Védís Hervör sigurvegari Ljósalagsins 2006
Úrslit netkosningarinnar í Ljósalaginu 2006 liggja fyrir og voru tilkynnt í Kastljósinu í Sjónvarpinu fyrr í kvöld.
Í vor efndi Reykjanesbær til keppninnar um Ljósalagið 2006. 85 lög bárust í Ljósalagskeppnina í ár og hefur þátttakan aldrei verið meiri enda vegleg verðlaun í boði. Höfundur vinningslagsins, Ljósalagið 2006 hlýtur kr. 400.000, 2. sæti kr. 150.000 og 3. sæti kr. 100.000. Er þetta í fimmta sinn sem Reykjanesbær stendur fyrir sönglagasamkeppni tengdri Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð bæjarfélagsins en hátíðin er ætíð haldin fyrstu helgina í september.
Dómnefnd skipuð tónlistarmönnunum Elísu Geirsdóttur Newman, Guðbrandi Einarssyni og Baldri Guðmundssyni kom saman fimmtudaginn 6. júlí og valdi þau 10 lög sem keppa til úrslita. Höfundar þeirra laga eru eftirfarandi:
Jóhann G. Jóhannsson, Bryndís Sunna Valdimarsdóttir, Arnór Vilbergsson, Bragi Valdimar Skúlason, Védís Hervör Árnadóttir, Halldór Guðjónsson lag og Þorsteinn Eggertsson texti, Ólafur Arnalds lag og Friðrik Sturluson og Ólafur Arnalds texti, Magnús Þór Sigmundsson, Hilmar Hlíðberg Gunnarsson, Vignir Bergmann lag og Bjartmar Hannesson texti.
Lögin 10 voru gefin út á geisladiski sem unninn var hjá Geimsteini og kom út um miðjan ágúst og fór þá í sölu og kynningu í ljósvakamiðlum og á vefnum Ljósanótt.is. Hlustendum gafst kostur á að kjósa með netkosningu Ljósalagið 2006 á www.ljosanott.is og www.ruv.is/poppland.
Sigurvegarar þetta árið voru:
3. sæti Hilmar Híðberg
2. sæti Arnór Vilbergsson
1. sæti Védís Hervör
Sigurlagið eftir Védísi Hervöru heitir Ástfangin og er flutt af Regínu Ósk. Lagið verður flutt nk. laugardagskvöld á stóra sviðinu á Ljósanótt.
Mynd: Védís hefur áður sigrað í keppninni um Ljósalagið og þá var meðfylgjandi mynd tekin.