Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Veðurguðirnir tóku þátt í göngumessu í Grindavík
Mánudagur 30. október 2023 kl. 06:02

Veðurguðirnir tóku þátt í göngumessu í Grindavík

Sumarmessur á Suðurnesjum hafa mæltust vel fyrir í sumar og var góð mæting í allar messur. Síðla sumars var komið að Grindavík og má segja að veðurguðirnir hafi tekið fullan þátt í messunni, blankandi logn var og sólin skartaði sínu fegursta og úr varð hin besta kvöldstund.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það var sr. Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavík, sem leiddi stundina, organistinn Kristján Hrannar Pálsson tók harmonikkuna með og Kristín Matthíasdóttir sagði sögu húsa í gamla bænum í Grindavík en svo bættust fleiri sögumenn óvænt við.

Kristín sagði frá þessari fallegu kvöldstund. „Sr. Elínborg bað mig um að segja sögu nokkurra húsa sem eru í gamla bænum. Ég bý í gamla presthúsinu, hef kynnt mér sögu húsanna í kring og gömlu kirkjunnar okkar sem er þarna líka. Ég hafði mjög gaman af þessu og þegar við gengum að Bakka, tóku hjónin Erling Einarsson og Guðbjörg Ásgeirsdóttir í raun við söguhlutverkinu og fræddu okkur um sögu húsanna þar í kring. Gestir spurðu mikið og úr urðu mjög skemmtilegar umræður á milli fólks. Inn á milli spilaði svo Kristján Hrannar á nikkuna og við sungum og svo var endað í safnaðarheimilinu í kaffi og meðlæti. Þetta tók rúman klukkutíma og var ofboðslega skemmtilegt. Ég vona að meira verði gert af svona löguðu. Veðrið var auðvitað einstakt, það voru um 40 manns sem mættu og það voru allir mjög áhugasamir um sögu húsanna og höfðu gaman saman,“ sagði Kristín.