir Íslendingarnir séu. Það eru tómar götur og lítið líf í miðbænum. Þetta er alveg satt hjá þeim, það vantar meira líf í bæinn okkar. Þetta er orðið ótrúlega fínt bæjarfélag og svo margt gott að gerast en það þarf að efla menninguna. Af því að við erum orðin jafn stór eða stærri en Akureyri, berum þá saman þessa bæi og sjáum hvað við gætum gert meira af hér sem þeir gera þar. Mér finnst Hljómahöllin ótrúlega flott, safnið þar er frábært, tónlistarskólinn og tónleikasalirnir. Á Íslandi er mikið til af góðu tónlistarfólki. Við þurfum að gera eitthvað meira með þetta,“ segir María Rún og við förum á flug saman, blaðakonan og hún, um hvað væri hægt að skapa hér. Öll bítlamenningin sem tilheyrir nafninu Keflavík. Við rifjuðum upp Glóðina, þetta glæsilega veitingahús við Hafnargötu, sem einnig var hálfgert safn í kringum Hljóma. Þar gat fólk séð fullt af  tískufatnaði sem afi og amma Maríu Rúnar áttu en hún er barnabarn þeirra Rúnars Júlíussonar heitins og Maríu Baldursdóttur. Við veltum fyrir okkur hvað myndi gerast ef tóm húsnæði við Hafnargötu yrðu fyllt af fleiri spennandi fyrirtækjum. Hvort Keflavík gæti ekki skapað sér stærri ímynd í kringum bítlabæinn, látið bæinn iða meira af tónlist við Hafnargötu. Við töluðum um gamla ljósastaurinn sem er staðsettur á horninu þar sem margir unglingar hittust áður við Hafnargötu. Gera meira svona, búa til segul sem myndi lokka fólk frá öðrum byggðum hingað í heimsókn. Nútímafólk er alltaf að leita að afþreyingu í frítíma sínum. Einu sinni sótti fólk í Eden í Hveragerði til þess að fá sér ís og horfa á apana þar. Í dag má gera eitthvað allt annað til að fá fólk í bíltúr hingað suður með sjó. En aftur að veganisma.

Hvernig byrja ég sem vegan?
„Ef þú hefur ákveðið að þú vilt verða grænkeri en finnst þú þurfa smá aðstoð til að ýta þér áfram þá er ótrúlega margt á netinu sem gæti hjálpað þér. Það er ágætt að byrja á því að skoða heimildarmyndir um hvernig farið er með dýr í matvælaframleiðslu. Mynd eins og Earthlings með Joaquin Phoenix gefur góða fræðslu um það en hún er mjög grafísk og mjög erfitt fyrir suma að horfa á hana. Svo er mynd eins og Cowspiracy sem fjallar meira um hvað landbúnaðurinn er skaðlegur umhverfinu. Maður þarf að finna ástríðu fyrir því að verða vegan til að halda það út. Þú ert að gera jörðinni okkar greiða með því að gerast grænkeri. Þú getur einnig farið í hóp á Facebook sem heitir Vegan Ísland, þessi hópur er alltaf að verða stærri og stærri á Íslandi en þar eru meðlimirnir orðnir yfir tuttuguþúsund. Það eru margir þar sem geta gefið góð ráð en það er mjög gott að leita til reyndari grænkera. Svo er bara að byrja og prófa að borða vegan, sleppa öllum dýraafurðum og læra á staðgengla dýraafurða. Það þarf heldur ekkert að henda sér beint í djúpu laugina heldur gera þetta á sínum eigin hraða. Annars snýst þetta um að allir geri sitt besta,“ segir María Rún að lokum.