Veðurbreytingavélin lánuð á Ljósanótt
„Eftir reynslu skipuleggjenda Secret Solstice af tækinu á síðustu tveimur hátíðum, fannst okkur þetta engin spurning hér í Reykjanesbæ, að freista þess að fá tækið lánað fyrir Ljósanótt, sem haldin er á þeim árstíma þegar brugðið getur til beggja vona með veðrið,“ segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar, aðspurður um orðróm þess efnis að skipuleggjendur Ljósanætur ætli að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja gott veður eftir að hafa sl. tvö ár fengið fremur blauta hátíð.
„Jakob Frímann Magnússon, einn af skipuleggjendur Secret Solstice, hafði milligöngu fyrir okkur um þetta mál en gott samstarf hefur skapast á milli hans og vísindamannanna sem annast tækið og þeir hafa verið hér hjá okkur undanfarna daga við undirbúning og stillingar á tækinu,“ segir Kjartan. Að hans sögn er mikil ánægja í þeirra herbúðum með árangurinn fram að þessu en veðrið fyrsta dag hátíðarinnar í gær, reyndist mun betra en spár hefðu gert ráð fyrir og dagurinn sem hófst á súld hefði smám saman orðið bjartur og fallegur og gærkvöldið hreinlega verið frábært hvað veður og stemmningu snerti. Í dag brosi veðrið sínu blíðasta og menn því fullir bjartsýni fyrir morgundaginn sem sé aðal dagur Ljósanæturhátíðahaldanna.“
Samkvæmt heimildum sem Fréttablaðið aflaði sér á sínum tíma um tækið notast það við svokallaða skýjasáningartækni (cloud seeding) sem kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1946 í Bandaríkjunum en markmið tækninnar er að hafa áhrif á úrkomu.
„Við erum öllum veðrum vön hér í Reykjanesbæ og kippum okkur ekkert upp við það að þurfa að klæða okkur vel en það munar auðvitað mjög miklu að geta haft örlitla tryggingu fyrir góðu veðri. Það gerir gott einhvern veginn enn betra. Ég vil bara hvetja þá sem eru að hugsa um að mæta en hafa látið veðurspá undanfarinna daga hafa áhrif á sig, að láta allar spár sem vind um eyru þjóta og treysta bara tækninni,“ segir Kjartan Már að lokum.