Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Veðrið hafði  klárlega áhrif á ferðalög sumarsins
Laugardagur 29. ágúst 2020 kl. 09:40

Veðrið hafði klárlega áhrif á ferðalög sumarsins

Kristján Helgi Jóhannsson ætlaði bæði til Tenerife og Gautaborgar í sumar en báðum ferðunum var frestað vegna COVID-19. Í staðinn fyrir Tenerife var farið til Vestmannaeyja þar sem Stórhöfði var heimsóttur í logni. Kristján svaraði nokkrum spurningum í Netspjalli Víkurfrétta.

– Nafn:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kristján Helgi Jóhannsson.

– Árgangur:

1979.

– Fjölskylduhagir:

Giftur Írisi Sigurðardóttur og saman eigum við þrjú börn; Söru Lind, átján ára, Jóhann Elí, þrettán ára og Ágúst Inga, tíu ára.

– Búseta:

Búum í Baugholtinu.

– Hverra manna ertu og hvar upp alin?

Faðir minn er Jóhann Guðbjörn Guðjónsson sem ólst upp á Drangsnesi og er því Strandamaður í föðurætt. Móðir mín, Rakel Kristín Gunnarsdóttir, fæddist og ólst upp á Akranesi. Ég bjó í Garðinum fyrstu fjögur ár ævi minnar en þá flutti fjölskyldan í Keflavík. Hef búið þar alla tíð fyrir utan tvö ár 1998–2000 sem ég bjó á Akranesi.

– Hvert var ferðinni heitið í sumarfrínu?

Ferðinni var heitið til Tenerife í maí, Gautaborgar í júlí en báðum ferðum aflýst vegna COVID-19. Það var því ekki eins mikið um ferðalög og áætlað var.

– Skipulagðir þú sumarfríið fyrirfram eða var það látið ráðast af veðri?

Eins og áður nefndi var búið að plana ýmsar ferðir sem svo varð ekkert úr en veðrið hafði klárlega áhrif á þau fáu ferðalög sem var lagt af stað í.

– Hvaða staður fannst þér áhugaverðast að heimsækja í sumar?

Við fórum í dagsferð til Vestmannaeyja og skoðuðum eyjuna meira en oft áður. Stóðum til að mynda á Stórhöfða í nánast logni sem mér skilst að sé alls ekki algengt. Við skoðum Suðurlandið talsvert og heillaðist ég af Nauthúsagili, mjög vel falin náttúruperla sem ég mæli með að fólk skoði.

– Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?

Vil alls ekki hljóma neikvæður en það er afar fátt sem hefur komið skemmtilega á óvart – en það sem hefur klárlega bætt geðlund mína er meiri samvera með mínum nánustu. Það er ómetanlegt. Svo náði ég að spila meira golf í sumar en undanfarin ár. Það má að miklu leyti skrifa á Covid-ástandið og á klúbbmeistara Golfklúbbsins Kvíðis, hann rak okkur áfram í allt sumar.

– Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?

Langar mikið að skanna Vestfirðina og Norðausturlandið.

– Ætlar þú að ferðast eitthvað meira innanlands á næstunni?

Ekkert planað en aldrei að vita.

– Hvert er þitt helsta áhugamál?

Ég er mikill íþróttaáhugamaður og fylgist vel með knattspyrnunni og að sjálfsögðu körfuboltanum. Svo er golfið ómissandi þáttur yfir sumartímann.

– Ertu að sinna áhugamálum eins og þú vildir?

Já, get ekki kvartað. Spilaði níu holur að mig minnir síðasta sumar en hef náð að spila talsvert meira nú.

– Hvernig slakarðu á?

Í faðmi fjölskyldunnar og þar er heiti potturinn gjarnan brúkaður.

– Hvaða matur er í uppáhaldi hjá þér?

Allt kjöt, íslenska lambið klikkar aldrei og er mikill nautakjötsmaður.

– Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?

Kannski ekki tónlist sem sperrir eyrun þessa dagana. Vera Illugadóttir sem er með hlaðvarpsþáttinn Í ljósi sögunnar hjálpaði mér mikið þegar ég málaði húsið okkar í sumar.

– Horfirðu mikið á sjónvarp og hvernig?

Er ekki mikið að horfa á sjónvarp. Heimildamyndir á Netflix höfða kannski mest til mín. Ég er aðdáandi 60 Minutes og svo er það helst sportið sem ég horfi á.

– Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu?

Það er ekkert sem ég flokka sem ómissandi.

– Hver er uppáhaldsbókin þín og/eða -rithöfundur?

Á mér engan uppáhaldsrithöfund en bók sem ég snerti mig mikið var Ég lifi. Bók sem var skráð af franska sagnfræðingnum og rithöfundinum Max Gallo. Bók um pólska gyðinginn Martin Gray og hans raunir í seinni heimsstyrjöldinni. Mögnuð bók.

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?

Úff, ég veit það ekki. Læt aðra um að dæma um það.

– Uppáhaldsmálsháttur eða -tilvitnun:

Því meiru sem þú deilir, því meira getur fólk velt sér upp úr því.

– Hver er elsta minningin sem þú átt?

Líklegast dagurinn sem ég flutti úr Garðinum og á Greniteiginn í Keflavík árið 1983.

– Orð eða frasi sem þú notar of mikið:

Jebbs.

– Ef þú gætir farið til baka í tíma, hvert færirðu?

Ætli það væri ekki til Wuhan í árslok 2019 og gera mitt besta í að koma í veg fyrir Covid.

– Hver væri titillinn á ævisögu þinni?

Lífsganga meðalmannsins.

– Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til?

2020 hefur vissulega haft mikil áhrif á mig og mína – en ég held að það hafi tekist þokkalega að gera sem best úr þessu öllu saman. Ég ætla alla vega að leyfa mér að halda að það séu góðir tímar handan við hornið.

– Hver er tilfinning þín fyrir haustinu og komandi vetri?

Hún er fín, skólar og lífið líklegast að setjast í fastari skorður. Verðum við ekki að vera bjartsýn? Það er ósköp lítið annað í boði.

– Hver er besti brandari sem
þú hefur heyrt nýlega?

Ætla nú ekki að segja neinn hér en mæli með fólk kynni sér hvað Timmy the Truckdriver (AKA Örvar Kristjáns) hefur fram að færa, Timmy er snillingur að kalla fram bros og hlátur hjá fólki.